Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 15:13:00 (3360)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þeir sem hafa fylgst með umræðum um heilbrigðismál og þjóðmál á Íslandi á undanförnum 10--20 árum kannast vel við það að eitt af meginblöðum landsins, Morgunblaðið, hefur gjarnan skrifað langar og ítarlegar lofgjörðir um Landakotsspítala og þá brautryðjendur sem settu Landakotsspítala af stað. Það eru ekki nema örfá ár síðan einn af ritstjórum Morgunblaðsins var jafnframt starfi sínu þar, lögfræðilegur ráðunautur nunnanna sem stofnuðu Landakotsspítalann og ráku hann um áratuga skeið. Þessi lögfræðilegi ráðunautur Landakotsspítala er eini þingmaður Sjálfstfl. sem hefur látið í sér heyra um þetta mál á opinberum vettvangi til þessa, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Það segir kannski dálítið um málið að eini þingmaður Sjálfstfl. sem til þessa hefur tjáð sig um þetta mál og sem þekkir það, skuli taka þá afstöðu sem hann hefur tekið í þessum málum. Það er athyglisvert og til umhugsunar að einmitt Sjálfstfl. og ríkisstjórn hans skuli ákveða að ganga milli bols og höfuðs á þeirri starfsemi sem þróast hefur á Landakoti um 90 ára skeið. Það er athyglisvert og umhugsunarvert. Bæði fyrir Reykvíkinga og reyndar aðra landsmenn líka. Þetta gerir Sjálfstfl. í skjóli þess heilbrrh. sem fyrstur allra manna í því embætti heldur því fram að heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé dýrasta heilbrigðisþjónusta í heiminum fyrir utan Bandaríkin. Staðreyndin er auðvitað sú að kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur verið að aukast. En af hverju? Vegna þess að öldruðum hefur verið að fjölga sem hlutfalli af þjóðinni á undanförnum árum og aukinn kostnaður við heilbrigðisþjónustu stafar fyrst og fremst af því að menn hafa verið að sjá sóma sinn í því að taka í notkun heimili fyrir aldraða, bæði hjúkrunarheimili, öldrunarlækningadeildir og aðrar hliðstæðar stofnanir á undanförnum árum. Það er beinlínis rangt sem kemur fram í þeim árásum sem starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi situr nú undir frá hæstv. heilbrrh. í fyrsta sinn í sögunni, að hér sé um að ræða ósæmilega dýra heilbrigðisþjónustu. Það er ekki svo. Fólk vinnur að jafnaði mikið á þessum stöðum og ég skora á hæstv. heilbrrh. að mæta á þessar stofnanir á mestu annatímum þeirra, hvort sem það er t.d. Landakotsspítali, Borgarspítali eða Landsspítali.
    Við þingmenn Alþb. höfum verið að heimsækja heilbrigðisstofnanir að undanförnu. Í morgun heimsóttum við þrír þingmenn flokksins Landakotsspítala, fórum þar yfir mál með starfsmannaráði og forustumönnum stofnunarinnar. Það var einkar fróðlegt að heyra þetta fólk lýsa því hvernig komið hefur verið fram við það á undanförnum vikum og mánuðum. Ég skildi vel eftir þá yfirferð hvað Morgunblaðið, sem ég tek ella ekki mikið mark á, á við með orðunum, með leyfi forseta: ,,Naut í flagi.`` Þá áttaði ég mig gjörsamlega á því hvað hér var á ferðinni. Það voru mörg önnur orð alvarlegri sem þetta fólk notaði um aðförina að því sem einstaklingum, starfsheiðri þessa fólks og vinnu á undanförnum árum.
    Hvað á að gera? Hvað er það sem þarna er í rauninni á ferðinni? Það sem er á ferðinni er að það á að breyta Landakotsspítala í öldrunarspítala. Það á að breyta Landakotsspítala í hjúkrunarheimili fyrir aldraða á einhverjum tíma, jafnvel þótt það liggi fyrir að það er dýrt. Jafnvel þótt það liggi fyrir að það kostar 1.000 millj. kr. Það liggur fyrir að kostnaðurinn við þessar breytingar er 1.000 millj. kr.
