Lánsfjárlög 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 12:16:00 (3246)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Mikið væri gaman ef þetta væri eins og hæstv. forsrh. er að lýsa og við gætum sameiginlega lokið þessum verkum í þeirri trú og vissu að þetta væri allt í lagi, en það er ekki svo, því miður. Hæstv. forsrh. sleppti alveg að nefna að það er vaxandi atvinnuleysi í landinu. Hann sleppti alveg að nefna að það er bullandi taprekstur í sjávarútveginum og útflutningsgreinunum. Hæstv. forsrh. sleppti alveg að nefna að mánuð eftir mánuð hefur hið háa raunvaxtastig haldist löngu eftir að nokkur tilefni voru fyrir því, og þau voru reyndar aldrei, að keyra raunvextina upp undir 10%. Þessum hlutum og mörgum fleirum sneiddi hæstv. forsrh. hjá og hann svaraði því ekki einu orði hvað hefði komið í staðinn fyrir álverið og hvað ætti að koma í staðinn fyrir EES sem hann er sjálfur búinn að dæma til dauða. Þess vegna er það því miður ekki svo sem hæstv. forsrh. var að gefa í skyn með andsvari sínu að með þessum merkilegu málum ríkisstjórnarinnar væri allur vandi leystur og allt komið í fína lag. Þeir eru a.m.k. ekki þeirrar skoðunar Einar Oddur, Þórarinn V., Ásmundur, Björn Grétar, Ögmundur og aðrir þeir sem eru að glíma við gerð kjarasamninga núna á þessum vikum. Við í stjórnarandstöðunni erum ekki þeirrar skoðunar og fjölmennir hópar úti í þjóðfélaginu og samtök eru ekki þessarar skoðunar að allt sé í fína lagi. Ég hygg að hagsmunagæslumenn sjávarútvegsins mundu, a.m.k. í trúnaðarsamræðum við sjútvrh., viðurkenna að þeir

telja ekki vera allt í fínu lagi með stöðu sjávarútvegsins og rekstrarumhverfi hans og möguleika hans til að greiða af sínum 100 milljarða skuldum. Þetta er því miður ekki svona einfalt, hæstv. forsrh. Kannski eigum við, eins og þú réttilega stakkst upp á, eftir að ræða þetta í þinginu ítarlegar síðar í vetur, en ég hlaut að gera þessa athugasemd við þitt andsvar því að þú sagðir ekki nema hálfa söguna, reyndir að tína til fáein jákvæð atriði, sem ég tel að þú hafir oftúlkað, en slepptir öllu hinu sem úrskeiðis er enn.