Framleiðsla og sala á búvörum

77. fundur
Mánudaginn 10. febrúar 1992, kl. 14:50:00 (3331)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir, frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum, og landbrh. flytur fyrir hönd ríkisstjórnar er út af fyrir sig ekki frv. til laga um staðfestingu á búvörusamningi. Þetta frv. kveður á um þær lágmarksbreytingar sem gera þarf á lögum þessum til að stjórnvöld geti fyrir sitt leyti efnt umræddan samning. Um lögmæti þess samnings sem gerður var á vettvangi framkvæmdarvaldsins fyrir atbeina hæstv. fyrrv. landbrh. og fjmrh. er það að segja að það mál verður ekki til lykta leitt úr því sem komið er nema á það verði látið reyna fyrir dómstólum. Vera má að hópur bænda sem hefur nú í undirbúningi málssókn á hendur ríkisvaldinu láti á það reyna með beinum eða óbeinum hætti en upplýst er að tiltekinn hópur bænda hefur ráðið í þjónustu sína lögmenn og leitað eftir álitsgerð frá stjórnlagafræðingi við Háskóla Íslands til þess að láta kanna fræðilega hvort á þeim hafi verið brotin lög og stjórnarskrárákvæði með framkvæmd eldri búvörulaga og reglna. Fyrst og fremst lýtur það að spurningunni um framsal valds á Alþingi í hendur óskyldum aðilum utan stjórnkerfisins sem og spurningar um að verðmæti eigna hafi verið skert með mismunandi hætti með stjórnsýsluaðgerðum sem og atvinnufrelsi manna skert þannig að brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár. Allt er það hin fróðlegasta lesning og getur haft víðtækar afleiðingar fyrir Alþingi og ríkisstjórn en ekki er hægt að segja miklu meira um það á þessu stigi máls.
    Meginatriði málsins í sambandi við flutning frv. er það sem hér segir í greinargerð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ákveðið hefur verið að taka búvörulögin til heildarendurskoðunar og mun landbrh. skipa nefnd til þess verkefnis. Nefndin mun gera tillögu um frv. til nýrra búvörulaga og er stefnt að því að frv. þar um verði lagt fyrir Alþingi haustið 1992. Landbrh. hefur óskað eftir því við svokallaða sjömannanefnd að hún haldi áfram störfum og skili lokaskýrslu sem fyrst, sem höfð yrði til hliðsjónar við endurskoðun búvörulaga.``
    Virðulegi forseti. Ástæða er til að minna á að í gildi er búvörusamningur sem gerður var fyrir kosningar 1987 og hefur gildistíma til haustsins 1992. Það var fyrst og fremst eitt atriði sem notað var sem rökstuðningur fyrir nauðsyn þess að gera þennan nýja samning fyrir kosningar 1991, það að æskilegt væri ef framkvæma ætti tillögur sjömannanefndar að hafa fjárheimildir til uppkaupa í stórum stíl á framleiðslurétti einkum í tengslum við sauðfjárframleiðslu. Um það var ekki ágreiningur. Hvað varðar Alþfl. sem átti aðild að þáv. ríkisstjórn var ekki ágreiningur um það. Ágreiningurinn snerist fyrst og fremst um hvort það væru sæmileg stjórnsýsluvinnubrögð, af ríkisstjórn sem þá var að ljúka ferli sínum og stóð frammi fyrir kosningum, að ætla að binda hendur ríkisstjórna, þingmeirihluta og kjósenda næstu tvö kjörtímabil með slíkum samningi úr því að ekki rak nauður til að gera hann. Sjónarmið okkar alþýðuflokksmanna var að það væru ekki sæmileg vinnubrögð. Varast ætti fordæmi sem gefið var frá því fyrir kosningar 1987. Þetta mál ætti að afgreiða með þeim hætti að afgreiða heimildir til uppkaupa á fullvirðisrétti sér innan ramma lánsfjárlaga en að öðru leyti leggja það á vald nýs þingmeirihluta og nýrrar ríkisstjórnar hvernig með málið skyldi farið síðan. Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að þetta hafi verið rétt sjónarmið og skynsamlegt, enda auðvelt að sýna fram á að stefnumörkun núv. ríkisstjórnar í landbúnaði styðst við rök.