    Hæstv. heilbrrh. var að býsnast yfir því áðan að verið sé að byggja dýr hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Mig minnir að hann hafi nefnt tiltekinn kostnað á rými. Hver er kostnaðurinn á rými samkvæmt þeim ákvörðunum og þeirri stefnu sem heilbrrh. er að taka? Jú, fjölgun á rými fyrir aldraða í Reykjavík með þessum ákvörðunum er um 34 rúm og fyrir það ætla þeir að borga 1.000 millj. kr. Þetta er hin fjármálalega viska sem ríkisstjórnin er að ákveða að vinna eftir í þessu efni. Það er furðulegt að hæstv. fjmrh. sem nauðaþekkir ýmsar þessar stofnanir eins og ríkisspítalana skuli ekki fyrir löngu hafa tekið í taumana vegna þess að burt séð frá hinni faglegu hlið þessa máls er hér um að ræða ráðstöfun á fjármunum sem er vitlaus og sem er dýr og sparar ekkert, hvorki í nútíð eða framtíð.
    Hvað á að gera á Landakotsspítala fyrir utan það að breyta honum í öldrunarspítala? Það er ekki nóg með að breyta þurfi þarna öllum vistarverum verulega og byggja upp nýjar á Borgarspítalanum fyrir

fleiri hundruð milljónir. Það á að rífa niður hátæknibúnað sem komið hefur verið fyrir á Landakoti á undanförnum árum fyrir stórkostlega fjármuni. Bæði frá ríkinu og eins gjafafé sem hefur borist frá fjölmörgum aðilum á undanförnum árum. Þennan hátæknibúnað á að rífa niður til þess að koma þar fyrir hjúkrunardeildum, langlegudeildum. Það á að rífa niður samkvæmt yfirliti sem liggur fyrir t.d. gjörgæsludeild Landakotsspítalans á 5. hæð og koma þar fyrir hjúkrunardeild með 11 rúmum. Gjörgæsludeildir eru, eins og allir vita, einhverjar dýrustu spítaladeildir sem til eru. Þetta á að rífa niður og koma þar fyrir 11 hjúkrunarrúmum. Það á að rífa niður á 4. hæð skurðstofur, prýðilegar skurðstofur, og koma þar fyrir hjúkrunardeild með 15 rúmum. Það á að rífa niður handlækningadeild á 3. hæð, móttökudeild og dagdeild og koma þar fyrir hjúkrunardeild með 15 rúmum. Það á að rífa niður handlækningadeild á 2. hæð og koma þar fyrir hjúkrunardeild með 15 rúmum. Það á að úthýsa augnlækningadeild á 1. hæð og koma þar fyrir hjúkrunardeild og það á að víkja úr kjallara hússins speglunardeild, sem er ein sú besta sem gerist hér á landi, og koma henni fyrir einhvers staðar annars staðar.
    Ég segi virðulegi forseti: Þetta er örugglega ekki sparnaður. Í fyrsta lagi ekki út frá þeim peningum sem þarf að leggja í Borgarspítalann til að breyta honum og í öðru lagi enn síður út frá þeirri sóun á almannafé sem á sér stað þegar loftpressurnar verða sendar á hátæknideildir Landakotsspítalans til að eyðileggja þær. Nú skulum við ímynda okkur, virðulegi forseti, að það yrði þannig að menn væru með þessu svo að spara til langframa, sameina þjónustu og stokka upp faglega í heilbrigðiskerfinu í Reykjavík. En það er nú eitthvað annað. Samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir frá nefndinni sem hæstv. heilbrrh. nefndi hér áðan, þá er gert ráð fyrir því að starfsemi sjúkrahúss Reykjavíkur, sem svo er kallað, verði í raun og veru á flestöllum sviðum sú sama og er þegar til á Landspítalanum. Hér er með öðrum orðum ekki um faglega endurskipulagningu að ræða. Gert er ráð fyrir því að í sjúkrahúsi Reykjavíkur verði hjartalækningar. Það er líka á Landspítalanum. Það er gert ráð fyrir því að þar verði lungnalækningar, meltingarlækningar, innkirtlalækningar, gigtarlækningar, smitsjúkdómalækningar, krabbameinslækningar, taugalækningar og öldrunarlækningar. Það er hvergi minnst á þann möguleika að hér verði um að ræða faglega samvinnu t.d. við ríkisspítalana. Það eina sem ríkisspítalarnir heyra um þessi mál er að þeim sé bannað að ræða við Borgarspítalann og svo árásir hæstv. heilbrrh. á ríkisspítalana sem ég kýs reyndar að ræða á öðrum vettvangi.
