Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 13:28:00 (3308)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég bið menn að taka því rólega þó einstakir ráðherrar í ríkisstjórninni fari um mig lofsamlegum orðum. Ég á von á því að sá vindur geti breyst fyrr en varir. En hér hafa menn talað af nokkrum tilfinningahita. Hv. 4. þm. Austurl. talaði um skammsýni og mistök. Þar tel ég að hann kasti grjóti úr glerhúsi. Með fullri virðingu fyrir hv. þm. þá held ég að ég geti fullyrt að hann hafi ekki verið praktískur, ef ég má nota svo ljótt orð, í orkumálum Íslendinga meðan hann fór með yfirstjórn þeirra sem ráðherra. Og ég vil bæta því við að orkumál eru í sjálfu sér ákaflega mikilvæg. En það þýðir ekki að loka alveg augunum fyrir fjárhagslegum staðreyndum. Þjóðin getur ekki tekið á sig ómældar byrðar af óráðsíu í orkumálum. Það er algerlega óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér a.m.k. einu sinni í viku hvort hlutirnir borga sig eða ekki.
    Menn hafa gert athugasemdir við orð mín eða velt vöngum yfir því hvort eðlilegt sé að flytja sama málið óbreytt þing eftir þing hafi það hlotið afgreiðslu. Að sjálfsögðu er þingmönnum frjálst að gera þetta og þá með vísan til þess að kosningar fóru fram í millitíðinni og og núverandi Alþingi er öðruvísi skipað en 113. löggjafarþing þegar svo til nákvæmlega eins orðaðri tillögu var vísað til ríkisstjórnarinnar. Atvinnumálanefnd skilaði nál. á þskj. 703. Þetta var 134. mál 113. löggjafarþings og ég mundi ráðleggja hæstv. flm. að lesa þetta nál. Þar kemur fram að atvinnumálanefnd hefur fjallað um málið með eðlilegum og vitrænum hætti og komist að þeirri niðurstöðu, sem Alþingi samþykkti, að málið væri á réttu róli. Það er verið að vinna að þessum rannsóknum með eðlilegum hætti og engin ástæða til að samþykkja þessa tillögu.
    Ég fer ekki ofan af því að mér finnast það ekki skynsamleg vinnubrögð og orka tvímælis hvort þau eru þingleg að flytja sama málið ár eftir ár, þing eftir þing ef það hlýtur afgreiðslu. Það væri um allt annað tala ef málið hefði ekki verið útrætt á 113. löggjafarþingi. Þá væri auðvitað hárrétt að endurflytja það. Undirstaðan að vangaveltum mínum var sú að mér hefði fundist það eðlileg málsmeðferð að flm., eða sérstakir áhugamenn um tillöguna, gerðu formlega fyrirspurn til ráðherra og fengju að vita hvað gerst hefði í málinu síðan og fengju yfirlit yfir hvar það væri nú statt. Síðan væri e.t.v. hægt að flytja málið að nýju. En að kasta höndunum þannig til að ljósrita eða hér um bil að ljósrita tillögu sem var afgreidd í fyrra finnst mér ekki vera fyrirmyndarvinnubrögð. Ég ráðlegg hv. 1. flm. að lesa nál. á þskj. 703.
    Hv. 4. þm. Austurl. ræddi um fiskeldi og stærð fiskeldisstöðva. Ég held að vandinn hafi ekki verið fyrst og fremst í því að við næðum ekki þekkingu á málinu. Vandinn var fyrst og fremst sá að menn voru allt of stórhuga. Menn fjárfestu allt of mikið í allt of stóru, trúðu á hagkvæmni stærðarinnar. (Gripið fram í.) Eins fór með loðdýraeldið. Íslendingar náðu ágætu lagi á því að koma upp loðdýrum og ágætum dýrum á tiltölulega skömmum tíma. En þeir fjárfestu of mikið í of stórum einingum. Þess vegna fór sem fór. Á meðan vetni er svo dýrt og hættulegt sem raun ber vitni þá er það ekki hagkvæmt að eyða mjög miklum fjármunum í íslensk þróunarverkefni á þessu sviði.
    Ég tel t.d. að rafbílar séu miklu nærtækari kostur. Það er allt gott um það að segja að sinna umhverfismálum og reyna að komast hjá mengun í heiminum. Það væri mikil nauðsyn og þarfaverk ef það tækist. En ég tel að rafbílar séu miklu raunhæfari kostur en vetnisbílar. Hv. flm. orðaði það svo í seinni ræðu sinni að þetta gæti hugsanlega orðið á næstu öld sem vetni yrði nýtt. Ég tel víst, og þar er ég bjartsýnni en hv. 1. flm., að þetta verði raunhæfur kostur, jafnvel á fyrri hluta næstu aldar. En íslensk fjárfesting í stórum stíl er ekki skynsamleg í þetta verkefni ef við eigum að reyna að halda okkur við einhverja hagræna forgangsröðun. Ef fólk er að þráflytja sömu tillögurnar þá virkar það á mig eins og verið sé að gera það í auglýsingaskyni, eða sá grunur læðist að manni.
    Mér finnst að hv. 1. flm. hljóti að vita betur en fram kemur í þessari tillögu og í málflutningi hennar. Fyrsti flm. hefur aðgang að gögnum sem sanna með óyggjandi hætti að hér er ekki um fjárhagslega raunhæft verkefni að ræða í dag og jafnframt á hún að vita að málinu er sinnt með eðlilegum hraða, m.a. af Háskóla Íslands.