Framhald þingfunda

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:30:00 (3267)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Ég vil bjóða hv. alþingismenn velkomna til starfa eftir tveggja vikna hlé sem hefur verið á störfum þingsins, síðbúið jólahlé eða síðari hluti jólahlés eftir því hvað menn vilja kalla það. Ég vona að hv. þm. hafi nýst þetta hlé til að sinna þeim þáttum þingmannsstarfsins sem óhjákvæmilega fer fram utan þessa salar. Ég á þá við fundi og önnur störf með kjósendum svo og störf á erlendum vettvangi. Mér er kunnugt um að allmargir þingmenn hafa sótt fundi erlendis á vegum Alþingis síðustu daga.
    Í tæpa hálfa öld, eða frá stríðslokum 1945, hefur ríkt nokkur festa um þingtímann hér á Alþingi. Þingfundir hafa staðið frá fyrri hluta októbermánaðar og fram til jóla en þá verið gert jólahlé og hefur það venjulega staðið fram eftir janúar. Þingfundir hafa síðan hafist að nýju og staðið fram á vorið, mislengi að vísu eftir aðstæðum.
    Nú hefur það hins vegar gerst í þriðja sinn á sl. fimm árum að brugðið hefur verið frá þessari starfsvenju Alþingis og hefðbundið jólahlé rofið vegna áríðandi og aðkallandi verkefna þingsins í janúarbyrjun. Má það vera okkur alþingismönnum nokkurt umhugsunarefni og vekur raunar þá spurningu hvort ástæða sé til að endurskoða starfstíma þingsins og skipa honum með öðrum hætti en verið hefur.