Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 14:11:00 (3356)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Frú forseti. Þegar fjárlög fyrir árið 1992 voru samþykkt hér á Alþingi síðustu dagana fyrir jól voru teknar stefnumarkandi pólitískar ákvarðanir um sjúkrahúsaþjónustu á Reykjavíkursvæðinu. Þessar ákvarðanir breyta skipulagi þjónustunnar og hafa veruleg áhrif til frambúðar. Enn sem komið er hafa þær þó öðru fremur valdið glundroða og ótta hjá starfsfólki og sjúklingum sjúkrahúsanna í Reykjavík.
    Þessar ákvarðanir voru í aðalatriðum fjórar:
    Í fyrsta lagi að leggja niður Landakotsspítala í núverandi mynd með því að skera fjárframlög til spítalans niður um 35--40% eða um 430--480 millj. Þetta var gert án undirbúnings, án samráðs við St. Jósefssystur og starfsfólk og án þess að ákvörðuninni fylgdi nokkur stefnumörkun um það hvernig niðurskurðinum skyldi mætt. Stjórn og starfsfólk spítalans var í rauninni skilið eftir í lausu lofti, enda er spítalinn að því er segja má nú ein rjúkandi rúst.
    Í öðru lagi var ákveðið að draga verulega úr rekstri og þjónustu St. Jósefsspítala í Hafnarfirði með því að skera fjárframlög til spítalans niður um tæp 30% eða um 64 millj. Þessari ákvörðun fylgdi heldur engin afstaða til þess hvernig þetta skyldi gert. Þetta getur ekki þýtt annað en að aukin verkefni færast yfir á stóru sjúkrahúsin í Reykjavík.
    Í þriðja lagi var ákveðið að færa rekstur Fæðingarheimilis Reykjavíkurborgar frá Borgarspítala yfir á Landspítala með manni og mús en aðeins 7 millj. og 7 stöðugildum. Að öðru leyti var engin formleg ákvörðun tekin um framtíð stofnunarinnar en tillaga Kvennalistans um óbreyttan rekstur var felld hér á Alþingi. Við þá afgreiðslu gaf heilbr.- og trmrh. reyndar yfirlýsingu, sem ég mun fara fram á að hann staðfesti hér á eftir.
    Í fjórða lagi var ákveðið að skera rekstur ríkisspítalanna í Reykjavík og Borgarspítalans niður um 5% sem minnkar verulega svigrúm þessara stofnana til að bregðast við afleiðingum þeirra breytinga á sjúkrahúsaþjónustunni sem ég var hér að lýsa og sem mun eiga sér stað líka um land allt. Spítalar úti á landi geta lokað deildum og sent suður sem auðvitað er mikið óhagræði fyrir íbúana á staðnum og skerðir þjónustuna við þá, en spítalarnir stóru í Reykjavík verða að taka það sem hjá þeim lendir. Þeir eiga ekki annarra kosta völ.
    Þessi niðurskurður sem ég hef nú rakið ásamt halla frá síðasta ári á þessum sjúkrahúsum öllum saman nemur því um það bil 1,1--1,2 milljörðum á árinu en þetta samsvarar því sem næst öllum rekstrarkostnaði Landakotsspítala á síðasta ári. Það er því í raun verið að skera niður í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu sem nemur einu 174 rúma sjúkrahúsi. Slíkur niðurskurður hlýtur að koma niður á sjúklingum nema því aðeins að stórkostlegt og vítavert bruðl hafi átt sér stað á sjúkrahúsunum í Reykjavík hingað til. Hafi svo verið liggur auðvitað beint við að segja þeim mönnum upp störfum sem ábyrgðina bera. Þá hafa þeir farið gáleysislega með opinbert fé, ef fært er að koma þessum niðurskurði við án þess að skerða verulega þjónustu við sjúklinga.
    Þessum niðurskurði sem ég hef rakið fylgir í raun engin stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnar, ráðherra eða ráðuneytis. Ráðamönnum stofnana er hreinlega sagt að taka fyrir nefið, stinga sér til sunds og reyna með einhverjum hætti að ná landi. Enginn talar við starfsfólkið sem er að missa atvinnuöryggi sitt og enginn hlustar á hugmyndir þess. Á þetta jafnt við um starfsfólk Landakots og Fæðingarheimilis Reykjavíkur. Þessu fólki er vísað á guð, nýjan guð eða gaddinn. Þessi óvissa nær til rúmlega 600 starfsmanna á Landakoti sem nú eru með uppsagnarbréf í höndunum og til tæplega 20 starfsmanna á Fæðingarheimili

Reykjavíkur sem eru í tæplega 16 stöðugildum.
