Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 11:25:00 (3236)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Í gærkvöld var haldinn á Akureyri einhver fjölmennasti fundur sem þar hefur verið um langt árabil þar sem launafólk krafðist þess að meginatriði þessa frv. yrðu dregin til baka ef hægt á að vera að ganga til eðlilegra kjarasamninga. Í gær gerðist það einnig að forusta Verkamannasambands Íslands samþykkti formlega að ríkisstjórnin drægi til baka öll meginefnisatriði þessa frv. ef eðlilegar viðræður um nýja kjarasamninga gætu hafist.

    Það er alveg ljóst að það frv. sem hér á að samþykkja er mesti friðarspillir í okkar þjóðfélagi sem fram hefur komið á síðari tímum. Hreyfing launafólks krefst þess að frv. sé breytt. Almenningur í landinu er hneykslaður á þeim siðferðisgrundvelli sem frv. er byggt á. Það væri skynsamlegast fyrir hæstv. ríkisstjórn að draga frv. til baka og ganga með heilum huga til viðræðna við samtök launafólks. Við vildum stuðla að því að slíkt gæti gerst, erum á móti þessu frv. og segjum nei.