Lánsfjárlög 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 13:30:00 (3265)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Þau lánsfjárlög sem eru nú til lokaafgreiðslu eru veigamikill þáttur í þeirri ríkisfjármálastefnu sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að knýja fram. Þessi stefna felur í sér róttæka stefnubreytingu varðandi okkar mikilvæga velferðarkerfi. Ráðist er að menntakerfi, félagslegri uppbyggingu og heilbrigðis- og tryggingamálum, svo sem ítarlega hefur verið rakið af fulltrúum stjórnarandstöðunnar í umræðum að undanförnu. Sérstakir skattar eru lagðir á skólafólk, sjúka og aldraða í stað þess að láta þá bera byrðarnar sem geta borið þær. Kjarasamningar eru í uppnámi vegna þessara árása á velferðarkerfið og vegna úrræða- og aðgerðarleysis hæstv. ríkisstjórnar í vaxta- og atvinnumálum. Við þessar aðstæður teljum við framsóknarmenn ekki tímabært að afgreiða lánsfjárlög og munum því sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.