Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 12:26:01 (3302)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um framleiðslu vetnis sem er á þskj. 99. Flm. eru allar þingkonur Kvennalistans. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að hér á landi verði hafnar skipulagðar rannsóknir og undirbúningur að framleiðslu vetnis til notkunar sem eldsneyti til innanlandsnota og til útflutnings. Jafnframt verði athugað hvaða breytingar þurfi að gera á bifreiða-, skipa- og flugvélaflota og öðrum vélakosti landsins til að notkun á vetni sem eldsneyti yrði möguleg, umfang þeirra breytinga og kostnaður við þær.``
    Á 113. löggjafarþingi var flutt tillaga sama efnis. Atvinnumálanefnd sameinaðs þings, sem fjallaði um tillöguna, taldi ,,ekki tímabært að Alþingi ályktaði um þessa ítarlegu tillögu um framleiðslu á vetni``. Flutningsmenn telja fyllilega tímabært að hafnar verði hér á landi skipulegar rannsóknir og undirbúningur að framleiðslu vetnis. Á þeim tíma, sem liðinn er frá því að Alþingi fjallaði um tillöguna, hafa komið fram nýjar upplýsingar og aukin rök fyrir því að myndarlega verði tekið á þessu máli hérlendis. Þess vegna er þessi tillaga endurflutt lítið breytt.
    Ég tel að jafnvel á þeim tíma sem þetta var skrifað, þ.e. 19. febr. í fyrra þegar nefndarálit atvinnumálanefndar var lagt fram, þá hafi verið um mikinn misskilning að ræða að telja að ekki væri tímabært að kanna þessi mál. Þeir segja í nefndarálitinu, með leyfi forseta, þar sem fjallað er um þessi mál:
    ,,Í máli þeirra sem komu á fund nefndarinnar kom fram að vinnsla vetnis væri mjög áhugaverður kostur fyrir Íslendinga og sjálfsagt væri að fylgjast vel með framþróun sem ætti sér stað á þessu sviði. Hins vegar væri ekki tímabært að hefja framleiðslu vetnis hér á landi þótt svo verði e.t.v. fyrir aldamót.``
    Þetta er sagt í nál. atvinnumálanefndar og ég bendi hv. alþm. á að ef hefja á framleiðslu á vetni fyrir aldamót, sem ég tel mikla bjartsýni að verði hægt, þá er ekki ráð nema í tíma sé tekið að fara að hefja undirbúning að framleiðslunni. Ég er ekki svo bjartsýn að halda að það verði raunhæfur kostur. En ef það er rétt sem þarna kemur fram er síður skiljanlegt hvers vegna þeir sem skrifuðu undir nál. á sínum tíma töldu að ekki væri rétt að samþykkja tillöguna og hefja rannsóknir og undirbúining á framleiðslu á vetni hér á landi.
    Æ meiri áhersla er nú lögð á það víða um heim að finna mengunarlaust eldsneyti. Mengun vegna olíubrennslu er mikil og af þeirri ástæðu er talið nauðsynlegt að draga úr notkun hennar. Auk þess eru olíulindir jarðar taldar geta gengið til þurrðar eftir hálfa öld ef ekki dregur verulega úr notkun á olíu. Það er því mat sérfræðinga að tilbúið eldsneyti verði verulegur hluti þeirrar orku sem notuð verður í framtíðinni, jafnvel strax í byrjun næstu aldar.
    Árið 1980 komu út skýrslur um framleiðslu eldsneytis á Íslandi, um vetni og vetnissambönd, á vegum Orkustofnunar og skýrsla á vegum iðnrn. með tillögu að rannsóknaáætlun um hugsanlega framleiðslu eldsneytis hér á landi með hliðsjón af orkubúskap landsmanna. Ekki hefur því sem fram kemur í þessum skýrslum verið fylgt eftir sem skyldi af hálfu stjórnvalda en nú er nauðsynlegt að gera átak í þessum efnum og byggja á þeim grunni sem er til staðar. Við verðum að fylgjast vel með á þessu sviði og vera þátttakendur.
