Framkvæmdasjóður Íslands

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 12:36:00 (3254)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Herra forseti. Í rauninni er víðtæk samstaða um meðferð þessa máls eins og fram kemur á nefndarálitum. Meiri hlutann skipa fulltrúar í efh.- og viðskn. frá Sjálfstfl., Alþfl. og Kvennalista sem þó undirritar með fyrirvara og 1. minni hluti segir í sínu nál.:
    ,,Fyrsti minni hluti efh.- og viðskn. mun ekki leggjast gegn afgreiðslu þessa frv. og telur ekki óeðlilegt að þær breytingar verði gerðar á skipan mála sem frv. gerir ráð fyrir.`` Þannig að um þennan farveg málsins er í sjálfu sér allvíðtæk samstaða þótt, eins og kunnugt er, menn hafi rætt aðra þætti og einkum þá umræðu sem hefur skapast um stöðu annarra sjóða og þessa sjóðs í samhengi við störf svokallaðrar fortíðarvandanefndar. En meginlínan nýtur nokkuð mikils og góðs stuðnings.
    Ég vil aðeins nefna hér vegna nokkurrar umræðu sem varð hér síðast þegar málið var til umræðu um hættuna á því að stærstu skuldareigendur og jafnvel allir mundu með vísun til heimilda í skilmálum skuldabréfa gjaldfella skuldir vegna stöðu sjóðsins og breytinga á högum hans, taka fram og ítreka það sem ég talaði um í gær að í flestum ef ekki öllum tilvikum yrði staða skuldareigandans síst lakari við þær breytingar sem gerðar eru. Ég árétta að það hefur þegar verið rætt við fjóra langstærstu skuldareigendur þeirra skulda sem Framkvæmdasjóður ber og hefur komið fram að þar er ekki um nein vandamál að ræða hvað þessi ákvæði snertir.
    Ég vildi að þetta kæmi fram. Ég tel ekki eðlilegt að breyta neinu vegna þess sem hv. 5. þm. Vestf. nefndi um gildistökuákvæðin því að þær upplýsingar og álitamál sem menn geta haft um hver sé endanleg hallatala þessa sjóðs breytir ekki neinu í þessu sambandi og öll þau sjónarmið geta auðvitað komið fram.
    Ég veit að það er kannski ekki alveg viðeigandi, en ég ætla samt að fagna þeim góðu fréttum að Íslendingur skyldi fá bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.