Varnir gegn vímuefnum

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:30:00 (3293)

     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 100 um auknar varnir gegn vímuefnum. Flm.

tillögunnar ásamt undirritaðri eru Karl Steinar Guðnason, Gunnlaugur Stefánsson, Össur Skarphéðinsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Magnús Jónsson og Sigurður E. Arnórsson.
    Sú till. sem hér er mælt fyrir er endurflutt lítillega breytt. Hún var áður flutt á 113. löggjafarþingi, fór til nefndar og til umsagnar en náði ekki að vera rædd í nefndinni né afgreidd. Hún er um það að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að beita sér þegar í stað fyrir auknum samræmdum aðgerðum til að draga úr notkun vímuefna. Tillögugreininni fylgja sex markmiðslýsingar sem ég fjalla nánar um í framsögunni.
    Mikil óhamingja dynur yfir fjölskyldu þegar einhver úr fjölskyldunni verður vímuefnum að bráð. Óhætt er að fullyrða að meðal þjóðarinnar er mikill einhugur um það markmið að auka varnir gegn vímuefnum, að grípa til hvers konar aðgerða til að sporna gegn dreifingu og notkun vímuefna. Þingmenn hafa gefið þessum málum gaum með fyrirspurnum og tillögum og á vegum ríkisvaldsins hafa verið skipaðar nefndir til að fjalla um þessi mál. Framkvæmdanefnd til að samhæfa aðgerðir í baráttunni gegn útbreiðslu og notkun ávana- og fíkniefna skilaði ítarlegri skýrslu með tillögum í apríl 1987. Sumum þeirra tillagna hefur verið hrint í framkvæmd, svo sem skipan samstarfsnefnda ráðuneyta í ávana- og fíkniefnamálum sem ætlað er að samhæfa aðgerðir hins opinbera í þessum efnum. Áhugamannasamtök hafa verið stofnuð um forvarnastarf og meðferðarúrræði og oft orðið eins konar þjóðarvakning um þau mál. Má í því sambandi nefna foreldrasamtökin Vímulausa æsku, Krýsuvíkursamtökin og Samtök áhugamanna um áfengisvandamálin, SÁÁ.
    Þó að ég geti sérstaklega þessara aðila í tengslum við eins konar þjóðarátak skal í engu hallað á þau fjölmörgu félög og samtök sem vinna að forvörnum eða almennt að æskulýðsstarfi eða rýra þátt sveitarfélaganna því að á vegum þeirra fer víða fram öflugt forvarnastarf. Hjá sveitarfélögunum tengjast forvarnir í ávana- og fíkniefnamálum beint og óbeint félagsmálastofnunum, starfsemi útideilda, starfsemi félagsmiðstöðva og unglinga- og fræðslustarfi skólanna. Rauði kross Íslands starfrækir sérstaka hjálparstöð fyrir unglinga sem eru í vanda staddir. Þótt vandi þeirra sem þangað leita sé af ýmsum toga hefur það komið fram í könnunum að ákveðið hlutfall þessara unglinga hefur neytt fíkniefna. Öll aðhlynning skiptir máli og þess vegna er ástæða til að fagna þeirri tilraun Fríkirkjunnar á þessum vetri að hafa opið hús að kvöld- og næturlagi um helgar. Þrátt fyrir góðan vilja hefur lítt tekist að samhæfa og fylgja eftir því starfi sem ýtt er úr vör af áhugasamtökum sem hafa takmarkaða getu til að fylgja því eftir. Skort hefur á markvissa stefnumörkun hins opinbera í þessum efnum og hef ég tekið Krýsuvík sem dæmi. Ríkið og Samtök sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi og reyndar fleiri áttu hálfbyggt skólahúsnæði í Krýsuvík sem Krýsuvíkursamtökunum var látið eftir. Þessi samtök fengu góðar undirtektir landsmanna í þeirri viðleitni sinni að koma á laggirnar fyrsta meðferðarheimilinu fyrir unga fíkniefnaneytendur. Þegar uppbygging var komin vel á veg kom í ljós að stefnumörkun ríkisvaldsins var á þá lund að meðferð ungra fíkniefnaneytenda skyldi vera á vegum ríkisins og var keypt annað húsnæði til starfseminnar. Þar með var á vissan hátt kippt grundvellinum undan þeirri starfsemi sem fyrirhuguð var í Krýsuvík þótt samtökin hafi reyndar tekið einstaklinga í vistun og meðferð og haldið uppbyggingu áfram. Ég nefni þetta mál sem dæmi um hvað gerist þegar framkvæmdin kemur fyrst og stefnumörkunin seinna því það er sóun á fjármunum.
