Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 14:31:00 (3357)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Áður en ég svara spurningum hv. þm. vil ég leiðrétta rangfærslur sem fram komu í máli hennar vegna málefnis sem kemur þessu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ég vil gjarnan að það komi fram svo að niðurstaðan í því máli sé altént rétt að það er ekki rétt að sameining bankastofnana á Íslandi hafi engu breytt. Eftir sameininguna eru nú tæplega 100 starfsmönnum færra í bankastofnunum heldur en var fyrir þá sameiningu og það hafa verið seldar eignir sem voru í eigu bankanna fyrir yfir 500 millj. kr. Þetta kemur sjúkrahúsmálunum ekki nokkurn skapaðan hlut við. En rétt skal vera rétt og ég vil nota tækifærið til að leiðrétta hv. þm., m.a. til þess að hv. þm. fari ekki með sömu rangfærslurnar ef hv. þm. skyldi ræða þetta mál aftur. ( ISG: Hvað hefur sparast?) Þetta sem ég var að segja, virðulegi þingmaður, hefur sparast í launakostnaði sem samsvarar 100 stöðugildum og í nýtingu fasteigna sem svarar fasteignum að verðmæti milli 500 og 600 millj. kr. Það hefur sparast, virðulegi þingmaður, og það er rétt að hafa það sem sannara reynist --- eða hvað?
    Virðulegi forseti. Niðurskurður í heilbrigðismálum er ekkert nýr. Jafnvel þó svo við búum við það ástand að við séum sennilega með eitt dýrasta heilbrigðiskerfi í öllum heiminum. Ef við tökum tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar, þá erum við sennilega með dýrasta heilbrigðiskerfi í heiminum næst á eftir Bandaríkjamönnum. Engu að síður hafa átt sér stað verulegar lækkanir á fjárveitingum íslenska ríkisins til heilbrigðismála á undanförnum árum, m.a. til sjúkrahúsanna hér í Reykjavík. Þessi lækkun á fjárveitingum hefur m.a. komið fram í því að sjúkrahúsin hafa í mörg ár ekki verið rekin með fullum afköstum. Á undanförnum tveimur árum eða svo, áður en til þeirrar lækkunar á framlögum úr ríkissjóði sem við erum að ræða um nú kom til framkvæmda, hafa sjúkrahúsin í Reykjavík samtals haft lokuð um 100 sjúkrarúm allt árið um kring sem samsvarar því að af samanlögðu sjúkrahúsabattaríinu í Reykjavík, þessum þremur sjúkrahúsum, þá sé eitt meðalstórt sjúkrahús lokað allt árið um kring. Á sama tíma, m.a. fyrir tilverknað þessarar stofnunar hér, hins háa Alþingis, hafa menn verið að byggja hjúkrunarrými í Reykjavík þar sem kröfurnar hafa verið þær að stærð í fermetrum á hvert byggt hjúkrunarrými hefur verið frá 65 og upp í 68 m 2 og kostnaður við nýbygginguna hefur verið um 8 millj. kr. á rúm. Þetta hefur Alþingi verið að gera í fjárlagaákvörðunum sínum á sama tíma og Alþingi hefur verið með fjárveitingum til reksturs þeirra stofnana sem fyrir eru að taka ákvarðanir um að starfrækja ekki 100 sjúkrarúm sem ella hefðu getað nýst til hjúkrunarvistunar. Og ég spyr: Finnst mönnum þetta eðlilegt? Mitt svar er nei. Finnst mönnum eðlilegt að þjóð sem á í efnahagsörðugleikum noti sitt fé svona? Mitt svar er nei. En það er engu að síður staðreynd

að hún gerir það.
    Sá niðurskurður sem átt hefur sér stað hér á Reykjavíkursvæðinu hefur ekki síst komið fram í lækkuðum fjárveitingum til Landakotsspítala. Ástæðan er m.a. sú að í þeim þrengingum sem fyrrverandi heilbrigðisráðherrar hafa staðið í með minna fjármagn til ráðstöfunar heldur en þarf til að reka þessa spítala með eðlilegum hætti, þá hafa þeir reynt að varðveita þá þjónustu annars vegar sem er á Landspítalanum, sem er háskólasjúkrahús okkar Íslendinga og sá spítali þar sem ýmsar sérhæfðar aðgerðir fara fram sem ekki er að finna annars staðar, og hins vegar Borgarspítalanum sem er aðalslysajúkrahús landsmanna. Niðurskurðurinn hefur því verulega bitnað á Landakotsspítala á umliðnum árum þannig að Landakotsspítali eins og hann er rekinn í dag er raunar ekki nema svipur hjá sjón frá því sem hann ætti að vera og er út af fyrir sig kraftaverk hvernig t.d. á síðsta ári hefur þó verið hægt að standa að rekstri spítalans. (Gripið fram í.) Það er því alveg ljóst, virðulegi forseti, að þessi þróun hefur verið að gerast.
