Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:22:00 (3373)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þjóðin stendur frammi fyrir þeirri alvarlegu staðreynd að hafa heilbrrh. sem gengur gegn velferðarkerfinu með býsna alvarlegum hætti. Þjóðin er óánægð með þennan heilbrrh. Heilbrrh. lætur reka 600 manns á Landakoti. Heilbrrh. lætur loka sjúkrahúsadeildum. Heilbrrh. lætur loka fæðingardeildum. Heilbrrh. hækkar lyf og læknisþjónustu. Eitt aðalmálgagn ríkisstjórnarinnar kallar heilbrrh. naut í flagi og það var vitnað til þess hér áðan og orðin sem notuð eru um hæstv. heilbrrh. á Landakoti eru ekki hafandi eftir og þau hafði ég ekki eftir hér áðan. Þegar menn eru búnir að koma sér svona fyrir í stöðunni, í stjórnmálunum, eins og hæstv. heilbrrh., þá eiga þeir tvo kosti. Annar er sá að koma fram við pólitíska andstæðinga sína með lítilmótlegum skætingi og útúrsnúningi eins og hann gerði hér áðan. Hinn kosturinn er sá að hann segi af sér. Það er skiljanlegt að hann skuli hafa valið fyrri kostinn þó að sá síðari kunni að liggja fyrir honum áður en langur tími líður.