    Landlæknisembættið boðaði til nokkurra samráðsfunda veturinn og vorið 1990 um fíkniefnaneyslu unglinga, áhættuhópa og úrbætur. Niðurstaða þess samstarfs var kynnt í skýrslunni Ungir vímuefnaneytendur --- Hvaðan koma þeir og hvert halda þeir? Vakti hún mikla athygli, ekki síst þær upplýsingar að allt að 500 unglingar á aldrinum 13--19 ára væru djúpt sokknir í fíkniefnaneyslu og ástandið hefði versnað mjög á síðustu árum. Í skýrslunni er bent á hvað hópurinn telur helst til ráða. Jafnframt er bent á þann mikla kostnað sem er samfara vistun á sjúkrastofnunum og að stofnanameðferð geti aldrei komið í stað forvarna. Við tökum undir þau sjónarmið sem þar voru sett fram og að hluta til birtast í tillöguflutningi okkar.
    Fyrir tveimur mánuðum stóð heilbrrn. fyrir ráðstefnu um áfengis- og vímuefnavarnir. Hátt í 200 manns víðs vegar að af landinu sóttu ráðstefnuna sem fjallaði um nýtt frv. til laga um áfengis- og vímuefnavarnir. Í því frv. er komið inn á félags- og fræðslumál ásamt heilbrigðisþættinum og þar með suma þá þætti sem þessi tillaga fjallar um, m.a. áfengis- og vímuvarnasjóð sem fái 2% af brúttósölu áfengis, en hlutverk sjóðsins er að kosta áfengis- og vímuvarnastarf samkvæmt lögunum. Ég vona að frv. verði lagt fram á Alþingi hið fyrsta.
    Sú ályktun sem ég mæli hér fyrir í dag er niðurstaða starfshóps á vegum þingflokks Alþfl. sem á sl. vetri átti viðræður og fundi með fjölda aðila sem að þessum málum starfa. Við völdum að leggja áherslu á fáa, afmarkaða þætti og aukna samræmingu í tillögum okkar. Í fyrsta lagi leggjum við til að sami aðili fari með rannsókn fíkniefnamála á landinu öllu og hafi sjálfstæðan fjárhag. Fíkniefnasviðið er eitt þriggja sviða innan rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík. Samkvæmt reglugerð sem sett var fyrir rúmu ári var ávana- og fíkniefnadeildinni fengið aukið vægi og henni gert að sinna beiðnum um aðstoð frá embættum utan Reykjavíkur. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja þessum þýðingarmikla hluta löggæslunnar nægilegt sjálfstæði til að hún geti tekist á við þau verkefni sem henni eru ætluð. Fíkniefnadeild, sem hefur skyldur og ábyrgð gagnvart öllu landinu, á að vera annað og meira en einn hluti af rannsóknardeild lögreglustjórans í Reykjavík. Því viljum við gera fíkniefnalögregluna ábyrga fyrir þessum málaflokki, bæði hvað varðar aðgerðir og fjármál. Við teljum alveg nauðsynlegt að sé aðgerð í gangi af hálfu fíkniefnalögreglu hafi hún bæði sjálfstæði og fjárhagslegt bolmagn til að ljúka þeirri aðgerð, telji hún það nauðsynlegt til að

afstýra því að vímuefni komist hér á markað. Hún má ekki tengjast annarri fjárhagslegri forgangsröðun verkefna á vegum löggæslunnar.
    Því er haldið fram að viðskipti með fíkniefni á heimsmarkaði komi næst á eftir vopnaviðskiptum í fjármagnsveltu og undan olíuviðskiptum svo að hér er verið að tala um gríðarlega fjármuni. Við Íslendingar erum sem betur fer eftirbátar annarra landa hvað varðar þróun þessara mála. Þó er talið að ársvelta fíkniefnamarkaðarins hér sé 300--400 millj. kr. Fíkniefnaviðskipti hafa að sögn orðið skipulagðari hér hin síðari ár og erfiðari viðureignar fyrir yfirvöld. Með tillögunni, sem flutt var á 113. löggjafarþingi, voru birt sem fylgiskjöl skýrslur um fíkniefni sem lagt hefur verið hald á, dómsafgreiðslur og fleira og vísa ég til þeirra. Þar kom fram að á árunum 1987--1990 var fjöldi mála hvert ár á þriðja hundrað og aldur aðila frá 15 ára. Fjöldi grunaðra var á fimmta hundrað hvert ár og yfirheyrslur á sjöunda hundrað árið 1990. Fíkniefni, sem lagt var hald á, voru umtalsverð og þess má líka geta að lagt var hald á 13 byssur, 985 skot og 29 hnífa árið 1990. Af fíkniefnum, sem tekin voru á árinu 1991, kemur fram umtalsverð aukning á amfetamíni eða úr um 200 gr árið 1990 í 1,5 kg árið 1991. Á hinn bóginn er t.d. haldlagt hass 5,2 kg á móti 6,7 kg á árinu 1990. Þó segja slíkar tölur ekki alla sögu. Heppni ræður nokkru um hve mikið magn næst hverju sinni. Þá má líka geta þess að oft hefur átt sér stað langvarandi vinna að verkefni þótt ekki hafi verið lagt hald á fíkniefni hér á landi. Ég get nefnt dæmi um verkefni sem stóð yfir á árunum 1989, 1990 og 1991 og varð þess valdandi að í maí 1991 náðust 10 kg af hassi í Hollandi sem komu ekki til landsins, m.a. vegna þess verkefnis sem var unnið hér.