    Virðulegi forseti. Út af þessum umræðum um búvörusamning held ég að rétt sé að ég rifji upp hver afstaða Alþfl. var í þessu máli eins og hún birtist í sérstakri greinargerð sem formaður flokksins lagði fram í ríkisstjórn þann 10. mars árið 1991 fyrir hönd ráðherra og þingflokks. Þar segir svo með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að ríkisstjórnin samþykki viðaukatillögu við lánsfjárlagafrv. sem bíður afgreiðslu fyrir þinglok. Tillagan orðist svo:
    Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að stofna til skuldbindinga með útgáfu skuldabréfa að upphæð allt að 1.450 millj. kr. vegna væntanlegra samninga um fækkun fjár og aðlögun sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði. Heimild þessi verði veitt að fengnu samþykki ríkisstjórnar og að höfðu samráði við fjárveitinganefndarmenn og í ljósi framvindu samingsgerðar. Heimildin gildir þar til aflað hefur verið nauðsynlegrar lagaheimildar vegna nýs búvörusamnings á næsta þingi.``
    Þessi tilvitnun nægir til að sýna að um heimildina til fullvirðisréttaruppkaupa var ekki ágreiningur, en þar með var líka fallin sú röksemd að nauður bæri til að knýja fram gerð þessa búvörusamnings tvö kjörtímabil fram í tímann.
    Að öðru leyti birtist í þessari greinargerð þau grundvallarsjónarmið sem sett voru fram fyrir hönd míns flokks í tengslum við stefnumótun í landbúnaðarmálum. Samanburður á því og þeirri stefnumótun sem fram hefur farið í tíð núv. ríkisstjórnar leiðir í ljós að þar er í stórum dráttum stefnt að sömu markmiðum. En í greinargerð þessari segir, til viðbótar því sem ég hef þegar rakið, með leyfi forseta:
  ,,1. Að tryggt verði hvernig yfirlýst markmið um verulega verðlækkun til neytenda á landbúnaðarafurðum nái fram að ganga. Þetta er ekki einasta hagsmunamál neytenda heldur einnig bænda sem geta því aðeins haldið markaðshlutdeild fyrir hefðbundnar búvörur að verð lækki verulega.
    2. Að hlutur afurðastöðva (sláturhúsa og mjólkurbúa) í verðlækkun til neytenda verði tryggður með aukinni samkeppni á markaði.
    3. Að fullbúinn verði samningur um framleiðslu mjólkurafurða sem felur í sér framleiðniaukningu, bæði í frumframleiðslu, vinnslu og dreifingu.
    4. Að skýr ákvæði komi inn í samninginn um endurskoðun verðlagsgrundvallar og verðkerfisins í heild þar sem sýnt verði fram á verulega lækkun á verði allra búfjárafurða til neytenda.
    5. Að landinu verði hlíft við ofbeit og þáttur umhvrn. til verndar gróðurlendi verði skýrt ákveðinn.
    6. Að ullarniðurgreiðslur og vaxta- og geymslugjöld breytist í annars konar stuðning.
    7. Að hlutur þeirra bænda sem fyrirsjáanlega munu þurfa að hverfa frá búum sínum sé betur varinn en gert er í fyrirliggjandi drögum.
    8. Að réttur stjórnvalda til að gera fyrirhugaða samninga um Evrópskt efnahagssvæði og innan GATT-samkomulagsins verði í engu skertur og kalli ekki á endurskoðun væntalegra búvörusamninga.
