Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 15:44:00 (3364)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Síðustu missiri og ár hefur heldur sigið á ógæfuhliðina í efnahagsmálum hér á landi. Á sama tíma og árlegur hagvöxtur í OECD-ríkjunum hefur verið í kringum 3% hefur ríkt stöðnun og samdráttur á Íslandi. Því miður er ekkert sem bendir til annars en að framhald verði á þessari óheillaþróun á þessu ári þar sem fyrirliggjandi spár alþjóðastofnana gera ráð fyrir rúmlega 2% hagvexti í OECD-ríkjunum meðan spáð er allt að 4% samdrætti hér á landi. Meginástæðan fyrir þessum samdrætti er eins og allir vita að fiskafli minnkar frá því í fyrra, þjóðartekjur dragast enn meira saman vegna óhagstæðrar þróunar fiskverðs á erlendum mörkuðum. Þetta ástand hefur þegar skapað mikla erfiðleika í okkar helstu atvinnugrein, sjávarútvegi, og í kjölfarið fylgir samdráttur í öðrum atvinnugreinum vegna minnkandi eftirspurnar. Þetta ástand hefur síðan óhjákvæmilega leitt til atvinnuleysis og samkvæmt nýjustu upplýsingum voru um 4.000 manns á atvinnuleysisskrá í janúarmánuði sem er það mesta sem mælst hefur síðustu 20 árin. Til viðbótar við þennan vanda tók núv. ríkisstjórn síðan við þrotabúi síðustu ríkisstjórnar í ríkisfjármálum sem m.a. birtist í því að útgjöld ríkissjóðs á árinu 1991 jukust um heila 9 milljarða kr. að raungildi og hefðu aukist um 10--11 milljarða ef núv. ríkisstjórn hefði ekki spyrnt við fótum.
    Niðurstaðan varð sú að hallinn á ríkissjóði á síðasta ári varð meiri en nokkru sinni fyrr eða 12,5 milljarðar króna. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við hvort sem okkur líkar betur eða verr. Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar hefur verið að draga úr hallanum til að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum og draga úr lánsfjárþörf hins opinbera. Þannig vill ríkisstjórnin freista þess að ná fram stöðugleika í verðlagi og lækka vexti. Árangurinn er nú sjáanlegur þar sem verðbólgan í dag er einungis 2--3% og vextir fara lækkandi. Samdrátturinn í ríkisfjármálunum er erfiður og hlýtur að koma við allan almenning. Samdrátturinn er líklega 330 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu þegar tekið er tillit til lækkunar á vergri landsframleiðslu á milli ára. Þess vegna skiptir mestu máli að deila byrðunum þannig að þær lendi fyrst og fremst á þeim efnameiri. Þetta gerist m.a. með því að draga úr opinberum framlögum til hinna efnameiri og með því að láta aðra en þá sem minnstar tekjur hafa taka þátt í kostnaðinum við opinbera þjónustu. Þjónustugjöldin leika hér stórt hlutverk. Það er sú leið sem farin hefur verið á Norðurlöndum þegar þær þjóðir sem þar búa hafa lent í erfiðleikum í ríkisfjármálum á aðhaldstímum. Tilgangurinn er auðvitað að afla nýs fjár til þess að standa straum af þjónustunni þannig að allir geti notið hennar og ekki þurfi að draga úr henni að neinu ráði.
    Skoðum nú þróunina á undanförnum árum í heilbrigðismálum. Þá sést að aðeins er verið að stíga á bremsurnar en ekki að setja í afturábakgír. Útgjöld ríkisins til heilbrigðismála hafa aukist að raungildi um 50% frá árinu 1984 og sem hlutfall af heildarútgjöldum úr 35% í rúmlega 40% á sama tíma. Þetta gildir að sjálfsögðu um heilbrigðismálin í heild en það er rétt sem kom fram hjá hæstv. heilbrrh. að heldur minna hefur gengið til sjúkrahúsanna í Reykjavík á undanförnum árum, a.m.k. minna en þurft hefði.
    Þannig fara jafnmiklar fjárhæðir þegar á þetta er litið til heilbrigðismála í ár eins og á árinu 1990 ef fjárlögum verður fylgt. Sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eða landsframleiðslu er hlutfallið heldur meira á yfirstandandi ári.
    Sá sem hér stendur var fjögur ár formaður stjórnarnefndar ríkisspítala, eins og minnt hefur verið á í umræðunum, og ég get rifjað það upp að á þeim tíma sem ég átti þar sæti var deildum á þeirri stofnun lokað fyrst og fremst á sumrum, en á síðari árum var sumum lokað allt árið. Þetta vita auðvitað fyrrv. ráðherrar sem hafa farið með heilbrigðismál og sitja hér inni og hafa tekið þátt í umræðunum.
    Á sumum sviðum félagslegu þjónustunnar er þó um útgjaldaaukningu að ræða eins og t.d. hjá fötluðum en þegar búið er að taka tillit til niðurskurðarins og flata niðurskurðarins og alls þess sem ríkisstjórnin hefur þurft að láta yfir málaflokkana ganga mun reksturinn hækka í raun um 5,4% og Framkvæmdasjóður fatlaðra hækkar um 13,3%. Samt er öðru haldið blákalt fram í umræðunni.
    Því er einnig stundum haldið fram að ríkisstjórnin gangi allt of langt í niðurskurði og sparnaði.

