Lánsfjárlög 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 13:25:00 (3264)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Við þingmenn Alþb. munum styðja þessa brtt. Við teljum rétt miðað við aðstæður að veita þessa heimild, að hún verði fyrir hendi og unnt verði að grípa til hennar í einhverjum mæli og nota hluta hennar til að hefja einhverja síldarsöltun á þessari vertíð ef ekki reynist unnt að koma þessum viðskiptum á með öðru móti. Það er ástæða til þess og óhjákvæmilegt að átelja þann seinagang og það klúður sem orðið hefur hjá hæstv. ríkisstjórn í þessu máli, einkum og sér í lagi hæstv. viðskrh. sem lá á þessu máli í 17 daga og hreytti svo í umræðum um þetta atriði hér í þinginu ónotum í allt og alla, þar á meðal í Landsbankann og síldarútvegsnefnd. Mjög dýrmætur tími hefur tapast, 5--6 vikur, frá því átt hefði að vera hægt að hefja síldarsöltun. Það er því ljóst að komi til þess að nýta þessa heimild verður það aldrei nema að einhverju mjög litlu leyti á þessari vertíð. Og miðað við þá óvissu og það klúður sem orðið hefur í þessu máli en þá ríku hagsmuni sem á móti koma að orðið geti af þessum viðskiptum í einhverjum mæli, þá styðjum við það þingmenn Alþb. að þessi heimild verði fyrir hendi. Ég segi já.