Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 12:45:00 (3303)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. 1. flm. þessarar þáltill. erum við hér að ræða till. til þál. sem er nánast samhljóða tillögu með sama heiti sem þingmenn Kvennalistans fluttu á 113. löggjafarþingi. Þeirri tillögu var samkvæmt tillögu atvmn. vísað til ríkisstjórnarinnar á fundi sameinaðs þings 25. febr. í fyrra. Í greinargerð með tillögunni, sem hér er til umræðu og reyndar kom það fram í framsöguræðu, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Á þeim tíma, sem liðinn er frá því að Alþingi fjallaði um tillöguna, hafa komið fram nýjar upplýsingar og aukin rök fyrir því að myndarlega verði tekið á þessu máli hérlendis. Þess vegna er þessi tillaga endurflutt lítið breytt.``
    Virðulegi forseti. Það er því miður svo að ekki hafa komið fram upplýsingar eða rök sem gefa tilefni til að ætla að nýting vetnis sé nálægari kostur en þegar fjallað var um tillöguna sem vísað var til ríkisstjórnarinnar í fyrra. Raunar þvert á móti, því miður, eins og ég ætla að fara hér um nokkrum orðum.
    Meðal erlendra boðsgesta á nýafstöðnu orkuþingi sem haldið var í nóv. í fyrra var maður að nafni dr. Stumfp, aðalráðgjafi rannsóknarráðuneytisins í Bonn um orkumál. Á orkuþinginu flutti hann erindi um hugsanlegan markað fyrir vetni í framtíðinni í háiðnaðarlandi, iðnvæddu landi eins og Þýskalandi. Í erindi hans, sem var í alla staði mjög athyglisvert, kom fram að notkun vetnis sem orkubera væri vissulega ein þeirra leiða sem til greina gæti komið til að leysa mengunarvandamál þegar litið væri til lengri tíma eða eftir nokkra áratugi. Til skemmri tíma væri þessari þörf hins vegar betur sinnt með orkusparnaði og skynsamlegri orkunotkun. Hann varaði mjög við því að menn ofmeti möguleika á nýtingu vetnis, sem framleitt yrði með hreinum orkugjöfum, sem orkubera í framtíðinni. Hann benti einnig á að ekki mætti gleyma því að orkunýting yrði ávallt betri með því að nota raforkuna beint þar sem það er mögulegt en með því að nota vetnið sem millistig sem orkubera. Í viðræðum við þennan ágæta mann, dr. Stumfp, kom líka fram að hann telur mjög ólíklegt að farið verði að nota vetni sem orkubera í stórum stíl á næstu áratugum. Þar þurfi að yfirstíga mörg vandamál tæknilegs eðlis og kostnaður við flutning, geymslu og dreifingu sé mikill. Til þess að vetni megi nota í staðinn fyrir hefðbundið eldsneyti á flutningatæki þurfi ekki einungis verðið á hefðbundnu eldsneyti að margfaldast frá því sem nú er heldur verði líka að byggja upp alveg nýtt flutnings-, geymslu- og dreifingarkerfi fyrir vetnið jafnframt því sem yfirstíga þurfi margvísleg vandamál við nýtingu vetnis á vélar flutningatækja.
    Á orkuþinginu sem ég nefndi og haldið var í nóv. í fyrra flutti einnig erindi Bragi Árnason prófessor sem lengi hefur fengist við vetnisrannsóknir. Hann fjallaði þar m.a. um framleiðslukostnað á vetni

hér á landi ef farið yrði út í framleiðslu þess í stórum stíl. Ef við miðum við, eins og kom fram í máli hv. frsm. hér áðan, að raforkuverðið sé 18 bandarísk mill á hverja kílóvattstund, sem ég tek fram að er verð í lægri mörkum jaðarkostnaðar okkar orkukerfis eins og nú stendur á, þá verður framleiðslukostnaður vetnisgass með slíku rafmagnsverði, að áliti Braga, 12,5 Bandaríkjadollarar á hvert gígajúl. Gígajúl er hitaeiningarmæling og má taka það fram að það eru um 42--43 gígajúl í hverju tonni af venjulegri brennsluolíu. Þetta er því í raun og veru 2,6 sinnum dýrara en gasolía miðað við það að hún kosti um 200 Bandaríkjadollara á tonn. Hún er nú í lægra verði en þetta. Bragi telur reyndar hugsanlegt að lækka megi framleiðslukostnaðinn með aðferð, sem verið er að þróa og gera tilraunir með í Evrópu, niður í um það bil 900 Bandaríkjadollara á hvert gígajúl. Þessar tölur segja þó alls ekki alla söguna því flutnings- og geymslukostnaður er ákaflega mikill.
    Ef við miðum við þennan framtíðarlágmarkskostnað sem Bragi lýsti, 9 Bandaríkjadollarar á hvert gígajúl, þá gæti verðið til Hamborgar verið nálægt 20 Bandaríkjadollurum á hvert gígajúl borið saman við 37 Bandaríkjadollara á hvert gígajúl á vetni sem flutt væri frá Kanada. Verðið á vetni í Hamborg, svo ég haldi nú áfram með þennan hugarreikning, væri þannig 5--6 sinnum hærra en verðið á gasolíu.
    Hv. 1. flm. þessarar þáltill. nefndi skatta á koltvísýring, sem vissulega er til umræðu að tekinn verði upp innan Evrópubandalagsins. Hann er þó óverulegur í þessum samanburði. Talið er að slíkur skattur, eins og hann er nú ráðgerður í löndum Evrópubandalagsins, mundi e.t.v. hækka gasolíuverðið um nálægt þriðjung. Þetta sýnir að sú hugmynd, sem hv. flm., 15. þm. Reykv., nefndi hér áðan, að slíkur skattur mundi gera vetni samkeppnisfært er því miður alls ekki raunhæf eins og nú standa sakir.
