Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 13:25:00 (3307)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað alls enginn ágreiningur um að það er æskilegt framtíðarmarkmið að íslenskar orkulindir verði nýttar til að knýja farartæki og fiskiskip og íslenskir rannsóknaraðilar, bæði Háskólinn og aðrir, vinni að athugunum sem þessu tengjast. Það er fjarri öllu lagi, eins og hv. 15. þm. Reykv. hélt hér fram áðan, að iðnrh. vildi greinilega ekkert gera í málinu. Það er rangt. Málinu er sinnt við hæfi.
    Ég kem þá að því sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. Öll hans háværa ræða var á röngum forsendum flutt. Það er rangt að ég hafi haldið því fram að ekki ætti að gera neinar athuganir á þessu máli eða fylgjast með því. Skipuleg athugun á málinu er í gangi. Við sitjum ekki auðum höndum eins og þingmaðurinn hélt fram með miklum hávaða.
    Mér þótti það líka mjög furðulegt að þingmaðurinn vildi bara banda frá sér eins og það kæmi málinu ekkert við þótt það lægi fyrir að kostnaður við vetni sem orkubera væri margfaldur sá sem það kostar að ná sömu orku úr hefðbundnum orkugjöfum. Þetta kemur málinu sannarlega við.
    Ég læt þetta nægja um það sem fram hefur komið í síðari ræðum manna og í máli hv. 4. þm. Austurl. Við erum, vegna þess sem kom fram hér hjá hv. flm. 15. þm. Reykv., í samstarfi við þýska aðila með þátttöku Háskóla Íslands. Háskóli Íslands eða fulltrúi hans á aðild að eldsneytisnefnd iðnrn. sem ég nefndi áðan. Fé er ætlað til þess að fylgjast með þessum málum. Þetta er allt við hóf eins og eðlilegt er vegna efnislegra ástæðna þessa máls.
    Að lokum vildi ég taka það fram að mér þótti einkar athyglisverðar ábendingar hv. 1. þm. Norðurl. v. um þinglega meðferð málsins og endurtek það að ráðherrar sem jafnframt eru þingmenn áskilja sér að sjálfsögðu rétt til þess að hafa skoðun á því hvernig þingið eigi að fara með mál og ég endurtek að það hefur ekkert komið fram sem gerir það tímabært að Alþingi fjalli með öðrum hætti um þetta mál, en sameinað þing gerði fyrir tæpu ári.