    Í öðru lagi leggjum við til að námsefni um vímuvarnir verði hluti skyldunáms í grunnskólum. Frjáls félagasamtök og opinberir aðilar hafa þrýst á um að námsefnið sé tekið inn í skólana. Fjölmargir aðilar hafa komið í skóla með forvarnaverkefni en hafa nú samræmt störf sín og standa flestir að verkefni sem heitir ,,Að ná tökum á tilverunni`` og er bandarískt að uppruna. Lions-hreyfingin hefur greitt kostnað við að þýða og staðfæra verkefnið sem er gefið út í samstarfi þeirra og menntmrn. Í dag er hverjum skólastjóra í sjálfsvald sett hvort hann nýtir sér námsefnið sem í boði er. Á sl. hausti fengu 2.775 nemendur námsefnið, þar af 1.600 í Reykjavík og 233 í Hafnarfirði en þar er öllum sjöundu bekkingum boðið upp á námsefnið og er fyrirhugað að halda áfram í 8. bekk. Sveitarfélögin styrkja þessa fræðslu.
    Kennarar standa nú betur að vígi en áður hvað undirbúning og þekkingu á vímuvörnum varðar því námskeið um vímuvarnir er orðinn fastur liður í kennaranámi og hafa 427 kennarar sótt sér réttindi til að nota Lions-námsefnið, þar af 150 á sl. sumri. Komið hefur fram að þrátt fyrir tiltölulega gott ástand í undirbúningi kennara hafa vímuvarnir víða átt erfitt uppdráttar í grunnskólum landsins. Níu aðilar, félagasamtök og opinberir aðilar, hafa staðið að sérstakri kynningu á vímuvörnum fyrir kennara og foreldra. Áformað er að ljúka yfirferð um landið á tveimur árum en Norðurlöndin hafa öll verið að taka þetta verkefni til kennslu í skólum.
    Í þriðja lagi leggjum við til að komið verði á fót forvarnasjóði þar sem tryggt verði samræmi milli þeirra verkefna sem unnið er að. Því tökum við undir viðhorf margra þeirra sem eru að vinna að forvarnaverkefnum og eru oft á tíðum í kapphlaupi um athygli og peninga. Margir eru að vinna að sömu eða áþekkum verkefnum án þess að samráð eða samstarf eigi sér stað og hver og einn er að sækja eftir stuðningi frá hinu opinbera. Hugmyndin með sérstökum forvarnasjóði er sú að þeir, sem vinna að forvarnaverkefnum og sækja eftir fjárstuðningi til stjórnvalda, sæki beint til slíks sjóðs. Þar er síðan tekin afstaða til gildis verkefna, hvort verkefni eru af sama toga og jafnvel hægt að leggja til samvinnu á ákveðnum sviðum. Það er ekki víst að auka þurfi mikið framlög til vímuvarna ef vinnubrögð verða markviss og samræmd.