    9. Að endurskoðunar- og uppsagnarákvæði samningsins verði skýr. Fari útgjöld ríkissjóðs fram úr því sem gert er ráð fyrir eða verð til neytenda lækki ekki eins og ráð er fyrir gert verði unnt að krefjast endurskoðunar samningsins og segja honum upp einhliða takist ekki samningar.``
    Virðulegi forseti. Það er ekki hvað síst þetta ákvæði sem nauðsynlegt er að leggja áherslu á. Spurningin um efndir eða vanefndir samningsins veltur mjög á því að þessar markmiðslýsingar nái fram að ganga og skili sér í reynd til neytenda yfir búðarborðið. Að lokum segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Með framanskráð í huga er lagt til að í stað nýs búvörusamnings er byggi á fyrirliggjandi drögum verði gerðar nauðsynlegar breytingar á frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 svo að fært verði að framkvæma aðlögun fullvirðisréttar á innanlandsmarkaði á grundvelli viðauka I í fyrirliggjandi drögum. Unnið verði áfram að gerð búvörusamnings sem m.a. taki tillit til ofangreindra atriða. Drög að nýjum búvörusamningi liggi fyrir í vor eða sumar þannig að unnt verði að gera nauðsynlegar lagabreytingar á næsta þingi hvort heldur er á sumarþingi eða haustþingi.``
    Með þessum hætti voru í stórum dráttum lögð drög að breytingum á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum áratugum að því er varðar málefni landbúnaðar, bæði framleiðenda og neytenda. Reyndar kemur sú stefnumörkun að hluta til fram í þeirri verklýsingu sem svokölluð sjömannanefnd setti sér á sínum tíma og vitnað er til í greinargerð með frv. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Sjömannanefnd hefði það hlutverk að setja fram tillögur um stefnumörkun er miði að því að innlend búvöruframleiðsla verði hagkvæmari og kostnaður lækki á öllum stigum framleiðslunnar, í búrekstri bónda, í vinnslu og heildsölustigi og í smásöluverslun. Það er meginverkefni að því er varðar stefnu í landbúnaðarmálum að vinna að því að þessi markmið nái fram að ganga.``
    Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því, virðulegi forseti, hvernig unnið hefur verið við stefnumótun á vegum núv. ríkisstjórnar og stjórnarflokka að halda til haga þessum markmiðum og þeim ábendingum um leiðir sem fram koma af ýmsum gögnum.
    Fyrst vil ég leyfa mér að rifja upp að við mótun stefnuyfirlýsingar núv. ríkisstjórnar var tveimur mönnum, sem síðar urðu aðstoðarmenn núv. hæstv. landbrh. og reyndar þeim sem hér stendur, falið að vinna að vinnuskjali þar sem sett væru fram meginsjónarmið við frekari mótun stefnu í þessum málaflokki, eins og hún reyndar síðar birtist, bæði við fjárlagaafgreiðslu og í hvítbók ríkisstjórnarinnar. Þetta skjal er dagsett 29. apríl en þar eru mál sett fram með svohljóðandi hætti, með leyfi forseta:
  ,,1. Að tryggt verði hvernig yfirlýst markmið um verulega verðlækkun til neytenda á landbúnaðarafurðum nái fram að ganga, m.a. með endurskoðun verðlagsgrundvallar og verðmyndunar landbúnaðarvara. Þetta er ekki einasta mál neytenda heldur einnig bænda sem geta því aðeins haldið markaðshlutdeild fyrir hefðbundnar búvörur að verð þeirra lækki verulega. Skoðaðir verði sérstaklega allir hugsanlegir hvatar til verð- og kostnaðarlækkunar.
    2. Að hlutur sláturhúsa og mjólkurbúa í verðlækkun til neytenda verði tryggður með aukinni samkeppni á markaði.
    3. Að fullbúinn verði samningur um framleiðslu mjólkurafurða sem feli í sér framleiðniaukningu, bæði í frumframleiðslu og vinnslu.
    4. Að landinu verði hlíft við ofbeit og þáttur umhverfisráðuneytis til verndar gróðurlendi verði skýrt ákveðinn.
    5. Að athugað verði hvort núverandi fyrirkomulag á ullarniðurgreiðslum og vaxta- og geymslugjaldi megi breyta til hagkvæmari vegar.
    6. Að hlutur þeirra bænda sem fyrirsjáanlega munu þurfa að hverfa frá búum sínum verði tryggður.
    7. Að fyrirhugaðir samningar um Evrópskt efnahagssvæði og innan GATT gefi ekki tilefni til endurskoðunar búvörusamnings.

    8. Að endurskoðunar- og uppsagnarákvæði samningsins verði skýr. Fari útgjöld ríkissjóðs fram úr því sem gert er ráð fyrir eða verð til neytenda lækki ekki eins og ráð er fyrir gert verði unnt að krefjast endurskoðunar samningsins og segja honum upp einhliða takist ekki samningar.
