Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:02:00 (3368)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur verið bent á þá flutti fjmrh. gamalkunna ræðu, raunar er þetta alltaf sama ræðan. Þetta er ræðan um óheillaspána, um óheillaþróunina, um fiskaflann sem dregst saman, um þjóðartekjurnar sem minnka, um sparnaðinn sem þarf að ná, ( Fjmrh.: Er eitthvað rangt í ræðunni?) um byrðarnar sem allir þurfa að bera. Og þar komum við einmitt að dálítið athyglisverðum punkti vegna þess að ráðherrann sleppir alltaf úr ræðu sinni því að það eru ekkert allir sem þurfa að bera þessar byrðar sem um er að ræða. Hraust, miðaldra fólk sem búið er að koma börnum af sér ber engar byrðar. Fólk eins og ráðherrann og ráðherrarnir. Það ber engar byrðar samkvæmt þessum tillögum.
    Það var reyndar athyglisvert að ráðherrann talaði um sparnað og við getum verið sammála um að það þarf að spara, en hvernig á að spara, með hvaða aðferðum á að spara og hvar á að spara? Um það er tekist. Það hefur verið reynt að benda á það í þessum ræðustól, æ ofan í æ í dag, að þetta er spurningin um að spara í lengd en ekki bara í bráð. Það er sýndarsparnaður sem hér er lagður til.
    Annað var athyglisvert í máli fjmrh., það var að hann gaf ekkert fyrirheit til sameiningarmanna um framtíðina. Hann gaf ekkert fyrirheit um það hvort einhverjir fjármunir fengjust í þágu uppbyggingar, í þágu sameiningar. Hann vísaði á fjárlögin, fjárlög næstu ára, og þar er ekki á vísan að róa.
    En ég ætla ekki að eyða orðum mínum í hæstv. fjmrh., mig langar meira til að eiga orðastað við hæstv. heilbrrh. Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir mikilli óánægju og í raun vanþóknun með svör sem ráðherra gaf hérna. Ég heyrði ekki betur en ráðherrann virtist ætla að gera sjálfan sig að ómerkingi. Það er eitt nauðsynlegt í stjórnmálum og aðeins eitt: Það er að orð standi. A.m.k. í tvo mánuði, hæstv. ráðherra. Ráðherrann talaði orð í desember og hann virðist ekki tilbúinn til að staðfesta þau nú í febrúar. Ef ráðherrann sýnir ekki tryggð við eigin orð, ef hann sýnir ekki tryggð við loforð sem hann gefur hér af fúsum og frjálsum vilja þá er honum ekki treystandi yfir þveran þröskuld. Og þá er engu að treysta sem hér

hefur verið sagt af ráðherra. Var ráðherrann að blekkja í desember eða getur hann ekki og þorir hann ekki að standa við þau orð sem hann sagði þá? Ég ætla að skora á ráðherrann að standa nú með sjálfum sér og standa með því sem hann sagði. Hann á ekki svo ríkan stuðning úti í samfélaginu að það veitir ekki af því að hann a.m.k. standi með sjálfum sér.
    Mér fannst líka vera ákveðið siðleysi í svörum ráðherrans. Hann talaði um að hann væri búinn að skipa viðræðunefnd til að ræða við Borgarspítalamenn og forráðamenn sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala, Landakoti. Þar vísaði hann til þess hver væri formaður, hverjir ættu að vera í nefndinni og það ætti að leita tafarlausra samninga og hann vonaðist til að ný stjórn gæti tekið við bráðlega. En hverjum sleppti hann? Hverja minntist hann ekki á? Hann minntist ekki á St. Jósefssystur, það kom ekki fyrir að hann teldi að það þyrfti að bjóða þeim t.d. aðild að viðræðunum, að það þyrfti að leita samninga við þær, að það þyrfti að eiga einhvern orðastað við þær. Nei. Það var ekki orð um það hjá ráðherranum.