    Flm., hv. 15. þm. Reykv., nefndi líka ræðu Jakobs Björnssonar á ársfundi Orkustofnunar í fyrra. Slíka tilvitnun er reyndar einnig að finna í greinargerð með þáltill. og mig langar, með leyfi forseta, að lesa úr greinargerðinni nokkrar línur. Þar segir:
    ,,Í ræðu sinni á ársfundi Orkustofnunar árið 1991 sagði Jakob Björnsson m.a. að hann gerði ráð fyrir að árið 2030 verði vetni notað til að knýja skipaflota landsmanna. Fari svo að orkumálastjóri verði sannspár er vissulega tímabært að fara að huga að því hvernig að breytingum verði staðið.``
    Hv. 15. þm. Reykv. endurtók þessa tilvísun í ræðu sinni áðan. Mér finnst hér farið ákaflega frjálslega með tilvitnanir. Vissulega er rétt að orkumálastjóri horfði til framtíðar í þessari ræðu sinni í mars í fyrra, en hann sagði í upphafi þess hluta ræðunnar sem hér er vitnað til, og aftur með leyfi forseta:
    ,,Ég ætla nú að leyfa mér að líta til nokkuð fjarlægrar framtíðar eða nær fjóra áratugi fram í tímann til ársins 2030.`` Síðan komu þessi orð: ,,Það sem ég hér segi ber ekki að líta á sem spá heldur sem sviðsmynd af stöðunni á þessum tíma, eina af mörgum hugsanlegum.`` Og einmitt á hinu nýafstaðna orkuþingi, því sem haldið var undir lok nýliðins árs fjallaði Jakob Björnsson orkumálastjóri enn um umræðurnar um vetni sem orkubera. Hann benti á að tæknilegu vandamálin við að brenna vetni, geyma það og dreifa séu vissulega talsverð en aðalvandinn sé hinn mikli kostnaður og sá langi tími sem það tæki að byggja upp dreifingarkerfi fyrir vetni sem jafnist á við það sem er við lýði í dag fyrir olíu og gas.
    Hv. flm. talaði um í ræðu sinni að vetnið væri eldsneyti framtíðarinnar. Orkumálastjóri vék einmitt að þessu sínu máli á orkuþinginu. Hann benti á, eins og ég hef þegar nefnt, að framleiðsla á vetni er ákaflega dýr með því að nota rafgreiningu ef við berum hana saman við það að framleiða vetni úr jarðgasi eða olíu. Reyndar er það svo að nú er aðeins um 1% af vetnisframleiðslunni í heiminum unnið með rafgreiningu.
    Orkumálastjóri ræddi líka spurninguna um það hvernig ætti að framleiða allt það vetni sem á þyrfti að halda í heiminum ef það ætti að koma í staðinn fyrir hefðbundið eldsneyti í einhverjum verulegum mæli. Hann nefndi í því samhengi að ef öll virkjanleg vatnsorka í heiminum væri notuð til að framleiða vetni, sem er auðvitað ekki raunhæft að gera ráð fyrir, þá gæti vetnið einungis komið í staðinn fyrir um 6% af því hefðbundna eldsneyti sem talið er að þörf verði fyrir á árinu 2020. Aðalhindrunin er verðið, sem er mörgum sinnum hærra á hverja orkueiningu en í olíu, jarðgasi eða kolum.
    Ég vil líka taka það fram að þær athuganir sem unnið hefur verið að með vetnisfélaginu í Hamborg hafa því miður fengið nokkurt bakslag. Á liðnu sumri áttu Þorsteinn Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands, Andrés Svanbjörnsson, yfirverkfræðingur markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar, og dr. Ágúst Valfells efnaverkfræðingur fundi með fulltrúum þessa félags á vegum iðnrn. Hugmyndin var að ganga frá umsókn til þýska rannsóknarráðsins varðandi sameiginleg verkefni á þessu sviði. Því miður er það nú svo og er einmitt álit þessa ráðgjafa sem ég nefndi, dr. Stumfp, að við ættum þarna ekki von á styrkjum eins og vetnisfélagið í Hamborg hafði gert ráð fyrir. Reyndar er það svo að samstarfsverkefni framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og stjórnar Québec-fylkis er nú í biðstöðu og ekki séð að framhald verði á því.
    Virðulegi forseti. Ég óska að segja það að lokum að á þeim tíma sem liðinn er frá því að Alþingi vísaði þessari tillögu, efnislega þessari sömu tillögu, til ríkisstjórnarinnar hefur ekkert það komið fram sem gefi tilefni til að fjalla um málið á þann hátt sem gert er ráð fyrir í tillögunni. Við höfum á vegum iðnrn. ráðgjafarhóp um eldsneytisframleiðslu. Þar hefur verið ákveðið að fá sérhæfðan aðila til að vinna að úttekt á stöðu eldsneytismála með hliðsjón af íslenskum aðstæðum. Vetnið sem orkuberi verður þar einn þáttur. Það er ætlað fé til þessarar vinnu í fjárhagsramma markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og iðnrn. Af hálfu iðnrn. og annarra orkustjórnvalda verður haldið áfram að fylgjast vandlega með þessu máli og unnið að athugunum á því í samvinnu við Háskóla Íslands. Ég tel að málið sé í eðlilegum farvegi og

að sú málsmeðferð, sem atvinnumálanefnd sameinaðs þings lagði til í fyrra og samþykkt var á þinginu í febrúar 1991, þ.e. að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, sé einnig rétt í þetta sinn.