Útflutningur á raforku um sæstreng

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 14:11:00 (3317)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þetta er í sjálfu sér ágæt tillaga sem hér er til umræðu. Hún hefur þann augljósa kost að hún hefur ekki verið afgreidd fyrr á Alþingi þannig að ég held að við getum tekið okkur nokkrar mínútur í að ræða hana hér.
    Ég á sæti í iðnn. þingsins og ég er alveg tilbúinn að vinna að þessu máli á þeim vettvangi. Ég hef reyndar tækifæri til að gera það víðar, bæði í stjórn Landsvirkjunar og eins í stjórn markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar. Þess vegna langar mig til að segja hér nokkur orð.
    Ég held að hér sé um viðfangsefni framtíðarinnar að ræða og einhvern tímann komi að því að við þurfum að ákveða okkur um það hvort við leggjum í að selja raforkuna í gegnum sæstreng til Bretlands eða meginlandsins. Þetta er að mínu mati samt ekki viðfangsefni alveg næstu daga en það er alveg sjálfsagt að vinna að málinu á öllum vígstöðvum með samræmdum hætti, halda því vakandi og fylgjast með þróun. Nú þegar er töluverðum fjármunum varið í undirbúning og athuganir á þessu máli.
    Ég er sammála hv. flm. um að e.t.v. hefur verið helst til mikil áhersla lögð á að framleiða rafmagn til álframleiðslu, þ.e. álframleiðsla hefur verið sá orkunýtingarkostur sem augu manna hafa einkum beinst að á undanförnum árum. Það er í sjálfu sér slæmt en fyrir því eru þau rök að það hefur ekki verið margra fjárhagslega hagstæðra kosta völ í þessu efni. Það er búið að skoða ýmsa kosti, t.d. á vegum markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar, en þeir eiga það flestir sammerkt að botninn hefur dottið úr þegar menn hafa kynnt sér þá nánar. Álframleiðsla fram undir a.m.k. síðustu mánuði hefur verið sá kostur sem líklegastur var til þess að geta borgað okkur eitthvað nálægt kostnaðarverði þeirrar raforku sem við ætluðum að selja.
    Það er reyndar einn orkunýtingarkostur sem ég vil nefna hér og tel að sé mjög áhugaverður. Það er slípiverksmiðja sem fyrirtæki sem heitir Washington Mills í Bandaríkjunum hefur áhuga á að reisa hér. Ég held að það sé athyglisverð hugmynd og við eigum að sýna henni eðlilegan áhuga. Á hinn bóginn er ekki um neina stórkostlega orkunotkun talið að ræða og þetta er ekki mjög mannaflafrek verksmiðja.
    Í sjálfu sér getur það verið okkur mjög mikilvægt að geta selt raforku eða fá markað fyrir raforku um sæstreng til almennra nota á meginlandinu eða í Bretlandi. En að vissu leyti er þó heppilegra að nýta orkuna innan lands ef þess er kostur og unnt að fá nothæfa kaupendur sem borga viðunandi verð fyrir orkuna. Verðmætasköpunin fer fram þar orkan er notuð, fyrst og fremst, ekki þar sem hún er búin til. Þar af leiðir að ef til orkuútflutnings kæmi með þessum hætti frá Íslandi, þá tel ég að það yrði að skattleggja hana þannig að hún skildi eitthvað eftir í þjóðarbúinu meira en bara framleiðslukostnaðinn. Við yrðum að hafa einhvern verulegan ágóða af þessari starfsemi því hún yrði þá ekki til verðmætasköpunar annars staðar í þjóðfélaginu eins og t.d. verksmiðjurekstur getur verið.
    Nokkur erlend fyrirtæki, sem m.a. hæstv. iðnrh. taldi upp, hafa sýnt þessu máli áhuga. Fyrst beindust augu manna að því að leggja streng til Bretlands með viðkomu í Færeyjum. Það er að vísu mjög dýrt að taka strenginn í land eða dýr búnaður sem til þarf til að koma við í Færeyjum og tiltölulega lítill markaður þar líka. Þó er af ýmsum ástæðum eðlilegt að gera það. En björninn er ekki unnin þó við komumst til Skotlands. Markaðurinn yrði ekki fyrr en suður í Englandi. Og menn efast um að Skotar mundu bjóða þær raflínur velkomnar í land sitt sem til þyrftu að koma til að flytja rafmagn inn á markað í samkeppni við Skota sjálfa. Það hefur líka verið athugað að flytja þetta rafmagn til Þýskalands og eins og stendur er margt sem bendir til að það verði líklegra.
    Þó er eitt atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Þau fyrirtæki sem einkum sýna þessu máli áhuga og þau erlendu fyrirtæki sem hafa frumkvæði í málinu eru ekki orkukaupendur. Það eru fyrst og fremst þeir sem ætla að framleiða sæstreng og selja okkur strengi. Og það eru alveg nægir bisnissmenn í heiminum sem eru tilbúnir til að búa til þennan sæstreng. Það eru Íslendingar sem hafa áhuga á því að blanda sér í þann leik ef af verður og hafa til þess einhverja burði að geta a.m.k. tekið þátt í því að þróa hugmyndina. Ég tel að það væri út af fyrir sig mjög mikilvægt ef unnt væri að framleiða þennan streng á Íslandi. Og ég tel að okkur beri þjóðernisleg skylda til þess að ýta heldur undir þessa menn en letja þá ef þeir vilja fjárfesta í undirbúningi að því og aðstoða þá með a.m.k. mórölskum hætti við þann undirbúning.
    Þetta mál er þess eðlis að það er sjálfsagt að fylgjast með því. Það er sjálfsagt að halda því vakandi. Þetta getur verið eðlilegur og heppilegur valkostur síðar meir en ég er ekki sannfærður um að þetta sé besta lausnin til að nýta íslenska raforku.