    Hann sagði hér sem svar við minni þriðju spurningu, um það hvort hann hefði leitað viðræðna við St. Jósefssystur: Til niðurskurðar hefur komið oft áður á framlögum til spítalans og enginn ráðherra hefur rætt við systurnar. Þetta kann að vera rétt en hvaða afsökun er í því fólgin? Það er nýtt í þessum niðurskurði, hann er nú 40%, og breytir eðli spítalans algjörlega.
    Ráðherrann sagði líka --- og þar kem ég að siðleysinu: Engir samningar geta tekið af þær ákvarðanir sem teknar eru á Alþingi. Hverjir staðfestu samninginn? Hver gerði samninginn? Hver lét staðfesta skipulagsskrána um sjálfseignarstofnunina? Lét forseta Íslands, æðsta vald í okkar málum, staðfesta skipulagsskrána? Það var dómsmrh., reyndar í samráði við heilbr.- og trmrh. á sínum tíma. Geta menn svo bara sagt, þessir samningar skulu ekkert standa, við getum gert það sem okkur sýnist? Það er orði ansi erfitt að semja við ríkið. Hver vill semja við ríkið? Hver vill eiga eitthvað inni hjá ríkinu? Svo mikið er víst að ekki vilja launþegar það og ég get ekki ímyndað mér að nokkur stofnun, sjálfseignarstofnun, hlutafélag, eða hvað við kjósum að kalla eitthvert félag sem verður til, vilji eiga samninga við ríkið sem þannig eru haldnir.
    Ráðherrann sagði líka að hann hefði vissulega ákveðnar áhyggjur af niðurskurði, hann hlyti að koma niður á starfsfólki og sérstaklega því starfsfólki sem ófaglært væri. En hann sagði: Ég hef samt ekki áhyggjur af fagfólkinu, það vantar alls staðar fólk. Það þarf að ráða fólk á sjúkrahúsin. En þessi ráðherra, ásamt öðrum, hefur bannað að ráðið verði í stöður á sjúkrahúsunum og hvernig á þá að leysa þetta mál? Það er ekki hægt að vísa fólki á stöður sem ekki má ráða í.
    En alvarlegast fannst mér sem sagt það sem kom fram í máli ráðherrans varðandi Fæðingarheimili Reykjavíkur. Sem svar við spurningu minni um það hvort hann vildi tryggja Fæðingarheimilið áfram sem fæðingarstofnun og sem valkost fyrir fæðandi konur í Reykjavík sagði hann: Ég ætla ekki að skipta mér af þessu máli. Læknar og stjórn Landspítalans eru engir fúskarar, sagði hann. Hver hefur haldið því fram að þeir væru fúskarar? Þetta eru ágætir fagmenn, góðir fagmenn sem vinna sitt starf vel, eru með mjög góða fæðingardeild, en þeir eru ekki handhafar sannleikans. Þeir eru ekki handhafar hinnar einu réttu leiðar í þessum málum frekar en aðrir. Það er það sem málið snýst um, það að til sé einhver valkostur, það sé til valkostur fyrir fæðandi konur alveg eins og hér hefur verið lögð áhersla á af hv. 13. þm. Reykv. að það eigi að vera til valkostur í heilbrigðisþjónustunni. Því þá ekki fyrir fæðandi konur? Hvers vegna í ósköpunum ekki? Og hvernig geta menn, ef þeir reikna rétt, sagt að það sé ódýrara að fæða á hátæknispítala heldur en heimilislegri fæðingarstofnun? Ég tek það fram að ég vil þá að menn reikni rétt.
    Ég ætla bara, áður en ég fer hér úr pontu, eins og ég segi, að skora á ráðherra að gefa nú betri svör en hann hefur gert. Hann svaraði t.d. engu um það hvaða tímamörk væru sett á sameininguna og ég ætla að skora á hann, eins og ég gerði hér áðan, að standa með sjálfum sér og standa við þau orð og loforð sem hann gaf hér í desember. Annars er hann ómerkingur.