    Það hafa áður komið fram hugmyndir um það að breyta rekstri Landakotsspítala. Ég held að það séu um það bil þrjú ár síðan þáv. heilbrrh. lagði til að Landakotsspítali yrði gerður að hjúkrunarstofnun, m.a. til þess að bregðast við því ástandi sem virtist vera viðvarandi að stöðugt væri um að ræða minnkaða möguleika til að greiða þann kostnað sem íslenska heilbrigðiskerfið kostar. Og það er alveg sama hvað menn hrópa hátt, hvað menn mótmæla mikið, hvað menn halda marga fundi og hvað menn hrista mikið höfuðið, ekkert af slíku býr til peninga ef peningar eru ekki til. Og það eru fjármunir sem okkur vantar til þess að greiða þennan rekstur. Við höfum verið í sífellt meiri erfiðleikum með að standa undir þeim kostnaði.
    Því er ekkert óeðlilegt að menn hafi í heilbrrn., ekki bara sá ráðherra sem hér stendur heldur margir forverar hans, viljað skoða möguleikana á því að nýta fjármuni betur með því að auka samstarf spítalanna stóru á Reykjavíkursvæðinu, hugsanlega að sameina þá tvo eða fleiri og horfa jafnframt á hlutverk sjúkrahúsanna í næsta nágrenni við Reykjavík eins og á Selfossi, Akranesi, Hveragerði, Keflavík og víðar og reyna að samræma --- já, það er ekkert broslegt að gera sér það í hugarlund að hæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði taki að verulegu leyti við endurhæfingarsjúklingum frá stofnunum í Reykjavík, enda hefur verið um það samið og þar er nú rekin endurhæfingardeild fyrir 100 sjúklinga sem að verulegu leyti eru komnir frá sjúkrahúsunum stóru í Reykjavík. Og það er ekkert óeðlilegt að menn hugi að þessu. Það hafa menn verið að gera að undanförnu þegar að við blasti að það mundi vanta yfir 1,5 milljarða kr. á fjárlögum ársins 1992 til þess að hægt væri að reka sjúkrahúsin í Reykjavík með eðlilegum afköstum öllsömul í óbreyttum rekstri. Það vantar um 1,5 milljarða kr. til þess að hægt sé að reka sjúkrahúsin þrjú í Reykjavík með eðlilegum rekstri miðað við það að þau séu rekin áfram sem þrjár sjálfstæðar einingar. Þetta eru fjármunir sem eru álíka miklir og það kostar að reka allt utanrrn. með öllum sendiráðum þess erlendis. Þetta eru engir smápeningar, þetta eru ekki peningar sem menn búa til á einni nóttu í einu ráðuneyti. En þetta er það sem það kostar að reka sjúkrahúsin öll með fullum afköstum, þetta er það sem það kostar í viðbót við þá peninga sem menn hafa til ráðstöfunar.
    Það er því ekkert skrýtið þótt heilbrrh. taki sömu ákvörðun og fyrirrennarar hans í starfi að vita hvort hægt sé að nýta þessa fjármuni, þá fjármuni sem til eru til reksturs sjúkrahúsanna betur með samvinnu þeirra, sameiningu einhverra þeirra og aukinni samvinnu sjúkrahúsanna. Ég ræddi við stjórnendur þessara þriggja sjúkrahúsa í Reykjavík um nauðsyn á að gera þetta, m.a. vegna þess að ég þóttist sjá að ef áfram héldi í óbreyttu fari, þá mundi Landakotsspítali halda áfram á þeirri leið sem hann var þegar kominn inn á, að fjara út smátt og smátt og enda sem annexía hjá ríkisspítölunum eftir að samningurinn við systurnar rennur út árið 1996.
