Varnir gegn vímuefnum

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:56:00 (3295)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hv. flm. þessarar þáltill. hefur ekki óskað eftir viðveru heilbrrh. en leggur engu að síður til að málið fari til heilbrn. Það vekur nokkra umhugsun hvort einhver dýpri merking sé þar á bak við að ekki er talin ástæða til að óska eftir hans viðveru. ( SvG: Það er allt í lagi að sleppa honum.) Ég geri ekki ágreining við flm. en þetta vekur athygli.
    Annar flm. þessarar till. er hv. formaður fjárln., Karl Steinar Guðnason. Þriðji flm. þessarar till. er einnig fjárlaganefndarmaður, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson. Nú er það svo að þessi tillaga fjallar um peninga, ekkert nema peninga. Það hefur verið upplýst hér á Alþingi að milli 200 og 300 nemendur í grunnskólanum hverfa úr skólunum. Það er fyrsti áhættuhópur ef menn vilja fara í þessa skoðun. Það liggur alveg ljóst fyrir. Þeir eru reknir úr skólunum meira og minna. Fyrst í viku og svo aftur í viku og svo er sagt að þeir hafi skrópað og ekkert annað sé að gera en að láta þetta lið fara. Þannig er starfað m.a. í því kjördæmi sem hv. 1. flm. er þingmaður fyrir.
    Hvað eru vímuefni? Það hlýtur að vera næsta spurning sem maður verður að átta sig á. Er áfengi ekki talið með? Er bjórinn ekki talinn með? Þá væri þetta fyrsta land í heimi sem lifði við svo þægilegar aðstæður í vímuefnum að um ekkert nema ólögleg efni væri að ræða.
    Svo kemur fyrsta tillagan: Sami aðili fari með rannsókn fíkniefnamála á öllu landinu og honum verði tryggt fjárhagslegt sjálfstæði. Það hafa margir í þeirri gerningahríð sem nú gengur yfir viljað búa við fjárhagslegt sjálfstæði hjá ríkinu og gengið misjafnlega. En skoðum þetta örlítið í framkvæmd. Við erum með löggæsluumdæmi vítt og breitt um landið. Það er framið morð. Morðinginn er undir áhrifum vímuefna. Hver á að sjá um rannsóknina? Hvernig er þetta hugsað? Á að bíða eftir sérsveit úr Reykjavík til þess að yfirheyra manninn um vímuefni eða á að yfirheyra hann um morðmálið út frá almennum forsendum í heimahéraði? Hvernig ætla menn að tengja þetta saman og ef það er ágreiningur um málið, hver á þá að skera úr? Er mönnum ekki ljóst að löggæsla almennt verður ekki sundur slitin með þeim hugmyndum sem hér eru settar fram? Það er hreinlega hringavitleysa, það er ekki til annað orð yfir það. Hvernig hugsa hv.

flm. að staðið sé að þessu? Ef maður keyrir fullur þá er hann undir áhrifum vímuefna. Á þá umferðarlögreglan að hætta að sinna þeim málum, taka hann ekki, tilkynna einfaldlega suður að maðurinn hafi verið fullur fyrst það sé komin sérdeild þar sem á að sjá um málið?
    Það vekur undrun mína að hugmyndir sem snúa að því að brjóta upp löggæslukerfið í landinu heyri undir heilbrigðismál, ef taka á ákvörðun um að senda þetta til heilbrn. eins og hér er lagt til af flm. Það vekur þó nokkuð mikla umhugsun. Samt yrði að standa þannig að því ef lögunum yrði breytt, þá yrði það að fara til allshn., hæstv. forseti, ef það kæmi til framkvæmda og þetta yrði samþykkt.
    Ég hygg að það sem blasir við, ef þetta sem hér er verið að setja fram er skoðað, sé að raunverulega sé aðeins eitt atriði sem má segja að sé nýtt í þessari þáltill., það er forvarnasjóður. Það er það sem er nýtt. Hitt er einungis spurning um það hvernig menn greiddu atkvæði við fjárlagaafgreiðslu fyrir jól. Ekkert annað en spurning um beinharða peninga. Í hvað vildu menn setja peningana? Vildu menn setja þá peninga í þetta? Það virðist heldur betur hafa verið skorið. Við skulum vona að menn geri sér grein fyrir því að ráðuneytin eru að vinna saman að þessum málum og hvert um sig undir forustu ríkisstjórnar Íslands. Í henni er talast við, það hlýtur að vera.
    Hér kemur svo þetta seinasta atriði sem hlýtur að vera á valdi ríkisstjórnarinnar en ég veit ekki hvort það er rökrétt: ,,Enn fremur ályktar Alþingi að skora á ríkisstjórnina að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni.``
    Ég hélt að slíkan samning ætti að leggja fyrir Alþingi. (Gripið fram í.) Það er venjan. Þá er þetta spurning um að Alþingi skorar á sjálft sig að samþykkja samninginn, er það ekki? Það er formsatriði sem ég hef aldrei heyrt minnst á áður. Nema það standi svo harkalega á því að utanrrh. neiti gjörsamlega að lána penna til að skrifa undir. Það getur vel verið að það sé skýringin. Hann neiti bara að lána penna til að skrifa undir.
    Nei, menn verða að skilja á milli þegar þeir eru að tala um þessi mál hvort þeir eru að tala um þau í alvöru eða að veifa hér einhverjum glanspappírum á Alþingi í von um að úti í þjóðfélaginu líti það vel út að menn hafi viljað ræða þessi mál. Ég hef engu gleymt í umræðunni um bjórinn og þeirri bylgju áhrifa inn í skólakerfið sem hann hefur þegar haft í för með sér. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það sem hv. flm. þessa máls hefur talað um vandann er satt og rétt. Þessi vandi er vissulega til staðar. Hann fer vaxandi í íslensku þjóðfélagi vegna þess að ekki hefur verið tekið nægilega á honum. En það er spurning um peninga og aftur um peninga.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.