Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 13:14:00 (3306)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka undirtektir síðasta ræðumanns en á sama hátt verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með mál hæstv. iðnrh. og hv. þm. Páls Péturssonar. Mér þykir það alveg með ólíkindum að láta sér detta í hug, eins og hv. þm. Páll Pétursson talaði um, að vara við að vekja upp falskar vonir, eins og hann orðaði það, og rjúka upp til handa og fóta núna vegna þess að þetta sé ekki mál morgundagsins heldur framtíðarinnar. Það var einmitt það sem ég sagði. Hann hefur ekki hlustað á það sem ég sagði og hann hefur ekki lesið tillöguna eins og hún er orðuð.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er búinn að lesa tillöguna fyrir þingmann þannig að ekki þarf að endurtaka það. Ekki er talað um að það eigi að hefja framleiðslu á vetni á morgun, það er einmitt talað um að hefja skipulegar rannsóknir og undirbúning vegna þess að þetta er eitthvað sem getur hugsanlega orðið á næstu öld. Menn kunna þá bara ekki að lesa og vilja ekki hlusta.
    Varðandi það hvort þetta sé þinglegt mál þarf ég ekki að ræða frekar. Mér þykir það vera svo augljóst mál að ekki þurfi að ræða það í þessu samhengi vegna þess að auðvitað er það mjög eðlilegt að við kvennalistakonur flytjum þessa tillögu aftur og ekki síst í ljósi þess sem fram kom í máli hæstv. iðnrh. Ég vil benda hv. þm. Páli Péturssyni á að ástæðan til þess að ég er ekki að spyrja hæstv. iðnrh. um þetta mál er sú að hann vill greinilega ekkert gera í því. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að Alþingi verði að álykta í málinu til að knýja á um að eitthvað raunhæft verði gert, þ.e. að Íslendingar verði ekki einhvers staðar aftarlega á merinni ef þetta verður eldsneyti sem notað verður á næstu öld. Næsta öld er ekkert langt undan í framtíðinni. Menn tala um næstu öld eins og hún sé eitthvað sem komi eftir 100--200 ár. Innan við 10 ár þá erum við komin inn á næstu öld.
    Ég tók eftir því í máli hæstv. iðnrh. að hann talaði um einhvern erlendan boðsgest sem hér var að tala um markað fyrir vetni. Ég lagði höfuðáhersluna á það í mínu máli að markaður fyrir vetni væri fyrst og fremst innan lands, þ.e. það mundi koma okkur best ef við gætum minnkað olíu- og bensínnotkun hér á landi. Auðvitað getur vel verið að einnig verði mögulegt að flytja út vetni en það er ekki aðalatriðið heldur hitt að við getum hér á landi nýtt innlenda orkugjafa. Auðvitað væri best ef hægt væri að nota raforkuna beint, það væri auðvitað langminnsta tapið ef það væri hægt. En ég veit ekki til þess að það sé heldur verið að kanna neitt sérstaklega að nota raforkuna beint og varla getum við notað hana á fiskiskipastólinn nema bara þegar fiskiskipin eru í landi til að keyra vélar sem þau gera víst ekki einu sinni núna vegna þess hve rafmagnið er dýrt.
    En ég tel að við þurfum að fylgjast með og ég tel ekki nægjanlegt að við látum erlenda aðila eingöngu sjá um þessar rannsóknir og við fylgjumst ekki með og tökum ekki þátt í þeim rannsóknum. Ég er þar með ekki að segja að við eigum að endurtaka allt sem aðrir eru að gera eða gera það sama og aðrir heldur eigum við að vera með í rannsóknunum. Við erum auðvitað ekki það stórveldi að við getum hafið rannsóknir í sama mæli og t.d. Þjóðverjar eru að gera, en við getum vel tekið þátt í þessu og verið þátttakendur í þeim rannsóknum sem þar fara fram og það hefur okkur boðist. Háskólanum hefur t.d. boðist að taka þátt í rannsóknum í þýskum háskólum og mér þykir ekki nema sjálfsagt að okkar vísindamönnum sé gert það kleift. Mér þykir því alveg með ólíkindum að heyra hvernig dregið er úr því að við getum verið virkir þátttakendur á þessu sviði.
    Ég er ekki viss um að það kosti neitt mjög mikið miðað við ýmislegt annað að taka þátt í þessum rannsóknum og ég tel sérstaklega mikilvægt fyrir Íslendinga að taka þátt í þeim með tilliti til þess að erlendis er ekki verið að gera neinar rannsóknir á því hvernig hægt verði að nota vetni á skip heldur eingöngu verið að athuga flugvélar og bíla en ekki fiskiskip og þess vegna finnst mér t.d. á því sviði mjög nauðsynlegt að Íslendingar verði virkir þátttakendur.