    Allt bendir til að helmingur starfsmanna Fæðingarheimilis Reykjavíkur verði að flytja sig í annað starf og ef ekki leysist úr vandræðum Landakots hið bráðasta, þá missa um 200 starfsmenn spítalans atvinnuna. Margir sem nú eru í óvissu hafa unnið vel og dyggilega fyrir ríkið í langan tíma á lágu kaupi og skýrasta og órækasta dæmið um það eru sóknarkonurnar. Af um 120 sóknarkonum sem nú hafa fengið uppsagnarbréf á Landakoti eru yfir 70% 50 ára eða eldri og það er ekki auðvelt fyrir konur á þeim aldri að komast í önnur störf.
    Á sjúkrahúsunum hafa menn verið að leita leiða til að bregðast við pólitískum ákvörðunum Alþingis, því að auðvitað voru þetta ákvarðanir sem hér voru teknar og væntanlega með fullri vitund og vilja alþingismanna sem þær samþykktu, en svo virðist sem hæstv. heilbrrh. sé þar hvergi nærstaddur. Hann bíður átekta á meðan menn koma sér saman um það hvort eigi að hengja eða skjóta. Hann vísar oft til sjálfseignarstofnunarinnar á Landakotsspítala og talar um hana eins og hún ráði sér algerlega sjálf, hún sé ekki á hans ábyrgð og honum ekki viðkomandi. Það er hins vegar ástæða til þess að vekja athygli á því að sjálfseignarstofnunin á Landakotsspítala var stofnuð af heilbr.- og trmrh. á sínum tíma, Matthíasi Bjarnasyni, og þeir sem sitja í fulltrúaráði þeirrar stofnunar eru þangað skipaðir af ráðherra þannig að hún hlýtur að starfa á ábyrgð hans.
    Á Landspítalanum eru núna einhverjir menn að möndla með Fæðingarheimili Reykjavíkur, ráðstafa stofnuninni og ákvarða framtíð hennar og stjórnendur Landakots og Borgarspítala eru að möndla með einhverja sameiningu sem enginn veit í hverra þágu eða þökk er. Ég reikna með að þeir aðilar sem þarna eru að möndla með framtíð þessara stofnana séu að reyna að lágmarka skaðann sem af niðurskurðinum hlýst, en jafnframt er ég býsna sannfærð um að þeir sem eru að möndla með málin hvað mest eru um leið að reyna að tryggja sína stöðu og framtíð.
    Nú liggur sameining Landakots og Borgarspítala í loftinu, sameining sem ljóst er að mikill ágreiningur er um á Landakoti og sem efast má um að standist gerða samninga við St. Jósefssystur. Í þessu sambandi er rétt að rifja það upp að ríkið keypti rekstur, fasteignir og tæki Landakotsspítala af St. Jósefssystrum árið 1976 fyrir 12 millj. nýkrónur sem samsvara líklega um 726 millj. í dag. Þetta er auðvitað ekkert verð fyrir 176 rúma hátæknispítala, enda settu systurnar ákveðin skilyrði við söluna og þau skilyrði er að finna í kaupsamningi og í skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina. Í 4. gr. kaupsamnings segir:
    ,,Kaupandi lýsir því yfir að hann muni fela rekstur spítalans sjálfseignarstofnun sem komið verður á fót í því skyni að spítalinn verði rekinn með sama sniði og verið hefur. Sjálfseignarstofnun þessi verður í því formi sem ríkisstjórnin ákveður og seljandi samþykkir.``
    Í skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina, sem er eins og hér segir stofnuð af heilbr.- og trmrn., segir í 5. gr., með leyfi forseta: ,,Ríkið skuldbindur sig til þess að sjá spítalanum fyrir rekstrarfé til reksturs starfseminnar.`` Og síðar í 8. gr.: ,,Stofnunin skal reka St. Jósefsspítala í því formi sem hann nú er rekinn í, sérstaklega hvað snertir læknisþjónustu.``
    Ég held því að það sé alveg skýrt undir hvaða skuldbindingar ríkisvaldið gekkst þegar það gerði þessa samninga.
