Útflutningur á raforku um sæstreng

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 15:08:00 (3323)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég fagna þeim tón bjartsýni og víðsýni sem kom fram hér í síðustu ræðu hv. 9. þm. Reykv., fyrri flm. þeirrar till. sem við ræðum hér í dag. Sérstaklega fagna ég því að hann talaði um það sem sjálfsagða og eðlilega framtíðarsýn að Ísland væri hluti af alþjóðlegu orkuneti. Og það væri skammsýni að ætla annað. Þetta er nákvæmlega sú stefna sem ég hef beitt mér fyrir í mínu starfi sem ráðherra iðnaðar- og orkumála og mig langar að vekja athygli á því að til þess að Íslendingar geti orðið aðilar að þessu orkuneti, þessu alþjóðlega orkuneti, þá þarf einmitt að móta þær viðskiptareglur milli ríkja um orku, m.a. raforku, sem tryggja frjálsan aðgang orkunnar frá Íslandi að Evrópumarkaði. Það er einmitt þetta sem felst í orkusáttmála Evrópu sem ég skrifaði undir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands í desember sl. og nokkur umræða varð um á þinginu. Þar eru einmitt hugsuð ákvæði til þess að koma í veg fyrir að mismuna megi gegn orku á Bretlandseyjum af því að hún sé upprunnin frá Íslandi. Þannig háttar í dag að þetta er unnt að gera --- og yrði gert. Þarna þarf gagnkvæmt samkomulag milli ríkja og þetta er miklu mikilvægara atriði heldur en menn virðast almennt hafa gert sér ljóst fyrir okkar framtíð.
    Við þurfum líka að fylgjast mjög náið með þeim viðskiptareglum sem eru að mótast innan Evrópu, ekki síst innan Evrópubandalagsins, um viðskipti með orku, raforku þar með, flutningsreglur, heimildir til þess að flytja um sameiginleg flutninganet einstakra ríkja orku sem er annars staðar upprunnin. Þetta er í raun og veru undirstaðan undir þeim viðskiptum sem hefjast mundu með sæstreng eða sæstrengjum frá Íslandi.
    Það er vissulega rétt hjá þeim sem hér hafa talað o g bent á að þetta væri ákaflega flókið mál og ég vildi vekja á því athygli því að mér hefur ekki fundist að það kæmi nægilega skýrt fram í máli flm. eða annarra sem hér hafa talað sem hafa látið sem svo og sagt sem svo, og m.a. vitnað til orkumálastjóra, að íslensk orka flutt um sæstreng væri nú samkeppnishæf við jarðgasstöðvar og orku sem framleidd er í þeim. Ég vil taka nokkurn vara fyrir slíkum samanburði af því að í hann kann að vanta það auðlindagjald sem ég tel alveg óhjákvæmilegt að við mundum gera að kröfu um að lagt yrði á slíka orkuvinnslu sem flutt yrði beint til annarra landa en ekki nýtt á Íslandi. Af hverju er það? Það er einfaldlega af því að þarna værum við að selja aðgang að sameiginlegri auðlind okkar sem fólgin er í fallvötnum og jarðvarma án þess að við hefðum nýtt hana til fulls hér heima. Við værum þar að fara á mis við nokkurn virðisauka sem við gætum haft með því að vinna hér og reyndar líka með því að nýta auðlindarentuna sjálfa. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt og er þáttur í því máli sem hér hefur nokkuð verið nefnt, að nauðsynlegt sé að vinna við að móta meginlínur í orkustefnu til framtíðar. Að því verki er unnið á vegum iðnrn. og ég er bjartsýnn á það að geta haft um það gott samstarf á þessum vetri og á næstu árum við iðnn. þingsins, en ég tel það skynsamlegt fyrirkomulag að slík mál séu undirbúin af framkvæmdarvaldinu, kynnt í nefndum þingsins þegar þau eru til þess fallin og það verður líka gert.
    Ég vil mótmæla því að þessu máli, umhugsun, umræðum, viðræðum um sæstreng til annarra landa frá Íslandi til að flytja út orku, hafi verið ýtt út af borðinu vegna álmálsins. Þetta er fjarri lagi. Ég bendi á það að ég átti á liðnu ári, bæði í upphafi árs og aftur í maí og júní, og samninganefndir á vegum iðnrn. viðræður við fulltrúa Evrópubandalagsins í Brussel einmitt um samstarf á þessu sviði. Við áttum viðræður við stóran, alþjóðlegan fjárfestingarbanka um hugsanlega aðild hans eða milligöngu um fjármögnun svona framkvæmda, því að eins og hv. flm. benti á, það er eitt mikilvægasta atriðið í þessu stóra máli. Í þeim viðræðum við þetta stóra, alþjóðlega fjármagnsfyrirtæki, sem ég vek athygli á að er ekki talsmaður framleiðenda sæstrengja heldur eingöngu að leita að vænlegum fjárfestingarkostum, þá var einmitt rætt mjög rækilega um mörg af þeim grundvallaratriðum sem nauðsynlegt er að taka á áður en menn fara að tala um framkvæmdir. Það eru einmitt þessi sjónarmið sem ég tel jafnmikilvæg og hin tæknilegu og fjárhagslegu sjónarmið sem að sjálfsögðu er nauðsynlegt að leggja á vandað mat. Ég tel þess vegna að það sé miklu mikilvægara fyrir þá sem fara með þjóðmálin, ríkisstjórnina og þingið, að fjalla um þessa þætti málsins og ég fullvissa flm. og aðra nefndarmenn í iðnn. þingsins um það að þessum verkum er haldið áfram, þótt þau hafi ekki verið svo mjög í kastljósi fjölmiðlanna, af þeim krafti sem efni standa til og sem skynsamlegt er að gera.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, víkja nokkrum orðum að því sem kom fram í máli annarra en hv. fyrri flm. Ég ætla að víkja aðeins að því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég er honum sammála um það að við þurfum að leggja kapp á að sjá hvort samningar geta tekist við þá sem hug hafa á að byggja báxítbræðslu á Íslandi. Það er angi af því viðfangsefni og viðleitni sem sérstök áhersla er nú lögð á við markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar að finna smá og miðlungsstór fyrirtæki sem eru viðbót við orkunotkun á Íslandi sem liður í þeirri viðleitni að auka hlut raforkunnar í orkunotkun af því að við höfum einfaldlega núna 610 gwst. á ári frá Blöndu sem ekki eru nýttar.
    Ég hef nýlega, og þá vík ég að því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., beitt mér fyrir því að iðnrn. hefur átt viðræður við fulltrúa orkuvinnslufyrirtækja og orkuveitna og Samband ísl. rafveitna um leiðir til að nýta orku frá Blönduvirkjun sem ekki selst. Um þetta mál er nú fjallað á þeim vettvangi og ég fagna því að áhugi þingsins komi þar fram.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, taka það mjög skýrt fram að ég hef bæði í minni fyrri og þessari minni seinni ræðu fagnað áhuga þingsins á þessu máli og samvinnu við það. Það er vissulega rétt að það þarf að skoða í breiðu samhengi, í samhengi við orkustefnu landsins í heild, en það breytir því ekki að mér finnst að flm. hafi ruglast á framkvæmdarvaldi og frumkvæðisrétti þegar þeir sömdu sína tillögu í upphafi og greinargerðina með henni. Ég fagna því að tónninn í málflutningi þeirra er nú allur annar en hann var þegar þingskjalið var lagt fram.