    Í fjórða lagi leggjum við til að gerð verði með reglulegum hætti úttekt á fíkniefnavandanum með söfnun gagna og upplýsinga svo að auðveldara sé að gera sér grein fyrir umfangi hans. Þessa úttekt þarf að fela ákveðnum aðila. Má nefna að sú framkvæmdanefnd sem skilaði skýrslu árið 1987 lagði til að ráðinn yrði sérfræðingur að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í tvö ár til að annast rannsóknir í ávana- og fíkniefnamálum og yrði árangur af því starfi metinn að þeim tíma liðnum. Því miður var þeirri tillögu ekki hrint í framkvæmd. Það er líka mjög mikilvægt að hafa yfirsýn yfir hvernig þessi mál eru á landsbyggðinni. Þannig hefur orðið nokkur aukning á málafjölda tengdum fíkniefnum á Austurlandi og hafa einstaklingar þar og félagasamtök látið þessi mál til sín taka. Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi hefur óskað eftir því við dómsmrn. að það leiti leiða til úrbóta og m.a. lagt áherslu á að fá hasshund á Austurland. Þess má geta að hér á landi eru fimm hasshundar, tveir á Keflavíkurflugvelli hjá tollgæslu þar, tveir á vegum ávana- og fíkniefnadeildar og einn hjá rannsóknardeild Tollgæslu Íslands sem er í Reykjavík. Það má segja að e.t.v. þyrfti að huga að þessum málum varðandi Vestfirði og Norðurland.
    Í fimmta lagi teljum við að tryggja þurfi samræmi að því er varðar sérfræðilega aðhlynningu og umönnun vímuefnaneytenda. Meðferðarstarf fer bæði fram á vegum ríkisins og frjálsra félagasamtaka. Þessar stofnanir hafa lítið sem ekkert samráð sín á milli, enda eru þær reknar á ákaflega mismunandi vegu og meðferðarstefnur eru ólíkar. Það þyrfti að gera könnun á meðferðarstefnunni og reyna síðan að meta raunverulega þörf landsmanna. Þannig á að vera hægt að samræma meðferðina og þær kröfur sem gerðar eru til einstakra sjúklinga og starfsfólks.
    Virðulegi forseti. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og skynvilluefni sem haldin var í Vínarborg 25. nóv. 1988 var gerður samningur milli aðildarríkjanna um aðgerðir gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni. Má segja að þarna hafi fulltrúar þjóða heims leitað saman leiða til að afstýra því að fíkniefni komist á markað, afstýra því að vágesturinn komist á götuna. Tilgangur samningsins er að stuðla að samvinnu aðilanna svo að þeir fái beitt sér með áhrifaríkari hætti að hinum ýmsu þáttum er varða ólöglega verslun með þessi efni. Framkvæmd skuldbindinga samkvæmt samningnum felur m.a. í sér ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu. Samningurinn er ítarlegur, fjallar m.a. um afbrot og viðurlög, refsivald, upptöku, framsal, gagnkvæma dómsmálaaðstoð, samvinnu og þjálfun.
    5. gr. samningsins fjallar um upptöku og heimild til að gera upptækan ávinning sem fæst af refsiverðum brotum eða eign sem að verðmæti svarar til slíks ávinnings. Hér á landi er t.d. ekki til löggjöf um þetta efni en sérstök löggjöf hefur verið sett um lönd. Lagt er til að samningurinn verði staðfestur.
    Virðulegi forseti. Að meðaltali er einn maður lagður inn á sjúkrahús vegna ofneyslu lyfja þriðja hvern dag ársins. Þar virðast að mestu lögleg lyf á ferð. En miðað við aldur þeirra sem færðir eru til yfirheyrslu virðist sem aldur neytenda, m.a. þeirra sem farnir eru að sprauta sig og þeirra sem eru í innflutningi, sé að færast niður. Þannig voru á árinu 1991 í fyrsta sinn teknir tveir 14 ára unglingar til yfirheyrslu vegna fíkniefnamála, átta 15 ára á móti mest fjórum áður, tuttugu og átta 16 ára á móti mest tíu áður, sem var 1988, en neytendur á aldrinum 22--25 ára sem teknir voru til yfirheyrslu voru einungis 109 á móti 150 árið 1988. Það alvarlegasta í stöðunni er að lögreglunni er kunnugt um að sterkur orðrómur er á götunni um að heróín hafi verið til sölu hér á sl. ári. Við verðum að taka á þessum málum, hagnýta okkur reynslu annarra og fylgjast með hvaða meðul hafa reynst árangursrík annars staðar. Það er líka mikilvægt að halda umræðunni vakandi og kalla fram upplýsingar frá almenningi til hjálpar í baráttunni. Hvert skref sem tekið er í þá átt að koma í veg fyrir að fíkniefnavandinn vaxi er gæfuspor en það er vandmeðfarið að koma með tilllögu sem raunsætt er að ætla að árangur náist með. Ég trúi því að þessar tillögur séu til þess fallnar.
    Virðulegi forseti. Síðast þegar þetta mál var flutt var því vísað til félmn. En með tilliti til þess að væntanlegt er frv. um þetta mál sem fer til heilbr.- og trn. legg ég til að að lokinni umræðu fari þetta mál til heilbr.- og trn.