    Ég talaði um orkuskatt og sagði að í framtíðinni væri rætt um að hann gæti orðið mjög mikill á t.d. bensín og olíur og mundi verð þeirra hækka verulega og þá mundi vetni verða samkeppnisfært. Ég tek fram að þeir útreikningar sem ég hef séð á þessu, sem eru þeir sömu og hæstv. iðnrh. vitnaði til og sýna að gasolían sé svo og svo dýrari, hafa breyst með tilliti til einmitt þessara atriða og þá er ég ekki eingöngu að tala um Evrópubandalagið í því sambandi. Þótt Evrópubandalagið sé að tala um að koma á skatti á koldíoxíð þá er um allan heim talað um að það verði veruleg hækkun á skattinum, á þessum skatti, ekki bara að því er varðar koldíoxíð heldur einnig önnur efni, svo sem eins og brennisteinsdíoxíð og fleira og fleira sem þarna er um að ræða þannig að það er ekki bara verið að tala um koldíoxíð í þessu sambandi.
    Ég tel að vetni geti e.t.v. orðið samkeppnisfært við olíu í framtíðinni og kannski ekki síst vegna þess að þar er um mengunarlaust eldsneyti að ræða og þess vegna tel ég mikilvægt að við tökum þátt í þessum rannsóknum.
    Ég vík aftur að meðhöndlun atvinnumálanefndar sameinaðs þings á 113. löggjafarþingi sem lagði til að þessu máli yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég vitnaði til þess sem þar stendur og ég ætla að gera það aftur, þar segir að það sé hins vegar ekki tímabært að hefja framleiðslu vetnis hér á landi þó svo verði e.t.v. fyrir aldamót. Þeir segja að það sé ekki tímabært að hefja framleiðslu á vetni. Þessi tillaga gengur ekkert út á að það eigi að hefja framleiðslu á vetni hér fyrir aldamót, heldur að kanna möguleikana, hefja rannsóknir og undirbúning á framleiðslu á vetni. Ég veit ekki hvað menn geta séð neikvætt við það og ef ríkisstjórnin eða iðnrn. eru að hugleiða eitthvað í þessu sambandi og eru með einhverjar athuganir á þessu sviði þá hlýtur það að vera styrking við þær rannsóknir og þær athuganir á vegum ráðuneytisins ef Alþingi ályktar í þessum efnum og lýsi skoðunum sínum.
    Mér þykir mjög óviðurkvæmilegt að ráðherra sé að koma með tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar enn einu sinni. Ég kann mjög illa við það að ráðherra, sem e.t.v. fær þetta mál til meðferðar, sé að skipta sér af því hvernig Alþingi meðhöndlar það. E.t.v. er kominn tími til að ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi heldur yrðu þeir algjörlega fyrir utan þingið, eins og t.d. er í Noregi, vegna þess að ég kann illa við það þegar verið er að leggja það til af hálfu ráðherra við 1. umr. máls, áður en að nefnd tekur málið til athugunar, að vísa því til ríkisstjórnar og ég lýsi algjörri andstöðu minni við það. Ég var líka algjörlega á móti því á sínum tíma að þetta mál yrði meðhöndlað á þann hátt sem þá var gert og var það raunar gert þegar ég var ekki inni á þingi vegna starfa fyrir Alþingi erlendis. Þannig var farið með þetta fyrir þingið með þessari afgreiðslu án þess að við mig væri talað sem er mjög óvanalegt af hálfu þingnefndar að hafa ekki samráð við flutningsmenn.
    Ég vona að þetta mál fái þinglega meðferð, þ.e. að um það verði fjallað með eðlilegum hætti í iðnn. og að þeir sem sitja í iðnn. geti lesið tillöguna rétt þannig að enginn velkist í vafa um að hér er verið að tala um að hafnar verði skipulagðar rannsóknir og undirbúningur að framleiðslu á vetni en ekki að við, sem flytjum þessa tillögu, teljum að strax á morgun eigi að fara að framleiða vetni sem eldsneyti. Og enn og aftur bendi ég á að í 40 ár hefur verið framleitt vetni hér á landi þannig að tæknin er vel þekkt. Við erum ekki að tala um tæknina sem slíka heldur hvernig við getum tekið við þeim breytingum sem verða í heiminum, þ.e. við þurfum auðvitað að breyta okkar skipum og bifreiðum og það þarf að kanna með hverjum hætti það verður hægt ef þetta verður að veruleika. Ég vona að iðnrh. líti fremur á það ef Alþingi ályktar í þessu máli að það sé ráðuneytinu til framdráttar en ekki til hins verra fyrir ráðuneytið eða iðnrh.