Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:18:00 (3289)

     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í nóvember 1990 mælti undirrituð, sem 1. flm., fyrir till. til þál. um fræðslu í fjármálaumsýslu í skólum. Eftir afgreiðslu málsins úr nefnd þann 12. mars 1991 samþykkti Alþingi síðan eftirfarandi ályktun:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta útbúa námsgögn um almenna fjármálaumsýslu fyrir efsta bekk grunnskólans, sem og framhaldsskólann, og gera fræðslu um hana að skyldunámsefni á þessum námsstigum. Ráðuneytið ákveði í hvaða námsgreinum fræðslunni verði best fyrir komið.
    Markmið fjármálafræðslunnar verði:
    1. að taka til meðferðar sem flest er við kemur almennri fjármálaumsýslu, þar með talin gerð greiðslu- og kostnaðaráætlana, og setja efnið þannig fram að það verði öllum aðgengilegt og skýrt,
    2. að gera ungt fólk betur meðvitað um fjármál og um leið fjárskuldbindingar með því m.a.:
    a. að kynna nemendum meðferð greiðslukorta og notkun tékkhefta,
    b. að kynna nemendum almennar reglur um lántökur, svo sem víxla- og skuldabréfaviðskipti, vaxtamál og hvaða ábyrgð felst í því að gerast ábyrgðarmaður á skuldaviðurkenningum,
    c. að tengja þessi námsgögn réttindum og skyldum manna er þeir verða fjárráða.``
    Í framsögu með tillögunni benti ég á nauðsyn þess að stuðla að því að ungt fólk verði betur undir það búið að verða fjárráða og þá fjármálalegu umsýslu sem fylgir fullorðinsárunum, ekki síst gjörbreyttri fjármálaumsýslu heimilanna í landinu. Með fullri verðtryggingu runnu þeir dagar upp að fólk þurfti að greiða skuldbindingar sínar að fullu. Svo virðist sem á skorti að verðbólgukynslóðin hafi skilað til næstu kynslóðar þeim viðhorfum um ábyrgð í fjármálum sem nauðsynleg eru. Stöðugt fleiri einstaklingar hafa orðið gjaldþrota m.a. vegna húsnæðisöflunar og jafnvel neysluskulda og því miður sökum þess að þeir hafa gerst ábyrgðarmenn á skuldum vina eða ættmenna sem lent hafa í erfiðleikum eða misst eigur sínar. Þá lágu fyrir upplýsingar um gjaldþrot einstaklinga þar sem m.a. kom fram að 139 einstaklingar undir þrítugu voru lýstir gjaldþrota á átta mánaða tímabili bara hjá embætti borgardómara í Reykjavík.
    Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þær góðu undirtektir og mikla stuðning sem málið fékk í þinginu.
    Virðulegi forseti. Á þskj. 190 er frv. til laga um breytingu á grunnskólalögunum, flutt af Guðna Ágústssyni og Stefáni Guðmundssyni og er efnislega á sömu lund og sú þál. sem ég hef fjallað um. Þar er gert ráð fyrir að fræðsla um fjármál einstaklinga og ábyrgð á fjárskuldbindingum sé tekin upp í efstu bekkjum grunnskóla.
    Framkoma þessa frv. m.a. gefur mér tilefni til að spyrja hæstv. menntmrh. hvað líði framkvæmd þáltill.