Slippstöðin á Akureyri

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:45:00 (3272)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir ) :
     Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin þó að þau væru kannski svolítið mögur. Mér er kunnugt um það að gripið hefur verið til aðgerða í Slippstöðinni til að spara í rekstri eins og kom fram í svari hans. Starfsmenn eru nú um 150 og að auki eru 20 eða 30 starfsmenn með uppsagnarbréf í vasanum. Þegar flestir starfsmenn voru hjá þessu fyrirtæki voru þeir um 300. Þetta er alveg gífurlegur samdráttur sem þarna hefur átt sér stað og segir sitt í þessu bæjarfélagi.
    Ég get sagt eins og síðasti ræðumaður, hv. 4. þm. Norðurl. e., að auðvitað setur maður allt sitt traust á núv. hæstv. fjmrh. í þessu málefni þar sem málið heyrir undir hann. En ég get tekið undir það að mér finnst að hann ætti að kynna sér hvað fyrrv. ríkisstjórn hafði gefið af fyrirheitum í þessum efnum.
    Ástæða væri til að minna hér á ýmis stór orð sem hafa verið látin falla í tengslum við það frv., sem ég nefndi áðan, og hæstv. samgrh. hafði um þetta fyrirtæki. Ég ætla þó ekki að gera það af því að hann er fjarstaddur. Ég segi það aftur að það er svo gífurlega stórt atriði fyrir atvinnulífið á Akureyri og fyrir útgerðina sem slíka að þetta fyrirtæki geti haldið áfram að vera í fullum rekstri, þótt ekki verði um nýsmíði að ræða, að stjórnvöld hljóta að hafa þar afskipti af málum.
    Það er einblínt á það núna hjá fyrirtækinu að vera fyrst og fremst með þjónustu við flotann. Hugsanlega er hægt að ná frekari viðskiptum, t.d. við kaupskipaflotann. Þá þarf að bæta aðstöðuna í slippnum sem auðvitað kostar fjármuni. Þetta fyrirtæki er mjög mikils virði bæði fyrir útgerðina og ekki síst fyrir atvinnulífið á Akureyri og ég treysti því að hæstv. fjrmh. geri allt sem í hans valdi stendur til að það geti haldið áfram rekstri. Ég álít að það sem nú hefur verið gert í sambandi við samdrátt í yfirstjórnun og öðru slíku dugi ekki til. Það dugir ekki til þegar haft er til hliðsjónar að á síðasta ári tapaði fyrirtækið, eftir því sem ég best veit, hátt á annað hundrað milljónum kr.