Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 13:41:00 (3311)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil benda hv. þm. á að gera þarf ákveðnar breytingar og líka á skipsvélum. Í fyrsta lagi þá tekur vetni meira pláss en olía. Það þarf því stærri geyma. Og þó þetta séu mjög líkar vélar þá skiptir samt máli að fylgjast vel með á þessu sviði.
    Ég vil líka nefna Háskóla Íslands og þau orð hv. þm. að þessum rannsóknum væri sinnt með eðlilegum hætti þar. Ég efast ekki um að þeir reyna að fylgjast, eins og þeir framast geta, með þeim rannsóknum sem fram fara á þessu sviði. En mér finnst mjög mikilvægt að ríkisstjórnin og iðnrn. styrki og styðji þessar rannsóknir með myndarlegum hætti þannig að háskólanum sé gert kleift að sinna þessum rannsóknum með eðlilegum hætti. En ég held að honum sé það e.t.v. ekki fært með þeim fjárveitingum sem fara til háskólans og þá sérstaklega til rannsókna, þar er skorið við nögl eins og annars staðar. Ég tel því mjög mikilvægt að sérstaklega sé tekið á þessu máli en ekki eingöngu að háskólinn sinni þessu með þeim knöppu fjárveitingum sem veittar eru til rannsókna. Þess vegna tel ég mikilvægt að tillaga eins og þessi, sem hér er til umræðu, verði samþykkt.