    Þessar greinar sem ég var að lesa upp hafa þegar verið brotnar með tæplega 40% niðurskurði á rekstrarframlagi til spítalans. Ef af sameiningu verður án samþykkis systranna er aftur höggvið í sama knérunn og þeim sýnd grátleg óvirðing fyrir 75 ára sjálfboðastarf í þágu þjóðarinnar. Ég held að mörgum finnist yfirgangurinn og tillitssleysið við St. Jósefssystur orðinn ærinn nú þegar þó ekki sé bætt gráu ofan á svart.
    Mér segir svo hugur að sumir Landakotsmenn séu tilbúnir nú til að fara út í sameiningu þó að þeir hafi ekki verið tilbúnir til þess rétt fyrir áramót til að tryggja að þeir fái einhverju ráðið um þróun mála, tryggja áhrif sín. Borgarspítalamenn hins vegar vilja auðvitað sameiningu til að verða stærri og til að tryggja stöðu sína gagnvart Landspítalanum og koma í veg fyrir að Landspítalinn gleypi þá. Það er nefnilega þannig í sjúkrahúsamálum hér í Reykjavík að þeir stóru vilja gleypa þá sem minni eru sem gera aftur allt hvað þeir geta til að komast hjá því að verða étnir. Það er þetta lögmál sem ræður för en ekki hlutlæg úttekt og mat á því hvað er í raun best fyrir sjúklinga og hagkvæmast fyrir ríkið og þar með skattgreiðendur.
    Það er afskaplega óljóst hvað vinnst við sameiningu Landakots og Borgarspítala, bæði faglega og fjárhagslega, en verði ávinningur getur hann tæpast orðið fyrr en eftir allnokkurn tíma. Sameining stórfyrirtækja, ekki síst þegar um jafnviðkvæman rekstur og sjúkrahús er að ræða þarf alltaf talsverðan aðdraganda, góðan undirbúning, skipulagða framkvæmd og sameiningin kostar umtalsvert fé. Og mér finnst að alþingismenn ættu að hafa í huga sameiningu bankanna hér í landinu. Hún hefur tekið alllangan tíma og hún er enn ekki farin að skila neinum sparnaði eftir allan þennan tíma. Þó létti ríkisvaldið af bönkunum sameinuðum um 3 milljarða kr. skuld vegna Útvegsbanka og þetta er enn ekki farið að skila neinu. Ég er sannfærð um það að ef menn fara út í sameiningu, þá er ódýrast að láta hana eiga sér stað á nokkuð löngum tíma, en það er dýrast að gera hana í einum grænum hvelli eins og virðist falla best að æðibunugangi heilbrrh. og hans manna.
    Það er athyglisvert viðtal í Tímanum í dag við aðstoðarmann heilbrrh. þar sem hann talar um sameininguna og segir, með leyfi forseta:

    ,,Sumir vilja teygja þetta upp í þrjú ár eða lengur. Ég held að ríkisstjórnin vilji að þetta gangi hraðar fyrir sig þannig að þetta skili sem fyrst einhverjum árangri,`` sagði Þorkell. Og síðan segir hann um nefndarstarfið sem unnið var fyrir áramót og gerði ráð fyrir að sameiningin tæki fimm til sex ár:
    ,,Auðvitað munum við byggja á vinnu nefndarinnar, en það þarf kannski að herða meira mittisólina en þarna var gert ráð fyrir. Nefndin vann sitt starf meira`` --- og takið nú eftir --- ,,á faglegum grundvelli um hvernig hún vildi að svona sjúkrahús liti út ef nefndarmenn hefðu nóg fé til að fara út í þær breytingar sem þeir helst kysu.``
    Þetta segir aðstoðarmaður ráðherra. Það sem hann er að segja þarna stangast auðvitað algerlega á við hugmyndir þeirra sem eru núna að vinna að sameiningunni á Borgarspítalanum og á Landakotsspítala. Þeir sem þar starfa gera ráð fyrir að Landakot haldi nánast óbreyttum rekstri fram á mitt næsta ár, fram á mitt árið 1993. En á þessu ári verði lagt í 125 millj. kr. framkvæmdir við skurðstofur á Borgarspítala svo að spítalinn verði í stakk búinn til að taka við verkefnum af Landakoti á næsta ári. Sameiningunni verður, samkvæmt þessum hugmyndum, ekki lokið fyrr en að fimm árum liðnum. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að stofnframkvæmdir vegna sameiningar kosti ekki undir 1 milljarði. Og spurningin snýst því í raun aðeins um það á hve mörgum árum sameiningin eigi að gerast og þar með á hve mörg ár stofnkostnaðurinn dreifist. Þeim mun færri ár sem sameiningin tekur, þeim mun harðar kemur stofnkostnaðurinn niður á þessi tilteknu ár. En kostnaðurinn er óumflýjanlega til staðar.
