Útflutningur á raforku um sæstreng

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 15:16:00 (3324)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið þannig á undanförnum áratugum að umræðurnar um orkumál og nýtingu orkunnar hafa verið ein alvarlegustu og erfiðustu deilumál íslenskra stjórnmála. Ég held út af fyrir sig að það hljóti að teljast mikilvægt skylduverkefni allra stjórnmálamanna að halda fram þeim almennu sjónarmiðum sem menn hafa á hverjum tíma. En ég held að það sé líka skylda stjórnmálamanna og þá ekki síst ráðherra að reyna að skapa samstöðu um eitthvað sem mætti kalla samnefnara í þessum efnum, samnefnara fyrir flokka og fyrir þjóðina, og ég tel að þær umræður sem hafa farið fram hér í dag séu með þeim hætti að það sé hægt að gera sér vonir um það ef menn setjast yfir þetta málefnalega að það sé hægt að finna slíkan samnefnara með skynsamlegum hætti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og ég skil iðnrh. þannig að hann vilji stuðla að því að þessi samnefnari finnist hér á Alþingi Íslendinga.