Opinber heimsókn forsætisráðherra til Ísraels og lokun fæðingardeilda

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 13:55:00 (3346)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get fullyrt að þau ummæli eru bæði ómakaleg og ósanngjörn sem hv. þm. sem hér talaði síðastur viðhafði um þær tillögur stjórnenda stofnana á vegum heilbr.- og trmrn. sem þeir hafa verið að skila. Að þær skili ekki árangri til sparnaðar er rangt. Þessir stjórnendur stofnana á vegum ráðuneytisins hafa unnið sitt verk afburðavel og þær tillögur, sem þeir hafa skilað mér og er nú verið að kynna fyrir forustumönnum fjárln., eru raunhæfar sparnaðartillögur og aðhaldstillögur sem munu ná miklum árangri. Hitt er jafnljóst að þær fullyrðingar hv. þm. og annarra, að hér standi til að skerða íslenska velferðarkerfið og skera það niður við trog þannig að verið sé að flytja sjúkt fólk og aldrað hreppaflutningum á milli sjúkrahúsumdæma, eru rangar. Það er jafnrangt að við séum að breyta eðli heilbrigðisþjónustunnar í átt til þess kerfis sem t.d. er rekið í Bandaríkjunum. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er betra að takast á við vandann heldur en láta velferðarkerfið brotna í höndunum á okkur eins og gerst hefur í sumum nálægum löndum.