Niðurskurðurinn er þó ekki meiri en svo að við höldum áfram að auka erlendar lántökur sem að nokkru marki fara í að standa undir velferðarþjóðfélaginu. Gera má ráð fyrir að á þessu ári verði viðskiptahallinn um 15 milljarðar. Þetta svarar til þess að erlendar skuldir fjögurra manna fjölskyldu aukist um 230 þús. kr. á þessu ári. Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir niðurskurðinn verða ríkisútgjöld á þessu ári meiri en þau voru fyrir tveimur árum. Með öðrum orðum, þrátt fyrir mikinn sparnað á mörgum sviðum á þessu ári nær ríkisstjórnin ekki að vinda ofan af útgjaldaþenslu sl. ára. Þetta eru staðreyndir málsins.
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur lýst stefnu ríkisstjórnarinnar í sameiningarmálunum sem hér er til umræðu í dag. Þá hefur 13. þm. Reykv., Lára Margrét Ragnarsdóttir, greint frá ýmsum sjónarmiðum frá faglegu sjónarmiði er varða þessi mál.
    Það var minnst á það hér áðan og spurt að því hvernig staðið yrði að skiptingu þess fjár sem til ráðstöfunar er samkvæmt lið 6.22 í 6. gr. fjárlaga. Í þeirri grein segir að það sé fjmrh., sem reyndar segir í öllum þeim greinum, sem skuli í samráði við einstaka ráðherra og fjárln. ráðstafa þessu fé. Það verður að sjálfsögðu gert enda mun málið verða undirbúið og það er gert ráð fyrir því að eftir miðjan þennan mánuð, líklega um eða upp úr 20. febr., verði hægt að leggja tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir fjárln. Að sjálfsögðu verður staðið við fjárlögin eins og þau liggja fyrir.
    Hv. þm. Svavar Gestsson minntist á það að verið væri að rífa og ætti að rífa allt út af Landakoti, lýsti því nánast þannig að fara ætti með bor, jafnvel jarðýtu þar yfir alla hluti, ryðja öllum veggjum og eyðileggja þetta hátæknisjúkrahús. Ég held, hv. þm. og virðulegi forseti, að það sé óþarfi að draga upp svo dökka mynd þótt það hjálpi kannski til í hita bardagans þegar við erum að ræða jafnmikilvægt og viðkvæmt málefni og hér er á ferðinni.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson minntist síðan á sameiningu sjúkrahúsanna með öðru sniði þar á meðal Ernst og Young skýrsluna. Það eru auðvitað til ýmsir möguleikar á því hvernig sameina skuli eða samræma rekstur sjúkrahúsanna í Reykjavík en allar eiga þær eitt sammerkt og það er að hagræða og draga úr kostnaðinum. ( Gripið fram í: Ekki þessi leið.) Þessi leið er auðvitað valin með tilliti til þess --- það getur enginn mótmælt því þótt menn geti haft skoðanir á því hvaða leið sé heppilegust til að ná niður kostnaðinum, fækka starfsfólki og finna leið sem kemur sjúklingum best. En við skulum viðurkenna það öll sem erum hér inni og tökum þátt í þessari umræðu að allt sem við höfum reynt að gera, þótt árangurinn hafi ekki verið mikill hjá síðustu ríkisstjórn, var einmitt að ná niður kostnaðinum, spara, og það gat aldrei verið gert nema með því að ná niður mannahaldi. Þess vegna skulum við ekki leika okkur með tvískinnung eins og mér sýnist sumir hafa gert, því miður, í þessari umræðu. ( SvG: Ertu að tala um heilbrrh.?) Ég er að tala um ýmsa heilbrigðisráðherra, líka þá sem fyrr hafa setið. ( SvG: Já, líka?) A.m.k. þá. Þetta var nú sagt vegna frammíkallanda sem eitt sinn var heilbrrh. en lék sér hér í ræðustólnum áðan eins og ég veit að allir áhorfendur og áheyrendur tóku eftir.
    Virðulegi forseti. Þegar slær í bakseglin í efnahags- og atvinnulífinu er nauðsynlegt að leita allra ráða til að spara og lækka kostnað. Með hagræðingu má ná fram sparnaði án þess að hann bitni á þjónustunni. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu kappkosta að samdrátturinn bitni sem allra minnst á sjúku fólki og þeim sem lökust hafa kjörin. Þess vegna hefur ekki verið farið hraðar í niðurskurðinn þrátt fyrir að staðan í efnahagsmálunum hafi gefið fullt tilefni til. Langmikilvægasta markmiðið er þó að tryggja stöðugleikann í efnahags- og atvinnulífinu, draga úr lánsfjárþörf hins opinbera, lækka þannig vexti til að hjól atvinnulífsins geti farið að snúast að nýju að fullum krafti og skilað okkur nýjum hagvexti og betri lífskjörum. Erlend skuldasöfnun og óðaverðbólga kemur þyngst niður á þeim sem verst eru settir. Þetta hefur reynslan kennt okkur.
    Ég tel fulla ástæðu til að vara við hræðsluáróðri sem er eingöngu til þess fallinn að sá tortryggni og gefa í skyn að ástandið sé verra en það raunverulega er. Öll hljótum við, hvar í flokki sem við stöndum, að kappkosta að röskun á nauðsynlegum breytingum verði eins lítil og kostur er.