Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:31:00 (3223)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um þingsköp) :
     Herra forseti. Mér heyrðist að flestar þessar spurningar væru nákvæmnisútfærsluspurningar sem eðlilegast væri að fulltrúar flokka hefðu farið yfir í nefndarstarfi þar sem þetta mál var töluvert lengi til meðferðar, fremur en í almennum umræðum á þinginu þar sem menn ræða fremur um meginefni máls og meginstefnu máls.
    Ég vek líka athygli á að þingmenn geta endalaust deilt um hvort spurningum hafi verið svarað með fullnægjandi hætti og við þekkjum mörg dæmi þess og sjálfsagt endalaus dæmi þess að þingmenn telja að enn hafi þeir ekki fengið fullnægjandi svör við hinum fjölbreyttustu atriðum sem þeir hafa spurt ráðherra um.
    Ég vek í þriðja lagi athygli á því að hæstv. heilbrrh. svaraði allmörgum atriðum í sinni ræðu. Ég varð ekki var við að það hefði orðið til þess að greiða fyrir framgangi málsins eins og hv. þm. virðist telja að slík svör virtust gera.
    Í fjórða lagi vek ég athygli á því og það veit hv. þm. ábyggilega vel að það er ekki líklegt að ráðherra sem hleypur í skarðið fyrir hæstv. heilbrrh. núna í morgunsárið sé líklegur til að veita gleggri svör við spurningum af þessu tagi en hæstv. heilbrrh. gerði sjálfur í mjög löngu máli sem hann hélt hér og menn hafa orð á.