Varnir gegn vímuefnum

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 12:06:00 (3297)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er ekki ágreiningur við síðasta ræðumann um hvaða breytingar voru gerðar á grunnskólalögunum. Ég vakti aðeins athygli á þeirri staðreynd sem kom fram í svari hæstv. menntmrh. á sínum tíma við fyrirspurn frá Guðrúnu J. Halldórsdóttur um það hvernig ástandið væri í grunnskólanum. Þar kom í ljós, ég man ekki nákvæmlega hvernig fyrirspurnin var orðuð, að það voru milli 200 og 300 nemendur sem höfðu verið settir út úr grunnskólanum, voru horfnir út úr grunnskólanum. Ekki settir út. Snyrtilega var falið í svarinu að það væri engin skýring á því hvernig þeir höfðu horfið út úr skólunum, þeir voru bara farnir.