Slippstöðin á Akureyri

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:40:00 (3270)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Þessi fsp. er í tveimur liðum. Sem svar við fyrri liðnum vil ég segja þetta: Fjárhagsstaða Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri skýrðist verulega þegar fyrir lá niðurstaða um sölu á nýsmíðaskipi fyrirtækisins. Um sl. áramót var talið að eigið fé fyrirtækisins næmi 80--100 millj. kr. Það er að vísu eiginfjárstaða sem er lakari heldur en verið hefur á undanförnum árum, eða u.þ.b. 9% trúi ég, miðað við 20--40% jafnvel eins og hún hefur verið á undanförnum árum. Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir því að gripið verði til allrar þeirrar rekstrarhagræðingar sem verða má til að komast hjá frekari taprekstri. Í því sambandi hafa laun yfirstjórnenda verið lækkuð, starfsmönnum fækkað og eignir seldar. Þessar aðgerðir hafa nú þegar skilað árangri sem kemur þó fyrst fram á yfirstandandi ári. Ríkisstjórnin hefur ekki ákveðið aðrar aðgerðir til að mæta fjárhagserfiðleikum fyrirtækisins. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa átt fundi með ráðherrum, bæði fjmrh. og iðnrh., og gert grein fyrir stöðu mála. Jafnframt hafa farið fram viðræður við fulltrúa Akureyrarbæjar, sem er næststærsti hluthafi, um viðhorf þeirra og vilja til að bæta fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Engin niðurstaða liggur fyrir í málinu.
    Á fundi sem ég átti með fulltrúum ríkisstjórnarinnar í stjórn Slippstöðvarinnar hinn 17. fyrra mánaðar fór ég fram á það að fulltrúarnir veltu upp þeim möguleikum sem þeir teldu að kæmu til greina til að leysa vandkvæði Slippstöðvarinnar. Má geta þess að auðvitað kemur til greina að fjölga hluthöfum Slippstöðvarinnar.
    Annar liður fsp. fjallar um smíði á svokölluðu B-70 skipi. Svar við þessum lið er að smíðakostnaður umrædds skips er talinn vera 442 millj. kr. og fjármagnskostnaður umfram það sem eðlilegt getur talist er um 83 millj. Þegar talað er um fjármagnskostnað umfram það sem eðlilegt getur talist er verið að tala um fjármagnskostnað fyrir þann tíma sem skipið lá, var í smíðum, umfram það sem eðlilegt getur talist þegar smíðað er fyrir fastákveðinn viðskiptavin.
    Söluverð skipsins var 311 millj. kr. samkvæmt samningi við Matthías Óskarsson, útgerðarmann og skipstjóra í Vestmannaeyjum. Engin ákvörðun hefur verið tekin um það hvort ríkissjóður eða aðrir hluthafar taki á sig þann fjármagnskostnað sem safnast hefur upp á liðnum árum. En eins og ég hef áður sagt er málið til áframhaldandi skoðunar.