Endurnýjun skipakosts Landhelgisgæslunnar

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:03:00 (3283)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
     Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrir hæstv. dómsmrh. fyrirspurn og gerði það reyndar á haustönninni, ef svo má að orði komast, sem varðar endurnýjun á skipakosti Landhelgisgæslunnar. Skipin hafa sem sagt elst um nokkra mánuði síðan ég lagði fram þessa fyrirspurn en það breytir ekki þeirri staðreynd nema síður sé að þau eru mjög að komast til ára sinna, sá annars ágæti skipakostur sem Landhelgisgæslan íslenska fékk í byrjun áttunda áratugarins eða í lok þess sjöunda, hvenær það nú var, og alveg ljóst að löngu er orðið tímabært að huga að endurnýjun þessa mikilvæga skipakosts. Ég hef saknað þess nokkuð að menn hafi fjallað um þennan þátt í störfum Landhelgisgæslunnar í umræðum undanfarin missiri um starfsemi gæslunnar. Mikil umræða og skiljanleg hefur farið fram um endurnýjun á þyrlukosti gæslunnar, en minna verið á það minnst að skipakosturinn er að sjálfsögðu engu síður mikilvægur og ómissandi í björgunar-, gæslu-, eftirlits- og þjónustuhlutverki sínu. Og þess vegna er alveg óumflýjanlegt að mínu mati að fara að marka stefnu í þessu efni. Hvenær og með hvaða hætti hyggjast menn endurnýja skipakost Landhelgisgæslunnar og tryggja að hann sé í góðu og nýtískulegu horfi á hverjum tíma?
    Eðlilega leiða menn hugann að því hvort þarna gæti verið á ferðinni verkefni fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað. Ég teldi vel til fundið að það yrði kannað samhliða, þ.e. hvaða leiðir þættu vænlegastar varðandi þessa endurnýjun og áætlun unnin um það hvenær og með hvaða hætti skipakosturinn yrði endurnýjaður. Jafnframt yrði kannað hvort þar gæti ekki orðið, a.m.k. að einhverju leyti, verkefni fyrir innlendan skipasmíðaiðnað.
    Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fyrir hæstv. dómsmrh. svohljóðandi spurningar:
  ,,1. Hvað líður undirbúningi að endurnýjun skipakosts Landhelgisgæslunnar?
    2. Er þess að vænta að samið verði um smíði á nýju varðskipi á næsta ári?`` --- Þá er rétt að ítreka að þessi fyrirspurn var lögð fram á árinu 1991.
  ,,3. Hefur verið eða verður kannað sérstaklega hvort innlendar skipasmíðastöðvar geti annast smíði á nýjum gæslu- og björgunarskipum fyrir Landhelgisgæsluna?``