Lánsfjárlög 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 12:24:00 (3250)

     Jón Helgason :
     Herra forseti. Við höfum lokið við að afgreiða frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég var á mælendaskrá við 2. umr. þess frv., en til að greiða fyrir afgreiðslu þess dró ég mig til baka og ætlaði þá að ræða málið við 3. umr. En vegna þess hvað það dróst á langinn nú í nótt féll ég einnig frá því. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að ræða það mál efnislega, en eftir þessa næturvöku eru tvö atriði sem ég vildi þó aðeins minnast á.
    Hið fyrra er hin fullkomna fjarstýring hæstv. fjmrh. á störfum forseta Alþingis sem birtist undir lok umræðnanna í nótt og hitt eru ummæli hæstv. forsrh.
    Hv. 11. þm. Reykv. knúði í umræðunum í nótt mjög fast á um að fá svör við mjög þýðingarmiklum atriðum sem snertu málefni öryrkja. Og fyrir velvilja og góðar undirtektir hæstv. félmrh. fengust mjög skýr og góð svör við því. En til að ná því fram þurfti m.a. umræður um þingsköp til að leita leiða að fá þessi svör. Og undir þeirri umræðu stendur hæstv. forsrh. upp og segir m.a.: ,,Þá byrjar þessi skrípaleikur hér sem ekki er óþekktur.`` Að mínu mati er það nöturleg sjálfslýsing á því sem efst er í huga hæstv. forsrh. þegar knúið er á um hagsmuni og réttindi þeirra sem lakast eru settir í þjóðfélaginu.
    Að lokum ein spurning til hæstv. fjmrh. Nú stendur yfir mikil vinna í öllum ráðuneytum um að framkvæma þann niðurskurð sem hér var verið að lögfesta og einnig að deila út þeim vasapeningum eða þeim milljarði sem ráðuneytin fengu til ráðstöfunar að eigin geðþótta. Maður heyrir sagt að þessu þurfi að vera lokið fyrir mánaðamót. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann muni þegar þing kemur saman aftur eftir hálfs mánaðar hlé leggja fram skýrslu um þessar útdeilingar og aðgerðir eða þurfa hv. alþm. að óska eftir skriflegri skýrslu um allt þetta mál?