    9. Ekki virðast forsendur fyrir hendi til að draga verulega úr kostnaði ríkissjóðs vegna fækkunar ákvæða samningsins eða samkvæmt beingreiðslustigi hans. Athuga skal þó hvort hægt sé að tengja kostnað vegna fækkunaraðgerða landgræðslustörfum bænda.``
    Þá segir hér, virðulegi forseti, um viðauka og bókanir með þessum samningi:
  ,,1. Endurskoðuð verði lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Verði hann ekki lagður niður skal markmið hans í framtíðinni einkum miðast við stuðning við rannsókna- og þróunarstarf í landbúnaði. Framlög úr ríkissjóði samkvæmt viðauka II verði felld út eða lækkuð verulega.
    2. Ekki er áhugi á frekari jarðakaupum ríkissjóðs en fjárhæð sú sem ákveðið er að renni í sjóðinn samkvæmt viðauka II verði lækkuð verulega.
    3. Fjárframlög til Byggðastofnunar samkvæmt viðauka II verði felld niður en fjárframlög til stofnunarinnar verði ákveðin miðað við verkefni hvers tíma í samræmi við heildarbyggðaáætlun stofnunarinnar.
    4. Aðilar eru sammála um markmiðssetningu í bókun 6 en hafa fyrirvara um fjárhæð.
    5. Aðilar hafa almennan fyrirvara um kostnað ríkissjóðs vegna allra bókana samningsins.``
    Í III. kafla þessa skjals segir að búvörulögin verði endurskoðuð með það markmið í huga að auka á frelsi í viðskiptum og verðlagningu á landbúnaðarafurðum og afnema skiptingu í sölusvæði. Á kjörtímabilinu verði stofnanakerfi landbúnaðarins, sem kostað er af ríkissjóði, endurskoðað með einfaldan sparnað og aukna skilvirkni að markmiði. Loks segir hér að endurskoðaðar verði reglur um innflutning grænmetis og garðávaxta með það að markmiði að tryggja jafnara og hagstæðara framboð til neytenda en jafnframt sé tekið réttmætt tillit til samkeppnisaðstöðu innlendra framleiðenda.
    Í tilefni af fyrirspurn hv. þm. skal tekið fram að þetta er vinnuskjal sem fulltrúar stjórnarflokkanna unnu í tengslum við stefnumótun ríkisstjórnarinnar á sl. vori. Í framhaldi af því er rétt að láta þess getið að að mörgum þeirra atriða sem hér er minnst á var vikið sérstaklega í tengslum við fjárlagaafgreiðslu. Þá minni ég á að upphaflegar tillögur um útgjöld ríkissjóðs vegna viðhengja búvörusamningsins voru lækkuð mjög verulega eða um 1.100 millj. í framhaldi af þessari stefnumótun. Að öðru leyti er rétt að vekja athygli á með hvaða hætti framtíðarstefna í landbúnaðarmálum hefur verið skilgreind. Fyrst í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna og síðan í þeim kafla hinnar hvítu bókar um velferð á varanlegum grunni þar sem fjallað er um landbúnaðarmál.
    Í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna var af hálfu Alþfl. lagt fram vinnuskjal eða minnisblað þar sem við lýstum viðhorfum okkar á eftirfarandi hátt:
  ,,1. Ríkisstjórnin skipi nefnd sem taki til starfa á þessu hausti og taki til endurskoðunar neðangreind lög. Markmið endurskoðunarinnar verði að lækka framlög af almannafé til landbúnaðar um leið og dregið verður úr útgjaldasjálfvirkni í landbúnaði en endurskoðunin taki m.a. til eftirtalinna laga: Jarðræktarlaga, búfjárræktarlaga, laga um Jarðasjóð og jarðeignir ríkisins og laga um Framleiðnisjóð.
    2. Ríkisstjórnin skipi nefnd til að endurskoða framkvæmd niðurgreiðslna búvöruverðs, m.a. vaxta- og geymslugjalda, ullarniðurgreiðslna, þurrmjólkur o.s.frv. í tengslum við upptöku beingreiðslna til bænda.
