Slippstöðin á Akureyri

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:55:00 (3276)

     Svavar Gestsson :

     Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur frv. til laga um ráðstafanir í skipasmíðaiðnaði. Þetta frv. er flutt af mér og fleiri þingmönnum Alþb. og þar er gert ráð fyrir að taka á þessum málum heilstætt, ekki aðeins þeim málum sem snerta Slippstöðina á Akureyri þar sem fjmrh. á auðvitað að sjá sóma sinn í að fylgja þeirri stefnu og þeim fyrirheitum sem gefin voru á sinni tíð, heldur er líka tekið á vandamálum skipasmíðaiðnaðarins í heild, m.a. á innflutningi og einnig á þeirri þjónustu erlendis sem íslenskir skipaeigendur hafa kosið að kaupa. Ég tel mjög mikilvægt að frv. verði tekið á dagskrá hið allra fyrsta, virðulegi forseti, í framhaldi af þessari umræðu. Ég þakka fyrir þá ræðu sem hv. 16. þm. Reykv. flutti áðan, vegna þess að hann flutti í raun og veru hluta af þeirri framsöguræðu sem ég hafði hugsað mér að flytja fyrir því frv. sem hér er um að ræða. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að málið komist sem fyrst á dagskrá til þess að draga þá fjmrh. og hæstv. iðnrh. til umræðna um málið og ekki síst þann síðarnefnda sem á langan feril lítilla dáða í þessu máli.