Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 13:37:00 (3309)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það liggur við að ég nenni ekki að elta ólar við svo ómerkilegan málflutning eins og kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni. Í fyrsta lagi vegna þess að hann segir við mig að ég eigi að fara að lesa nefndarálit. Ég las kafla úr því fyrir hann tvisvar sinnum áðan. Ég ætla að endurtaka hluta af því vegna þess að greinilegt er að hann hefur ekki lesið það. Í nál. frá 19. febr., sem atvinnumálanefnd sendi frá sér --- ég hef ekki tíma til að lesa það allt saman --- telja þeir upp hverjir hafa mætt á fundinn o.s.frv. og síðan segir, með leyfi forseta: ,,Hins vegar er ekki tímabært að hefja framleiðslu vetnis hér á landi þótt svo verði e.t.v. fyrir aldamót. Ýmis tæknivandamál, svo sem hvernig á að geyma vetni, þarf að yfirstíga áður en framleiðsla getur hafist fyrir alvöru.``
    Rétt síðar kemur: ,,Nefndin telur ekki tímabært að Alþingi álykti um þessa ítarlegu tillögu um framleiðslu á vetni en tekur undir þau meginsjónarmið sem þar koma fram og ítrekar nauðsyn þess að Íslendingar fylgist með og taki þátt í rannsóknum á vetni.`` Það er nákvæmlega það sem tillagan gengur út á. Ég átta mig því alls ekki á hvers vegna hv. þm. vill ekki að Alþingi álykti um framleiðslu á vetni.
    Ég hef auðvitað aðgang að gögnum, og ég tók það fram áðan, sem sýnir að framleiðsla á vetni til notkunar sem eldsneyti er ekki hagkæm í dag. En ég tók líka fram áðan og ég vona að hv. þm. hlusti nú, að ég teldi að í framtíðinni gæti vetni vel orðið samkeppnisfært við olíu, ekki síst vegna þess að þetta er mengunarlaust eldsneyti.
    Auðvitað væri langeðlilegast að við notuðum rafbíla fremur en vetnisbíla ef um það væri að ræða. Ég get alveg tekið undir það. En aftur hefur hv. þm. Páll Pétursson ekki hlustað á það sem ég sagði því ég var einmitt að tala um skipastól landsmanna og að ekki væri hægt að nota raforkuna beint á skipin heldur yrði að gera það með óbeinum hætti og þá er vetnið þar kandídat.