    Ég held að margir stjórnendur Landakotsspítala hafi verið mér sammála um þetta álit og þetta hafi m.a. orðið til þess að menn settust í alvöru niður til þess að reyna að búa til nýtt sjúkrahús, Sjúkrahús Reykjavíkur, sem tæki við þeim rekstri sem nú er á tveimur spítölum, Borgarspítala og Landakotsspítala, í því skyni að reyna að varðveita eftir föngum þá þjónustu sem þar er nú á báðum þessum spítölum en þó með eðlilegri tilfærslu á milli stofnana, milli húsa og með betri nýtingu á mannskap. Og ég ítreka að það getur ekki verið neitt heilagt í þessu sambandi hvort einhver tiltekin starfsemi fari alltaf fram innan sömu fjögurra veggjanna eða hvort starfsemin sé flutt til milli bygginga í samræmi við eðlilegar þarfir og kröfur. Það getur ekki verið markmið að eitthvað sem hefur verið gert innan tiltekinna fjögurra veggja skuli ávallt gerast innan þeirra sömu fjögurra veggja. Meginatriðið hlýtur að vera að varðveita kjarnann í þeirri þjónustu sem fram fór. Meðal annars þess vegna settust menn í alvöru yfir það, stjórnendur Borgarspítala og stjórnendur Landakotsspítala, að kanna hvort þeir gætu náð samkomulagi um faglegar forsendur að uppbyggingu á nýjum spítala í Reykjavík sem tæki að sér þau viðfangsefni sem þessir tveir spítalar höfðu haft. Og þeir luku athugunum sínum og skiluðu mér tillögum þar um í byrjun desembermánaðar.
    Næsta verk var að sjálfsögðu það að eigendur þessara sjúkrastofnana og þeir sem bera ábyrgð á rekstri þeirra, þ.e. ríkisvaldið, Reykjavíkurborg og forráðamenn sjálfseignarstofnunarinnar St. Jósefsspítala sem hafa rekstur þeirrar stofnunar með höndum þar til árið 1996, settust niður til þess að leita eftir því hvort þeir gætu náð samkomulagi um að standa að rekstri og byggingu slíkrar stofnunar og takast á herðar þær fjárhagslegu skuldbindingar sem því mundi fylgja. Því miður gat það ekki orðið eins og til stóð strax í desember í kjölfar af þeirri niðurstöðu sem ég fékk um faglegar forsendur fyrir nýjum spítala en það er hins vegar að gerast nú.

    Hv. þm. spurði hvort ég ætlaði að beita mér fyrir sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala og hvort hún mundi hefjast þegar á þessu ári. Í morgun skipaði ég viðræðunefnd af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að ræða við forráðamenn Borgarspítala og Reykjavíkurborg annars vegar og stjórnendur St. Jósefsspítala og forráðamenn sjálfseignarstofnunarinnar hins vegar um hvort samkomulag tækist á milli þessara þriggja aðila um stofnun nýs sjúkrahúss í Reykjavík og þær fjárskuldbindingar sem því munu fylgja. Formaður þessarar nefndar og fulltrúi minn og fjmrh. sameiginlega hefur verið skipaður. Fulltrúi minn í þessum viðræðum sérstaklega er Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri og fulltrúi fjmrh. hefur einnig verið skipaður, sérstakur fulltrúi hans. Þessir þrír aðilar munu vinna með starfsmönnum úr heilbr.- og trmrn. að því að leita tafarlaust samkomulags við hina tvo aðilana um stofnun nýs sjúkrahúss og þær fjárskuldbindingar sem því fylgja. Ég vonast til þess að það sé hægt að ljúka þeim samningaviðræðum með jákvæðum hætti sem allra fyrst og vonast því til að ný stofnun geti tekið til starfa mjög fljótlega með nýrri bráðabirgðastjórn sem taki við rekstri þessara tveggja stofnana. Hversu langan tíma það tekur síðan að ljúka öllum þeim áformum sem menn kunna að hafa um breytingar og tilfærslur á milli stofnananna eða milli þeirra bygginga sem hér um ræðir veit ég ekki. Það er eitt af því sem menn þurfa að ræða í þessu sambandi en sem allra fyrst þarf að koma ný sameiginleg stjórn yfir þessar stofnanir, m.a. til þess að eyða óvissu í sambandi við rekstur þeirra og ég mun beita mér fyrir því að það gerist eins hratt og við verður komið.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. hvaða skoðun ráðherra hefði á rekstarformi Sjúkrahúss Reykjavíkur ef af sameiningu verður. Þessir þrír spítalar sem starfræktir hafa verið hér í borginni hafa verið reknir með þremur mismunandi rekstrarformum. Landspítalinn er ríkisspítali sem ríkið á og rekur. Borgarspítalinn hefur lengi verið í eigu Reykjavíkurborgar jafnvel þó svo að ríkið greiði rekstur hans eins og annarra stofnana og Landakotsspítali er í rekstri sjálfseignarstofnunar. Hún ber ábyrgð á rekstri hans þó að ríkið greiði rekstrarkostnaðinn með fjárframlögum. Út af fyrir sig hef ég enga fyrir fram afstöðu í því, hvorki með eða á móti, hvaða rekstrarfyrirkomulag sé réttast. Ég er reiðubúinn til að skoða þær hugmyndir sem menn hafa á því og ég held að enginn þessara þriggja aðila leggi upp í viðræðurnar með einhverja fyrir fram gefna hugmynd í þeim efnum.