    3. Gerðar verði ráðstafanir til að gefa álagningu á heildsölustigi búvöruframleiðslu frjálsa snemma á næsta ári og að rýmkað verði um slátursvæði. Þá er hér að því vikið að stigin verði skref til þess að nálgast það markmið að draga verulega úr kostnaði skattgreiðenda vegna þjónustu hins opinbera við landbúnaðarkerfið.``
    Þegar vinnu stjórnarflokkanna var endanlega lokið á sl. hausti og af hálfu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. birt stefna og starfsáætlun, voru niðurstöðurnar dregnar saman að því er varðaði landbúnaðarstefnuna með þessum hætti. Vík ég nú að þeim kafla hvítbókarinnar þar sem fjallað er um landbúnaðarmál. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Búvörusamningur var gerður í marsmánuði 1991 milli ríkisvalds og Stéttarsambands bænda í framhaldi af áfangaskýrslu sjömannanefndar um framleiðslu sauðfjárafurða. Ríkisstjórnin hefur falið sömu nefnd aðila vinnumarkaðarins og bænda að vinna áfram að tillögum um skipulag annarra búgreina og afurðasölu.
    Búvörusamningurinn felur í sér aðlögun sauðfjár- og mjólkurframleiðslu að innanlandsmarkaði á árinu 1992, en frá þeim tíma taka bændur og afurðastöðvar á sig alla ábyrgð á búvöruframleiðslunni. Þannig verður horfið frá greiðslum útflutningsbóta á sauðfjár- og mjólkurafurðir og munu afskipti ríkisins af þessum framleiðslugreinum minnka verulega.
    Ríkissjóður greiðir fyrir markaðsaðlögun sauðfjárframleiðslunnar á árunum 1991 og 1992 með uppkaupum á framleiðslurétti jafnframt því sem teknar verða upp beinar greiðslur til bænda frá marsmánuði 1992. Niðurgreiðslu á kindakjöti verði hins vegar hætt frá hausti 1992. Vegna kaupa á framleiðslurétti og skörunar beinna greiðslna og niðurgreiðslna er óhjákvæmilegt að útgjöld ríkissjóðs vaxi á árinu 1992,`` --- samanber fjárlagafrv. --- ,,en sparnaður mun koma fram þaðan í frá. Þannig er stefnt að hraðlækkandi útgjöldum hins opinbera til framleiðslu sauðfjárafurða. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að hverfa frá opinberri verðlagningu kindakjöts í tengslum við þessa kerfisbreytingu.``

    Í framhaldi af þessu, virðulegi forseti, vil ég skjóta því inn í að hæstv. landbrh. hefur fylgt þessu eftir með yfirlýsingum sínum. En þá segir hér í beinu framhaldi, með leyfi forseta:
    ,,Í athugun er að gefa heildsöluverð frjálst haustið 1992, en verðlagning til bænda verður endurskoðuð 1993 í samræmi við búvörusamninginn. Þá verður ávallt tryggt að bændur eigi val um slátrun eins og heilbrigðiskröfur leyfa.
    Opinber stuðningur við mjólkurframleiðslu verður einskorðaður við innanlandsmarkað. Ríkisstjórnin leggur áherslu á meira frelsi í greininni, endurskoðun verðmiðlunar, afnám sérstakra sölusvæða og frjálsari verðlagningu en nú tíðkast.
    Athuguð verða rekstrarskilyrði allra greina landbúnaðarins með það í huga að treysta samkeppnisstöðu þeirra vegna viðræðna um frjálsa viðskiptahætti innan GATT og samningaviðræðna um hið Evrópska efnahagssvæði og við ríki Austur-Evrópu.
    Endurskoðun búvörulaga er hafin með það að markmiði að hagræða í framleiðslu, vinnslu og sölu búvara. Reiknað er með að endurskoðuninni ljúki fyrir haustþingið 1992. Stefnt er að því að draga úr sjálfvirkni í útgjöldum ríkissjóðs.``
    Þetta er kannski veigamesta ákvæðið sem birtist í greinargerð með því frv. sem hér liggur fyrir.
    ,,Í tengslum við upptöku beinna greiðslna til bænda mun ríkisstjórnin endurskoða framkvæmd niðurgreiðslna á búvöruverði m.a. vegna vaxta, geymslugjalda og niðurgreiðslna á ull og þurrmjólk.``
    Þá segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Reglur um innflutning grænmetis og garðávaxta verða endurskoðaðar með það að markmiði að tryggja fjölbreytt framboð til neytenda árið um kring, en jafnframt skal tekið réttmætt tillit til samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda.``
    Um stofnana- og sjóðakerfi landbúnaðarins segir í þessari stefnumörkun hvítbókar ríkisstjórnarinnar á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Starfsemi stofnana landbúnaðarins verður endurskoðuð með einföldun, sparnað, betri nýtingu fjármagns og aukin framlög atvinnugreinarinnar í huga. Hafin er endurskoðun á stafsemi Veiðimálastofnunar og skipulagi rannsókna á sviði fiskeldis og fiskiræktar.