    Mörg efni hafa verið nefnd til sögunnar sem eldsneyti framtíðarinnar. Nú hallast flestir að því að fyrir valinu verði hreint vetni en ekki efni sem innihalda kolefni vegna þess að þau munu halda áfram að auka koldíoxíðmagn andrúmsloftsins og þar með auka hættu á gróðurhúsaáhrifunum svonefndu. Vetni er framleitt með rafgreiningu á vatni. Nú er gert ráð fyrir að flytja það milli landa sem hreint vetni en ekki tengt öðrum mengandi efnasamböndum eins og talað var um fyrir nokkrum árum. Þegar vetni brennur myndast aðeins vatn. Erfitt er að gera sér í hugarlund að betri lausn finnist á eldsneytisskorti sem blasir við í náinni framtíð.
    Hér á landi er vetnisframleiðsla vel þekktur iðnaður. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi hefur framleitt vetni í nær 40 ár. Hér höfum við mikla möguleika á að framleiða raforku og íslenskir vísinda- og tæknimenn standa framarlega á þessu sviði. Við Háskóla Íslands hafa vísindamenn unnið að rannsóknum og könnun á aðferðum til að framleiða eldsneyti og flytja á milli heimshluta. Þessar rannsóknir ber að styðja og gera íslenskum vísindamönnum kleift að hafa samvinnu við erlenda vísindamenn og taka þátt í rannsóknarverkefnum á þessu sviði. Mikilvægt er að við tökum virkan þátt í rannsóknum og undirbúningi að þessu mikilvæga máli. Það á ekkert að vera því til fyrirstöðu að á Íslandi verði framleitt vetni með íslenskri orku, hráefni og hugviti. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á undanförnum árum á möguleikum þess að nota vetni sem eldsneyti. Tækni til að framleiða, meðhöndla og nota vetni hefur fleygt svo fram á síðustu árum að nú er ekkert því til fyrirstöðu tæknilega að hefja notkun slíks eldsneytis í miklu magni. Hins vegar hefur vetni eða annað tilbúið eldsneyti ekki verið talið samkeppnisfært við olíu, reiknað á þröngan, efnahagslegan mælikvarða. Ég vil benda á að í þessu sambandi hefur verið talað um að strax árið 2000, e.t.v. fyrr, verði komið á svokölluðum mengunarskatti, t.d. á olíu þannig að olía og bensín munu hækka mjög í verði. Þá mun vetni geta orðið samkeppnisfært ef miðað er við olíu sem eldsneyti.
    Árið 1986 ákváðu nokkrir háskólar í Evrópu ásamt þýskum fyrirtækjum að kanna möguleika á því að setja af stað rannsóknarverkefni þar sem gerð yrði tilraun með framleiðslu og notkun vetnis. Áætlað var að framleiða verulegt magn vetnis úr vatni með raforku þar sem hún er framleidd án megnunar og flytja það með tankskipum til borgar í Þýskalandi sem bauðst að kaupa 100 megavött af tiltölulega ódýrri raforku frá Kanada til að framleiða vetni og átti að flytja það til Hamborgar og nota í orkukerfum borgarinnar til að knýja 900 strætisvagna. Einnig á að gera tilraun með vetnisflugvél og er miðað við að hún fari í loftið eigi síðar en 1996. Tilraunin á að geta gefið raunverulega mynd af möguleikum vetnis sem eldsneytis eftir að tilraunatímabilinu lýkur sem áætlað er sjö ár.
    Í útreikningum þeirra sem standa að tilraunaverkefninu er gert ráð fyrir að kaupa orkuna á 18 mill hverja klukkustund til ársins 1995 en 35 mill eftir það. Eins og mönnum er kunnugt er mill 1 / 1000 úr bandarískum dal. Þetta er mun hærra verð en það sem nefnt hefur verið í tengslum við raforkusölu til nýs álvers á Keilisnesi sem nú verður væntanlega ekkert af. Umfangsmiklar tilraunir hafa farið fram þar sem vetni er notað til að knýja þotuhreyfla og er talið líklegt að vetnið sé eitt besta eldsneyti fyrir slíka hreyfla. Fáar tilraunir hafa verið gerðar til að nota vetni sem eldsneyti á flugvélar. Rússneskri flutningaþotu hefur þó verið flogið á vetni um nokkurt skeið og Bandaríkjaher hefur gert tilraunir þar sem herþota nýtti vetni sem eldsneyti. Frekari tilraunir með vetnisframleiðslu eru fyrirsjáanlegar og gætu Íslendingar orðið þátttakendur í þeim tilraunum ef rétt er á málum haldið.
