Lokun fæðingardeilda

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 13:53:00 (3345)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig ástæða til að þakka þær upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. heilbrrh. að ríkisstjórnin ætli ekki að fara að hlutast til um barneignir í landinu með tilskipunum og miðstýrðum ákvörðunum, það er þá eitt af því fáa sem hún ætlar að láta í friði í þeim efnum.
    Auðvitað fór hæstv. heilbrrh., eins og hans var von og vísa, eins og köttur í kringum heitan graut. Hann forðaðist eins og heitan eldinn að svara því sem hann var spurður um. Hann þorði ekki út í umræður um það sem er kjarni þessa máls að í áformum stjórnenda einstakra sjúkrahúsa eða heilbrigðisstofnana felst enginn sparnaður heldur er verið að færa verkefnin til og velta vandanum yfir á aðra. Þau útgjöld sem kunna að sparast á Sjúkrahúsinu á Húsavík og Sjúkrahúsinu á Blönduósi lenda á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri ef börnin halda áfram að fæðast sem við skulum vona að þau geri og guð lofi. Þetta forðast hæstv. heilbrrh. auðvitað að ræða vegna þess að hann vill ekki standa berskjaldaður frammi fyrir þeim staðreyndum málsins að hér rekur sig hvað á annars horn. Og enn síður ræddi hann það sem jafnframt liggur við að sá viðbótarkostnaður sem af þessu hlýst hlýtur í stórum stíl að lenda á þolendunum, þ.e. fjölskyldum sem ætla að eignast börn á komandi sumri í þessu tilviki. Þau þurfa að taka á sig ferðalög, vinnutap og óhagræði umfram það sem ella væri ef þeim hefði staðið til boða að eignast börnin í sinni heimabyggð. Þetta forðaðist auðvitað hæstv. heilbrrh. að gera en fór hér í langar skógarferðir um það hversu góðar tillögur hann hefði fengið frá hinum og þessum um niðurskurð.
    Síðan var hann svo óheppinn, hæstv. heilbrrh., að nefna bandaríska heilsugæslukerfið sem víti til varnaðar og við skulum þá láta það verða víti til varnaðar, hæstv. heilbrrh. En ekki stefna að því, sem mér sýnist leynt og ljóst gert, að ana út í sömu ógöngurnar hér --- eða hvað er í burðarliðnum hér í sambandi við einkarekstur heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu? Nei, ég fagna því auðvitað að kostur gefst að ræða við hæstv. heilbrrh. undir ítarlegra dagskrárformi hér á eftir og það er svo sannarlega ástæða til að sleppa honum ekki með jafnbilleg svör og hann var að reyna að gefa mér.
    Ég var síðan að reyna að spyrja hæstv. utanrrh. um hans skoðun en hún er sem sagt ekki til og er engin og hann biðst undan því að þurfa að svara spurningum sem til hans er beint um utanríkismál og vísar þeim á forsrh. Er það orðið svo að forsrh. tali fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um stefnumörkun í utanríkismálum? Það er þá sennilega vegna þess að hann er búinn að ráða sér hernaðarráðgjafa í forsrn. í staðinn fyrir efnahagsráðunaut. Ég var að spyrja um hvernig það tengdist íslenskri utanríkisstefnu, utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar þessi mikla opinbera heimsókn hæstv. forsrh. til Itzhaks Shamirs og ríkisstjórnar hans en hæstv. utanrrh. passaði.