Lokun fæðingardeilda

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 13:45:00 (3342)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja þá hæstv. utanrrh. og hæstv. heilbrrh. um sitt hvort efnisatriðið: Hæstv. utanrrh. um pólitískan tilgang með opinberri heimsókn hæstv. forsrh. til Ísraels. Hvort í þessari heimsókn felist sérstakur stuðningur við stjórnarstefnu ríkisstjórnar Itzhaks Shamirs svo sem afstöðu þeirrar ríkisstjórnar til landnáms á hernumdu svæðunum og til framkomu við palestínsku þjóðina almennt.
    Hæstv. heilbrrh. vil ég spyrja um afleiðingar af lokun fæðingardeilda á þó nokkrum stöðum á landinu sem þegar hefur verið ákveðin eða boðuð af stjórnendum viðkomandi stofnana sem viðbrögð við þeim harkalega niðurskurði á fjárveitingum til þessara stofnana sem ákveðinn hefur verið. Hefur hæstv. heilbrrh. trú á því að það muni draga úr barneignum í sumar sem nemur þessari lokun á fæðingardeildum á allmörgum stöðum á landinu? Ef svo er ekki, hvernig reiknar þá hæstv. heilbrrh. með að sparnaðurinn skili

sér ef barneignir skyldu nú verða eftir sem áður svipaðar og áður stefndi til og hafði verið lagður grunnur að? Hvernig hyggst þá hæstv. heilbrrh. mæta þeim viðbótarkostnaði sem mun leiða af akstri milli heilsugæslustöðva, sem mun leiða af auknu álagi, væntanlega nauðsynlegri yfirvinnu og viðbótarmönnun þeirra fæðingardeilda sem verða þá að taka við auknum verkefnum og eru þegar fyrir fullnýttar? Þetta á t.d. við um fæðingardeildina á Landspítalanum og fæðingardeildina á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sem greinilega verða ef svo heldur sem horfir að taka við stórauknum verkefnum yfir ákveðinn tíma sumarmánaðanna og hafa þó stjórnendur þeirra stofnana reiknað með því að þurfa að rifa seglin í þessum rekstri. Að síðustu vil ég spyrja hæstv. heilbrrh. hvert sé mat hans á þeim kostnaðarauka viðkomandi foreldra sem augljóslega mun fylgja þessu, vinnutapi og þjóðhagslegri sóun sem felst í því að flytja konur til þess að fæða um langan veg í burtu úr þeim byggðarlögum þar sem fæðingardeildum hefur verið lokað.