Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:19:00 (3371)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Frú forseti. Ýmsilegt hefur verið sagt við mann um dagana en ég hef aldrei orðið fyrir eins ósvífinni árás og af hálfu hæstv. heilbrrh. hér áðan. Hann sagði í pontu að ég hefði kallað sig lygara. Það gerði ég aldrei. Slík orð tek ég mér ekki í munn nema ég þurfi að endurtaka þau eftir ráðherrum. Það sagði ég aldrei. Ég sagði við ráðherra: Annaðhvort stendur hann við orð sín sem hann sagði í desember, eða hann er ómerkingur, sagði ég, annars er hann ómerkingur ef hann ekki stendur við sín orð. Og ég las upp orð ráðherra. Nú ætla ég bara að spyrja þingheim allan hvort ráðherra hafi ekki sagt það sem stendur í þingtíðindum. Ég er með þau hér fyrir framan mig, dagsett 22. des. 1991, 3. umr. um fjárlög, atkvæðagreiðslu, og þá sagði ráðherra ótilneyddur af fúsum og frjálsum vilja:
    ,,Ég vil gjarnan leiðrétta þann misskilning að hér sé um það að ræða að leggja eigi niður Fæðingarheimili Reykjavíkur sem fæðingarstofnun. Það er ekki rétt. Það er gert ráð fyrir því að starfrækja heimilið áfram sem fæðingarstofnun.`` Og áfram segir hann: ,,Ríkisspítalarnir munu reka áfram Fæðingarheimili Reykjavíkur sem fæðingarstofnun undir sama nafni en stjórnendurnir munu að sjálfsögðu gera ráð fyrir hagræðingu á milli fæðingardeildarinnar og Fæðingarheimilisins um þann rekstur sem verður sameiginlega á vegum ríkisspítalanna.``
    Sagði ráðherra þetta ekki? Jú, hann gerði það. Og var hann tilbúinn hér áðan til að staðfesta þessi orð? Er hann tilbúinn til þess? Er hann tilbúinn til þess að tryggja að Fæðingarheimilið verði stofnun fyrir fæðandi konur? Ef ekki, ég ætla að endurtaka það, þá er hann ómerkingur.