    Lög um sjóði landbúnaðarins verða endurskoðuð, m.a. í því skyni að þeir verði framvegis látnir standa straum af kostnaði við stofnanir hans í vaxandi mæli. Haustið 1991 verður hafin endurskoðun laga um Framleiðnisjóð landbúnaðarins og hlutverk hans tengt rannsóknum og þróunarstarfi.`` --- Það er ástaða til að skjóta því hér inn í að framlög til hans voru helminguð í fjárlögum og í anda þessarar stefnumörkunar. --- Þá segir hér í beinu framhaldi, virðulegi forseti: ,,Áburðarverksmiðju ríkisins verður breytt í hlutafélag og er undirbúningur hafinn. Endurskoðun á starfi stofnana og laga um þær mun miða að því að draga úr sjálfvirkni opinberra útgjalda í landbúnaði.``
    Þá er ákvæði um að ríkisstjórnin muni láti fara fram athugun á því hvernig unnt sé að koma á frekari verkaskiptingu og sérhæfingu milli búnaðarskólanna þannig að menntun verði í senn markvissari og ódýrari.
    Loks er hér ákvæði um endurskoðun jarða- og ábúðarlaga.
    ,,Gildandi lög um jarðir og ábúð eru við það miðuð að hefðbundinn búskapur sé stundaður á sem flestum jörðum. Lögin verða endurskoðuð vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og frv. lögð fram á Alþingi 1991--92.``
    Virðulegi forseti. Ég hef að gefnu tilefni farið yfir það í stórum dráttum hvernig stefnumótun í landbúnaðarmálum hefur verið hagað af hálfu ríkisstjórnar og hvernig hún birtist fyrst og fremst í hinni hvítu bók ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu fjárlagafrv. og greinargerðum þess sem og í því fyrirheiti sem hér er gefið í greinargerð þessa frv. til laga um að taka núverandi búvörulög til heildarendurskoðunar. Það er því ljóst að það er mikið verk að vinna við endurskoðun landbúnaðarstefnunar enda viðurkennt í forsendum sjömannanefndar, sem er í stórum dráttum höfundur búvörusamningsins, að sú stefna var komin út í hreinar ógöngur.
    Í ljósi þess ástands sem viðvarandi er í ríkisfjármálum er einnig ljóst að við erum komin yfir þau mörk sem við höfum efni á að því er varðar heildarstuðning við landbúnaðarframleiðsluna, það sjá menn hæglega ef þeir skoða uppsafnaðan hallarekstur í ríkisfjármálum á liðnum áratug, virða fyrir sér tölur um niðurstöðu á halla ríkissjóðs á sl. ári, þann vanda sem núv. ríkisstjórn og þingmeirihluti stóð frammi fyrir varðandi 15--20 milljarða uppsafnaðan ríkisfjármálavanda við gerð fjárlaga 1992 og ég tala nú ekki um þegar menn líta til þeirra skuldbindinga sem falla munu á ríkissjóð á næstu árum í ljósi margháttaðra meiri háttar fjárfestingamistaka á vegum margra opinberra sjóða sem falla munu á skattgreiðendur á næstu árum.
    Það er því ljóst að það eru ekki efni til þess að óbreyttri stöðu í íslenskum þjóðarbúskap að halda áfram því útgjaldastigi sem verið hefur því að væntanlega heldur enginn því fram að þess sé kostur að halda þessu kerfi áfram með erlendum lánum.
    Að þessu sinni sé ég ekki ástæðu til að ræða þann þátt sem væntanlegt samkomulag um GATT kann að hafa í þá átt að festa í sessi þessar forsendur og áherslur um breytingar í landbúnaðarstefnunni. Það mál er rækilega rætt bæði hér innan veggja Alþingis sem og á vettvangi með bændum og þarfnast ekki nánari skýringa af minni hálfu. En það er ljóst að þær breytingar, verði af þeim, hníga mjög í sömu átt og sú stefna sem hér hefur verið mótuð.