    Þegar vetni er framleitt á hefðbundinn hátt með rafgreiningu og síðan þétt í vökva er einungis raforka notuð við framleiðsluna. Við Háskóla Íslands hefur verið gerð á því athugun hvort hagkvæmt gæti verið að nota gufuhverfla sem knúnir væru gufu frá háhitasvæðum til þess að þétta vetni í stað rafknúinnar þjöppu. Niðurstöður benda til að þéttingarkostnaður gæti lækkað um allt að 20% en hann er um 6% af heildarframleiðslukostnaði fljótandi vetnis.
    Við notkun vetnis í stað olíu er hægt að draga verulega úr mengun í heiminum. Hér er um að ræða stóriðju sem veldur engri mengun ef undan er skilið jarðrask af völdum byggingarframkvæmda og landnotkun vegna virkjana. Íslendingar flytja inn verulegt magn af olíu og bensíni eða þriðjung af heildarorkunotkuninni sem er um 10 teravattstundir, en ein teravattstund jafngildir þúsund millj. kílóvattstunda. Talið hefur verið hagkvæmt að framleiða hérlendis um 20--25 teravattstundir af raforku með vatnsafli á ári og um 20 teravattstundir með jarðvarma. Því er fyrirsjáanlegt að við getum ekki aðeins fullnægt innanlandsþörf heldur getum við einnig flutt út orku t.d. í formi vetnis. Það er því eðlilegt að bundnar séu vonir við orkulindir landsins. Áætlað hefur verið að aðeins sé búið að virkja 10--15% af þeirri orku í fallvötnum sem hagkvæmt er talið að virkja þegar tekið hefur verið tillit til umhverfissjónarmiða. Því er eðlilegt að nýta þessa auðlind til hagsbóta fyrir alla landsmenn. En auðvitað verður að gæta þess að ekki sé með nýtingunni gengið á náttúru landsins nema í mjög litlum mæli. Auðvitað verður alltaf að ganga á náttúruna þegar verið er að virkja en ég hef sérstaklega í huga að orkan sé ekki notuð í iðjuverum, eins og t.d. í álverum, þar sem mengunarvarnir eru ekki fullkomnar, eins og t.d. átti að vera í álverinu á Keilisnesi þar sem mengunarvarnir voru langt frá því að vera fullnægjandi að mínu mati og e.t.v. flestra annarra. Kosturinn við að nota vetni í stað olíu er sá að hægt er að nota það á vélar sem nú eru í notkun án þess að gera þurfi á þeim verulegar breytingar. Aðeins þarf að breyta eldsneytisgeymum og gera ytri breytingar á vélinni.
    Í Þýskalandi hefur fyrirtækið BMW, sem framleiðir bíla, gert tilraun með að nota fljótandi vetni sem eldsneyti á bíla. Þær tilraunir hafa staðið í nokkur ár og hafa slíkir bílar nú þegar verið notaðir í umferðinni. Ég er hér með kynningarbækling frá því fyrirtæki þar sem þeir lýsa því hvernig þeir hugsa sér í framtíðinni að fara yfir í það að reyna að framleiða bíla sem eingöngu nota vetni. Mercedes Bens, sem er annað fyrirtæki í Þýskalandi, er einnig með tilraunir á þessu sviði. Þeir nota að vísu ekki fljótandi vetni heldur svokallaða vetnissvampa þar sem um er að ræða efni sem vetnið er hengt á og síðan er það brennt. Það þarf stóra tanka við það en ekki er eins mikil sprengihætta við það en sprengihætta af vetni er talin vera álíka mikil eins og af bensíni, alla vega ekki neitt verulega meiri. Notkun vetnis á vélar, bæði bíla og flugvélar, er því raunverulegur kostur sem lönd úti í heimi eru að stefna markvisst að.
