Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:34:00 (3226)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli hæstv. forsrh., sem löngum er stórorður um þingmenn og málflutning þeirra undir þingskapaumræðu, að hér hefur komið í ljós á þessum sólarhring að tvö tilvik þar sem neitað hefur verið í nefndum að kalla á þann aðila í stjórnkerfinu sem veitt getur upplýsingar hafa orðið til þess að tefja fyrir afgreiðslu mála á Alþingi. Fyrra tilvikið var þegar í efh.- og viðskn. var á sínum tíma neitað að kalla á stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands og það var ekki fyrr en eftir ítrekuð tilmæli og eftir að ég hafði tekið málið hér sérstaklega upp að farið var í það að kalla á stjórn Framkvæmdasjóðs og þær upplýsingar sem hún veitti hafa síðan orðið til þess að þingmenn hafa talið sig þurfa nánari umþóttunartíma áður en þeir tækju endanlega afstöðu til málsins. Ef fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu ekki neitað því í desember að kalla á stjórn Framkvæmdasjóðs gæti vel verið að það frv. væri þegar orðið að lögum.
    Eins upplýsir hv. þm. Finnur Ingólfsson það að neitað hafi verið í heilbr.- og trn. að kalla á tryggingayfirlækni til að veita þessar upplýsingar. Það er auðvitað eðli nefndarstarfanna að það sé vettvangur til að greiða úr óvissu, ekki þingsalurinn. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. Það höfum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar sagt hvað eftir annað í allan vetur. En það eru þau vinnubrögð sem ríkisstjórnarliðið hefur í mörgum tilvikum en alls ekki öllum tileinkað sér í nefndunum, að neita upplýsingum, neita því að stjórnarandstaðan fengi eðlilegan tíma, sem hefur sett þessi mál oft í hnút.
    Ég vil þess vegna endurtaka þá ósk, sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson setti fram fyrr í dag, að ríkisstjórnarliðið dragi nú þann lærdóm af þessari reynslu að beina þeim tilmælum til fulltrúa sinna sem stýra nefndarstarfinu að þeir hætti að neita sanngjörnum og eðlilegum óskum stjórnarandstöðunnar um að kalla á æðstu embættismenn á viðkomandi sviðum.
    Síðan vil ég þakka hæstv. félmrh. fyrir skynsamleg orð hjá henni. Þau hefðu betur komið fram fyrr. Það hefði greitt fyrir gangi mála og sýnir að það eru nú ýmsir í stjórnarliðinu sem hafa reynslu og skilning til að bera til að greiða fyrir umræðum.