    Þá er spurt hvort ráðherra hafi tekið upp samningaviðræður við St. Jósefssystur um breyttan rekstur Landakotsspítala eins og honum beri skýlaus skylda til hvort sem til niðurskurðar eða sameiningar kemur, eins og hv. þm. segir. Til niðurskurðar hefur komið á fjárveitingum til Landakotsspítala mörg undanfarin ár. Enginn ráðherra hefur talið sér skylt að ræða við St. Jósefssystur um þau efni, enda getur ekkert samkomulag tekið fram fyrir hendurnar á Alþingi hverju sinni þegar það afgreiðir fjárlög eins og menn vita mæta vel af margfaldri reynslu hér í þinginu. Ég lít hins vegar svo á að ef systurnar á Landakoti leggjast alfarið gegn því að Landakotsspítali sameinist rekstrarlega annarri stofnun, þá sé mjög erfitt að ganga gegn því. Þegar það lá fyrir af hálfu systranna í bréfi til mín í desember að þær legðust alfarið gegn öllum slíkum áformum og væru ekki einu sinni til viðræðu um það, þá taldi ég að ég gæti ekki haldið málinu lengur fram. Ég vil hins vegar leiðrétta það að systurnar hafi ekkert fengið að vita um þessi mál vegna þess að þegar það var fullyrt, þá bað ég ráðuneytisstjóra minn og skrifstofustjóra að ganga til fundar við systurnar og bjóða þeim allar upplýsingar sem þær óskuðu eftir, (Gripið fram í.) en þá sögðust systurnar hafa allar upplýsingar um málið með höndum og hafa fengið þær allar frá stjórnendum Landakotsspítala, þar á meðal þeim ágæta manni sem hefur lengi verið lögfræðilegur fulltrúi systranna hér á Íslandi, framkvæmdastjóra Landakotsspítala, þannig að þær töldu sig engar upplýsingar skorta þegar ráðuneytisstjórinn og skrifstofustjóri í ráðuneytinu gengu á þeirra fund.
    Þá er spurt hvaða upphæð ég ætli að verja til sjúkrahúsanna í Reykjavík af þeim 500 millj. kr. sem til ráðstöfunar eru vegna rekstrarsparnaðar. Um er að ræða þrjár fjárhæðir:
    Í fyrsta lagi 199 millj. kr. sem bundnar eru á framkvæmdalið, stofnkostnaðarlið, til sjúkrahúsa í Reykjavík.
    Í öðru lagi um 90 millj. kr. sem til ráðstöfunar eru til að greiða fyrir tilflutningi verkefna milli sjúkrahúsa í Reykjavík, en þó því aðeins að því tilskildu að mér takist að ná um 80 millj. kr. sparnaði í rekstri sjúkrahúsa almennt.
    Í þriðja lagi 499,3 millj. kr. sem eru til ráðstöfunar fyrir allar stofnanir á vegum heilbr.- og trmrn., öll sjúkrahús, allar heilsugæslustofnanir, allar aðrar þjónustustofnanir á vegum ráðuneytisins. Ég hef óskað eftir því við stjórnendur þessara stofnana að þeir gerðu mér grein fyrir því hvað þeir þyrftu að gera til að búa við óbreyttar fjárveitingar. Það hafa þeir gert. Ég hef í dag kynnt fyrir forustumönnum fjárln. tillögur heilbr.- og trmrn. um svör til allra stofnana ráðuneytisins utan Reykjavíkursvæðisins. Ég treysti mér ekki að svo stöddu til að gera tillögur um skiptingu fjármuna til spítalanna þriggja í Reykjavík af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hef ég ekki enn fengið endanlegar tillögur ríkisspítalanna þar sem þeir sýna fram á hvað niðurskurðurinn muni kosta þá í þjónustustigi og hvað þyrfti að gera til þess að verja þjónustu Landspítalans, a.m.k. þá kjarnaþjónustu sem verður að verja í þeim spítala. Og ég treysti mér heldur ekki til þess að gera tillögu um skiptingu á milli Landakotsspítala og Borgarspítala án þess að vita hvort líkur séu á að af samruna í rekstri þessara spítala verði eða ekki þannig að ég er ekki reiðubúinn til að svara þessari spurningu hv. þm. eins og stendur.