    Í ræðu sinni á ársfundi Orkustofnunar á síðasta ári sagði Jakob Björnsson m.a. að hann gerði ráð fyrir að árið 2030 verði vetni notað til að knýja skipaflota landsmanna. Fari svo að orkumálastjóri verði sannspár er vissulega tímabært að fara að huga að því hvernig að breytingum á skipaflotanum verði staðið. Ég tala nú ekki um ef við ætlum sjálf að framleiða það vetni sem hugsanlega verður þarna notað. Þá verðum við sem fyrst að fara að huga að þessu máli. Einn af kostum vetnisframleiðslu er að vel getur hentað að byggja nokkrar fremur smáar verksmiðjur. Stórar einingar eru tiltölulega lítið hagkvæmari en litlar. Þetta þýðir að hægt væri að hafa verksmiðjur víða um land, t.d. við hafnir og gera þannig skipaflotanum auðvelt að ná í eldsneyti í sjálfa verksmiðjuna fremur en flytja það langar leiðir með miklum tilkostnaði. Þetta mundi veita fólki víða um land atvinnu.
    Það andvaraleysi sem ráðamenn hér á landi hafa sýnt þessu máli er hreint með ólíkindum að mínu mati. Öll orkan hefur farið í álver sem flestir voru fyrir löngu búnir að gefa upp á bátinn. Iðnrn. virðist ekki fylgjast með því sem er að gerast í heiminum. Stóriðja er ekki það sem iðnaðarþjóðirnar líta til. Á síðasta iðnþingi var samþykkt ályktun þar sem bent var á hve mikla áherslu iðnríkin leggja á lítil og meðalstór fyrirtæki. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 17. nóv. er einmitt sagt, með leyfi forseta, eftir að ritari Reykjavíkurbréfsins hafði fylgst með iðnþinginu:
    ,,Á síðustu mánuðum hafa fjölmiðlar á Vesturlöndum vakið athygli á því að kjarninn og kjölfestan í þýsku atvinnulífi og þýskri útflutningsstarfsemi er ekki stóru og þekktu fyrirtækin þar heldur smáfyrirtæki og meðalstór fyrirtæki sem hafa með ótrúlegum hætti haslað sér völl í útflutningi og náð miklum árangri. Slík fyrirtæki eru uppistaðan í atvinnulífi öflugasta efnahagsveldis í Evrópu og eins öflugasta efnahagsveldis í heiminum.``
    Áherslan á minni fyrirtækin erlendis ætti að vera okkur hvatning til þess að horfa björtum augum til íslensks iðnaðar þar sem hér eru aðallega lítil og meðalstór fyrirtæki.
    Í mínum huga er enginn efi á því að við eigum að leggja mikla áherslu á að við getum framleitt vetni hér á landi, ekki síst til þess að við getum komið í veg fyrir og stöðvað innflutning á olíu og bensíni að verulegu leyti. Það mundi verða okkur mjög til framdráttar. Jafnframt því tel ég að kominn sé tími til að leita nýrra leiða í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Undanfarin ár hafa ráðamenn verið svo uppteknir við byggingu álvers að ekkert annað hefur komist að. Hafa orkusölumenn verið ótrúlega einsýnir og virðast ekki hafa komið auga á aðra kosti til að koma orku fallvatnanna í verð en að lokka hingað mengandi stóriðju. Það vakti athygli mína að þegar ljóst var að ekki yrði úr byggingu álvers hér á landi, alla vega ekki í náinni framtíð, ruku þessir sömu orksölumenn upp til handa og fóta og töldu að auðvitað væru nægir aðrir kostir í stöðunni en að byggja hér álver. Það mætti auðvitað flytja út raforkuna með sæstreng. Það er næsta mál á dagskrá og verður rætt hér á eftir. Líka var talað um það að ýmsir aðrir möguleikar væru fyrir hendi. Allt í einu var hægt að ræða þau mál en fram að því var álver það eina sem menn komu auga á og vildu ekki heyra á neitt annað minnst. Ég vona að þessi tillaga hljóti brautargengi hér í þinginu og hún verði til þess að tekið verði myndarlega á þessum málum. Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að till. verði vísað til iðnn. og síðari umr.