Framkvæmdasjóður Íslands

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 13:06:00 (3260)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Forseti vill að gefnu tilefni, vegna orða hv. 2. þm. Vestf., upplýsa að það er gott samkomulag um hvernig staðið er að lokum þessarar fundalotu í dag og það er rétt, sem kom fram hjá honum, að nöfn ýmissa þeirra hv. þm. og reyndar ráðherra sem eru fjarverandi voru ekki lesin upp þegar tilkynnt var um þá sem hafa beðið um fjarvistarleyfi og eru ýmsar skýringar á því. Ég vil sérstaklega geta þess að hæstv. sjútvrh. og hv. 3. þm. Suðurl., sem fóru til Vestmannaeyja á fund í gær, eru veðurtepptir í Vestmannaeyjum. Það var ekki lesið upp í upphafi fundar hvers vegna þeir væru fjarverandi og þótti ekki ástæðu til, en að þessu gefna tilefni vill forseti upplýsa þetta, jafnframt að hv. 18. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, er fjarverandi vegna veikinda og það var heldur ekki lesið upp, en þetta vissi forseti vel.
    Og svo er annað. Það er í góðu samkomulagi milli þingflokksformanna stjórnar og stjórnarandstöðu að leysa þessi mál vegna fjarveru þingmanna. Þess vegna eru nokkrir þingmenn ekki inni í salnum til að greiða atkvæði. Eins og hv. þm. veit að oft gerist semja menn um að fara út, sem kallað er, á móti félaga sínum úr öðrum flokki sem er forfallaður og er ekki venja að lesa upp fjarvistir þeirra hv. þm. sem svo er ástatt um.
    Þetta vill forseti láta koma fram um leið og forseti tekur undir að þessari fundarlotu lýkur við þessar óvenjulegu aðstæður. En þetta hefur verið gert í góðu samkomulagi og góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna og vill forseti gjarnan láta í ljós ánægju sína með það og þakklæti að þessu gefna tilefni.