    Þá spyr hv. þm. hvort ráðherra sé reiðubúinn að taka pólitíska ábyrgð á þeim uppsögnum starfsfólks sem mikill niðurskurður á framlagi til Landakotsspítala hefur óneitanlega í för með sér. Þessu vil ég

svara svo að ríkisstjórnin er að sjálfsögðu ábyrg og stjórnarflokkarnir fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru við afgreiðslu fjárlaga. Og það er alveg ljóst, menn vita það, að um 70% af kostnaði í heilbrigðisþjónustunni er launakostnaður. Og það er alveg ljóst að ef um mikinn niðurskurð fjármuna er að ræða, þá hlýtur það með einhverjum hætti að koma niður á launakostnaði starfsfólks. Það er um svo fátt annað að fást í heilbrrn.
    Stjórnendur Landakotsspítala hafa tekið þá ákvörðun miðað við skertar fjárveitingar að segja öllu starfsfólki spítalans upp en hafa jafnframt látið þess getið að þeir muni endurráða starfsfólk miðað við þau umsvif sem verða í rekstri spítalans eftir því hvort um verður að ræða sameiningu eða ekki. Ég vonast til þess að umsvif spítalans geti orðið sem mest vegna þess að við þurfum á því að halda. Og ef ég er spurður um mína persónulegu skoðun á því, þá get ég svarað henni mjög einfaldlega svo að ég hef ekki miklar áhyggjur af því að það takist ekki að sjá öllu fagmenntuðu fólki spítalans fyrir störfum, ekki síst hjúkrunarfólkinu, vegna þess að það er mikil etirspurn eftir bæði hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og hefur þurft að loka stofnunum hér á Reykjavíkursvæðinu vegna þess að það hefur ekki verið hægt að manna þær þessu fagfólki sem mikil eftirspurn er eftir. En ég skal alveg viðurkenna það og vera ekkert að draga neina fjöður yfir það því að það er ástæðulaust, að ég hef áhyggjur af ófaglærða fólkinu sem hefur starfað á Landakoti. Ríkisstjórnin hefur sett niður nefnd skipaða aðstoðarmönnum þriggja ráðherra til að skoða vandamál þess fólks og af því hef ég áhyggjur og það er ástæðulaust að þegja yfir því. Mér finnst alveg sjálfsagt að láta það koma fram.
    Þá er spurt um hvort ráðherra ætli að tryggja það að fæðandi konur, sem eru annað en sængurkonur, eigi áfram rétt á aðgangi að Fæðingarheimili Reykjavíkur. Nú standa yfir samningar á milli Landspítalans og Borgarspítalans um það að Landspítalinn taki við rekstri Fæðingarheimilis Reykjavíkur. Þeir sem um þau mál véla sem eru læknar og stjórnendur fæðingardeildar Landspítalans, þar á meðal stjórnendur Landspítalans sjálfs eru engir fúskarar. Þetta eru menn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Þetta eru menn sem eru búnir að veita íslenskum sængurkonum hjálp um mörg undanfarin ár og hafa gert það vel. Það liggur eitt fyrir í þessu máli og það er að rekstur Fæðingarheimilis Reykjavíkur verður ekki lagður niður. Rekstur þeirrar stofnunar verður hluti af rekstri fæðingardeildar Landspítalans. Þeir eru nú að fjalla um það, læknar Landspítalans og læknar Borgarspítala og hafa rætt það við starfsfólk og ég ætla ekki að hafa nein afskipti af því fyrir fram. (Gripið fram í.) Ég ætla að leyfa þessum ágætlega hæfu mönnum að meta það sjálfir að öðru leyti en því að það er alveg ljóst að Fæðingarheimili Reykjavíkur verður starfrækt áfram.
    Virðulegi forseti. Ég hef reynt að svara þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Ég á vonandi nokkurn tíma eftir þannig að ég geti þá svarað þeim fyrirspurnum öðrum sem til mín kann að verða beint og verður sjálfsagt beint og ætla því að láta máli mínu lokið eins og stendur.