    Með öðrum orðum: Það er ekki verið að spara, það næst ekki sparnaður með þessum hætti. Verið er að eyða fjármunum umfram þarfir og eyðileggja verðmæti sem þegar hefur verið ákveðið að verja í þessa stofnun. Frammi fyrir þessu stendur fólkið sem þarna vinnur og ákveðið hefur verið að segja upp störfum. Á sjöunda hundrað einstaklingum hefur verið sagt upp störfum og það er auðvitað bersýnilegt að hér er um að ræða mjög óvenjulegar aðfarir. Þetta er ekki spurning um að vilja, eins og hv. 13. þm. Reykv. orðaði það áðan, forustumenn Landakots vilja. Hvað vill fólk sem er stillt upp við vegg, svo ég noti orð Morgunblaðsins? Það vill reyna að komast einhvern veginn af. Þetta er ekki spurning um frjálsan vilja. Fólkið er rekið, fólkinu er sagt upp og þá kemur kórónan á sköpunarverkinu þegar ríkisstjórnin samþykkir að fela hæstv. félmrh. að reyna að finna vinnu fyrir þetta fólk á heilbrigðisstofnunum í opinbera geiranum, eins og það var orðað. En það vill svo til að í opinbera geiranum hefur hæstv. fjmrh. bannað að ráða nýtt fólk í stað þess sem hættir. Það er stranglega bannað á Borgarspítalanum og á Landspítalanum að taka við fólki í stað þeirra sem hætta.
    Ég tel að þessi samþykkt ríkisstjórnarinnar, þessi kattarþvottur félmrh. sé í raun og veru ekkert annað en tilraun til að bíta höfuðið af skömminni og komi auðvitað einungis upp um slæma samvisku ráðherranna sjálfra sem er út af fyrir sig gott, ef þeir hafa slæma samvisku.
    Hér hefur verið rætt um þessi mál mjög ítarlega og ég ætla ekki neinu að bæta við það öðru en því að ég óska eftir sem fulltrúi Alþb. í heilbr.- og trn. Alþingis að tillögurnar um skiptinguna á þeim fjármunum sem heilbrrh. hefur til að milda sárasta sviðann komi fyrir heilbr.- og trn. Ég óska eftir því að fá þær tillögur. ( Gripið fram í: Fjárln. hefur ekki fengið þær.) Fjárln. hefur heldur ekki fengið þær en ég geri kröfu til þess sem heilbrigðisnefndarmaður að fá þessar tillögur. Auðvitað sýnir þetta ástandið í hnotskurn, að það skuli vera þannig að einn ráðherra er með 700--800 millj. kr. til að ráðstafa. Hann einn getur samkvæmt ákvörðun fjárlaga ráðstafað 700--800 millj. kr. Þetta eru auðvitað alveg yfirgengileg vinnubrögð. En frammi fyrir þeim stöndum við og mér er ekki grunlaust um að sameiningarviljinn stafi m.a. af því að menn telji að með honum geti þeir náð í stærri hluta af þessum peningum en ella. Hér er verið að veifa gulrót framan í fólk og ég tel þetta óheiðarleg og ósmekkleg vinnubrögð.
    Um hinn nýja spítala ætla ég ekki að segja neitt núna nema þetta, virðulegi forseti: Hv. 13. þm. Reykv. upplýsti hér áðan að það stæði til að á hinum nýja spítala yrði komið á svipuðu verktakakerfi og verið hefur á Landakotsspítala að því er varðar lækna. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að fá það upplýst hvort það kerfi á að gilda á hinum nýja spítala eða ekki. Það er mjög mikilvægt vegna þess að fjöldi fólks stendur í þeirri trú að þetta verktakakerfi eigi að gilda á hinum nýja spítala. Það er mjög mikilvægt að fá upplýsingar um það.
    Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, að ég mun óska eftir því að hér fari fram umræður um skiptingu á peningum til spítalanna þegar hún liggur fyrir þannig að Alþingi sjái nákvæmlega hvað er verið að skera niður. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að það verði tryggt.