Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 11:19:00 (3233)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er um að ræða tillögu sem gerir ráð fyrir að skerða fjárhag Kvikmyndasjóðs á árinu 1992 um 14 millj. kr., en það eru fjármunir sem nota á til að standa að svokölluðu norrænu kvikmyndaverkefni. Með þessari skerðingu er útlánageta Kvikmyndasjóðs minni en hún hefur nokkurn tíma áður verið í rauntölum. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki treyst sér til að koma til móts við áskoranir um að hækka framlagið til sjóðsins á móti skerðingunni vegna hins samnorræna kvikmyndaverkefnis.
    Ég tel út af fyrir sig óhjákvæmilegt að standa við þau loforð sem gefin hafa verið í sambandi við norræna kvikmyndaverkefnið. Ég treysti mér hins vegar ekki til að greiða atkvæði með þessari brtt. og mun því sitja hjá í þessari atkvæðagreiðslu, virðulegi forseti.