Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:10:00 (3369)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég held að ræða hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem talaði hér, sé gott dæmi um hvaða málflutning sumir stjórnarandstæðingar kjósa að iðka. Svör mín voru siðlaus. Ég er ómerkingur. Ég segi ósatt, er lygari.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til að gera a.m.k. nýjum þingmönnum grein fyrir því hvað er eðlilegur málflutningur og eðlilegt orðaval hér í þinginu. (Gripið fram í.) Já, virðulegi forseti. Ég get alveg eins kennt mönnum það eins og maðurinn sem tók sína pólitísku þekkingu í arf frá þeim heimshluta sem nú er að hrynja. Ég get það alveg eins.
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara málefnalega þeim spurningum sem til mín var beint án þess að nota svona orðaleppa þótt ég sé ekki sammála þeim skoðunum sem koma fram hjá hv. þm. sem hafa spurt mig og atyrt mig að nokkru leyti. En ég vænti þess að þeir hv. þm. lesi sér til í þingsköpum um hvað teljist þinglegt orðaval því auðvitað geta menn verið ósammála hér í þinginu og tekið nokkuð djúpt í árinni. En að tala um að þingmenn eða ráðherrar sýni siðleysi, séu ósannindamenn og annað slíkt, sæmir ekki hv. þm., það sæmir þeim alls ekki.
    Ég vík þá fyrst að því sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. Það stendur ekki til, eins og hann segir, að lama starfsemi Landakots. Það sem stendur til er að reyna að tryggja þá starfsemi sem nú á sér stað á Landakoti og á Borgarspítala með samstarfi og sameiningu þessara stofnana tveggja því að menn, sem stjórna þessum stofnunum og eins starfsmenn í heilbrrn., eru almennt sammála um að það sé leiðin

til að tryggja að sem allra minnst skerðing verði á þjónustu stofnananna. Auðvitað er það út í hött að láta sér um munn fara þau orð að það standi til að ráða útkastara á Borgarspítalann og Landakot til þess að kasta út fárveikum sjúklingum sem ekki fá þar pláss. Og ég spyr enn, virðulegi forseti: Er það á þessum nótum sem umræðan um þessi mál á að fara fram? Að ríkisstjórnin ætli að standa fyrir því að ráða útkastara að spítölum til að kasta bráðveikum sjúklingum á dyr. Er það sæmandi að láta umræðuna fara fram með þessum hætti? ( SvG: Ertu hissa á spurningunni?)
    Virðulegi forseti. Svo að ég víki næst að þessum hv. þm. sem stöðugt stundar hér frammíköll, laus undan oki fortíðar, þá skulum við aðeins líta á þá lýsingu sem hann var með hér, að það sé verið að hneppa fólk í fjötra, að gerð sé aðför að fólkinu, að það sé verið að stilla fólki upp við vegg og gefa því kost á að velja hvort eigi að skera það eða skjóta. (Gripið fram í.) Þetta, virðulegi forseti, er lýsing á tilteknu kerfi. Er það lýsing, virðulegi forseti, á því kerfi sem við þekkjum hér á Íslandi? Nei. Hvar höfum við séð svona kerfi nýlega? Við sáum það t.d. þegar járntjaldið hrundi og við fengum innsýn í heim sem þeir stjórnuðu sem m.a. hv. þm. Svavar Gestsson sagði einu sinni að væru líklegastir til þess að gegna forustuhlutverki meðal smærri þjóða sósíalismans í heiminum. (Gripið fram í.) Þegar það járntjald hrundi, virðulegi forseti, og við sáum inn í það þjóðfélagskerfi sem þannig var byggt upp, m.a. undir forustu    þess þjóðarleiðtoga sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði í grein í Þjóðviljanum fyrir nokkrum árum að væri efnilegasti leiðtogi hinna smærri sósíalísku ríkja í heiminum. Þá sáum við svona kerfi. Hv. þm. spyr, hann man náttúrlega ekki fortíðina. Hv. þm. spyr: Hvar var þetta? Þetta var sami einstaklingurinn ( Forseti: Forseti vill biðja hv. þm. að kalla ekki fram í og leyfa ráðherranum að ljúka máli sínu.) og hv. samþingmaður hans lýsti svo að þar hafi hún séð ein fallegustu augu á sinni ævi. Það var á bak við þessi fallegu augu og bak við þennan væntanlega þjóðarleiðtoga hins sósíalíska heims sem þessi lýsing passaði, þ.e. það kerfi sem hv. þm. var að lýsa, var það kerfi sem þá kom fram í dagsljósið. Og það er ósköp eðlilegt, virðulegi forseti, að hv. þm. vilji ekki ræða mikið um fortíðarvanda og það er ósköp eðlilegt, virðulegi forseti, að honum líði það illa í sæti sínu að hann þurfi að stunda stöðug frammíköll og fer nú sjálfsagt í vöxt að þannig verði hans líðan. En það verður bara svo að vera. Það eina sem menn geta ekki falið í lýðfrjálsu ríki, virðulegi forseti, er pólitísk fortíð. Það geta menn ekki falið í lýðfrjálsu ríki því það sem þeir hafa sagt og skrifað er varðveitt í slíkum ríkjum.
    Hv. þm. sagði einnig að það væri rangt með farið hjá mér að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála á Íslandi væru með því hæsta og jafnvel hæst í heiminum. Það er ekki rétt. Ég hef fengið í hendur frumdrög að skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands þar sem m.a. er gerður samanburður á útgjöldum á Íslandi og í öðrum ríkjum heims, m.a. með tilliti til þeirra atriða sem hv. þm. nefndi og varða aðra aldursskiptingu Íslendinga heldur en flestra annarra þjóða því Íslendingar eru yngri að tiltölu en aðrar þjóðir. Í þessum bráðabirgðatölum kemur fram að ef miðað er við aldursveginn mannfjölda og meðalgengi eru útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi næsthæst allra þjóða. Ef miðað er við aldursvegnar mannfjöldatölur og þær vegnar með gengisvísitölu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur að sé réttari vog til þess að fá réttar og sambærilegar niðurstöður þá er heilbrigðisþjónustan á Íslandi sú dýrasta í heimi og um það bil 200 dollurum dýrari á íbúa en heilbrigðisþjónustan í Bandaríkjunum. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Ég er að vísu ekki jafnrómsterkur og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. En ég var að enda við að segja að þarna væri um bráðabirgðatölur að ræða frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem aðstoðarmaður ráðherra hefur ekkert með að gera. ( ÓÞÞ: Reiknimeistari Háskólans?)
    Virðulegi forseti. Ég verð að halda áfram að svara þótt stjórnarandstæðingar virðist vera orðnir svo órólegir að þeir geta ekki setið kyrrir í sætum sínum. Ég vil einnig víkja að því sem var sagt hér að til stæði einkavæðing á sjúkrahúsum. Það er ekki rétt. Það er rangt að það standi til að búa til slíkt kerfi að efnahagur manna ráði þeirri þjónustu sem þeir fá. Allir eru jafnir fyrir lögunum á Íslandi, það eru allir jafnréttháir í heilbrigðiskerfinu og það stendur ekki til að breyta því. Það er því úr lausu lofti gripið, virðulegi forseti, að það standi til að fólk geti farið að kaupa sig út af biðlistum til aðgerða og það er rangt að það standi til að einkavæða heilbrigðisþjónustuna á Íslandi.