    Það er alveg ljóst að sameiningarmenn gera nú út á það fé sem til ráðstöfunar er í ráðuneytinu og ráðherra hefur veifað eins og gulrót framan í stjórnendur spítalanna. Hann notar það til að deila og drottna og hann gefur í skyn í Morgunblaðinu um helgina að hann muni nota það til að umbuna og refsa. Í allt er þarna um tæplega 800 millj. kr. að ræða og ef marka má viðtal við Árna Sigfússon, formann sjúkrastofnana Reykjavíkur, í Morgunblaðinu í dag gera sameiningarmenn sér vonir um að fá rúmlega 60% þessarar upphæðar. Svo er að skilja að það sé í raun forsenda sameiningarinnar að þetta fé fáist. Eftir sem áður yrði um að ræða um 360 millj. kr. niðurskurð á rekstri spítalanna tveggja á þessu ári. Í raun má segja að með þessu móti fengi Borgarspítalinn sinn niðurskurð bættan, þær 200 millj. sem hann þarf að skera niður, en eftir stæði 78% af niðurskurði Landakotsspítala. Og það er erfitt að sjá hvernig hægt er að koma þessum sparnaði við án þess að segja upp starfsfólki.
    Fögur orð formanns stjórnar sjúkrastofnana, Árna Sigfússonar, tryggja ekki atvinnuöryggi og sú spurning hlýtur líka að vakna hvort eitthvert mark sé á þeim takandi. Þessi spurning vaknar ekki síst vegna þeirra atburða sem nú virðast eiga sér stað á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var reykvískum konum lofað því að Fæðingarheimilið fengi að lifa og dafna sem fæðingarstofnun um ókomna framtíð. Þeim var lofað því. Í nafni þáv. borgarstjóra og núv. forsrh. var gert heiðursmannasamkomulag, eitt af þessum heiðursmannasamkomulögum sem menn gera og svíkja síðan, við starfsfólk heimilisins um áframhaldandi óbreyttan rekstur. Formaður stjórnar sjúkrastofnana sór og sárt við lagði í október sl., og þar er ég að tala um Árna Sigfússon, að konur hefðu áfram þennan valkost þegar til fæðingar kæmi þó að ríkið yfirtæki reksturinn. Og svo síðast núna í desember tók heilbrrh. í sama streng hér við afgreiðslu fjárlaga og orð hans eru auðvitað tryggilega prentuð í þingtíðindi, en þar segir hæstv. ráðherra:
    ,,Ég vil gjarnan leiðrétta þann misskilning að hér sé um það að ræða að leggja eigi niður Fæðingarheimili Reykjavíkur sem fæðingarstofnun. Það er ekki rétt. Það er gert ráð fyrir því að starfrækja heimilið áfram sem fæðingarstofnun . . .   Ríkisspítalarnir munu reka áfram Fæðingarheimili Reykjavíkur sem fæðingarstofnun undir sama nafni en stjórnendurnir munu að sjálfsögðu gera ráð fyrir hagræðingu á milli fæðingardeildarinnar og Fæðingarheimilisins um þann rekstur sem verður sameiginlega á vegum ríkisspítalanna.``
    Ýmislegt bendir nú til þess að innan mjög skamms tíma verði Fæðingarheimilinu engu að síður lokað fæðandi konum og hér í borginni er jafnvel talað um fimm daga. Þar verði aðeins boðið upp á sængurlegu en engar fæðingar. Stofnunin fái engu að síður að halda nafni sínu, en að öðru leyti verði um allt annars konar starfsemi að ræða. Það verði sem sagt haldið í skurnina en blóminn blásin úr. Þetta kemur líka ljóslega fram í viðtali við Gunnlaug Snædal prófessor í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Hann segir þó að líklegast verði Fæðingarheimilið haft sem sængurkvennadeild og allar fæðingar verði á kvennadeildinni.`` Og síðar í viðtalinu: ,, . . .  að konur yrðu færðar yfir á Fæðingarheimilið nokkrum klukkustundum eftir fæðingu.``
    Hvað á nú svona að þýða að vera að transportera konum úr einu húsi yfir í annað rétt eftir fæðingu? Þetta er svo fráleitt.
    En það var talað um fæðingarstofnun og ráðherra lofaði hér að þetta yrði rekið sem fæðingarstofnun eftir breytingu. Samkvæmt minni málvitund og reynslu getur stofnun þar sem engin fæðing á sér stað ekki verið fæðingarstofnun. Ég hlýt að spyrja heilbrrh. og aðra þingmenn hvort þeir séu mér ekki sammála í því að fæðingarstofnun geti sú stofnun ekki talist þar sem enginn fæðir. Og ef svo er, er þá ekki ljóst að hér fyrir jól var því lofað af ráðherra að fæðandi konur ættu vísan aðgang að Fæðingarheimili Reykjavíkur þó að breytt yrði um rekstraraðila?
    Fæðingarheimili Reykjavíkur hefur haft gífurlega þýðingu fyrir konur í landinu og bryddað upp á margvíslegum nýjungum sem flestar hafa miðað að því að gera fæðingu barns sem eðlilegasta. Það er ekkert eins eðlilegt og að fæðast í þennan heim og mikill meiri hluti allra fæðinga er án teljandi vandamála. Það er því fráleitt að allar fæðingar þurfi að eiga sér stað á hátæknisjúkrahúsi og það getur tæpast verið hagkvæmt.
    Fæðingarheimili Reykjavíkur er stofnun sem hefur verið mótuð af ljósmæðrum til mótvægis við fæðingardeild Landspítalans þar sem læknar hafa verið meira ráðandi. Þessar stofnanir eru ágætar hvor með annarri og það er mikilvægt að þær fái báðar þrifist og konur eigi eitthvert raunhæft val. Okkur finnst eðlilegt hér að hafa tvær eða fleiri lyflækningadeildir eða skurðlækningadeildir í borginni. Því ekki fleiri en eina fæðingarstofnun?
    Það er óneitanlega sérkennilegt og sorglegt að þær þrjár sjúkrastofnanir á Reykjavíkursvæðinu sem konur hafa byggt upp, mótað og rekið, skuli nú allar róa lífróður. Úti í bæ og inni í ráðuneyti eru karlmenn í ráðandi stöðum að ráðskast með og gera út um framtíð þessara stofnana án þess svo mikið sem eyða orði á þær konur sem eiga heiðurinn af tilvist þeirra. Það er ekki talað við St. Jósefssystur og ekki við ljósmæður á Fæðingarheimilinu.
    En það er ekki bara verið að ráða örlögum þessara stofnana heldur er líka verið að breyta fjölmennum kvennavinnustöðum, leggja niður störf kvenna, segja konum upp og flytja þær til í starfi. Og það er með öllu ólíðandi hvernig staðið hefur verið að þessum málum. Það er nauðsynlegt að fá hér á Alþingi fram pólitískan vilja ráðamanna þessa lands og þá ekki síður stefnu þeirra í kjölfar niðurskurðar. Því ætla ég að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. eftirfarandi spurninga:
    1. Ætlar ráðherra að beita sér fyrir sameiningu Borgarspítala og að hún hefjist þegar á þessu ári og gangi í gegn á innan við einu til tveimur árum eins og ráða má af viðtali við aðstoðarmann hans í blöðum í dag?
    2. Hvaða skoðun hefur ráðherra á rekstrarformi sjúkrahúsa Reykjavíkur ef af sameiningu verður? Það hefur auðvitað mikla þýðingu fyrir starfsfólk sem þar kemur til með að vinna að vita þetta.
    3. Hefur ráðherra tekið upp samningaviðræður við St. Jósefssystur um breyttan rekstur Landakotsspítala eins og honum ber skýlaus skylda til hvort sem til niðurskurðar og/eða sameiningar kemur?
    4. Hvaða upphæð ætlar ráðherra að verja til sjúkrahúsanna í Reykjavík af þeim 500 millj. kr. sem til ráðstöfunar eru vegna rekstrarsparnaðar?
    5. Er ráðherra tilbúinn til að taka pólitíska ábyrgð á þeim uppsögnum starfsfólks sem mikill niðurskurður á framlagi til Landakotsspítala hefur óneitanlega í för með sér?
    6. Ætlar ráðherra að tryggja það að fæðandi konur, sem er annað en sængurkonur, eigi áfram aðgang að Fæðingarheimili Reykjavíkur og þar sé boðið upp á þjónustu sem sé raunhæfur valkostur fyrir fæðandi konur?