Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:26:00 (3377)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það gerist æ algengara að um nokkurs konar þriðju útgáfu af þingsköpum sé að ræða sem farið er eftir hér í þinginu. Í umræðum utan dagskrár er gert ráð fyrir tveimur tilteknum formum, annars vegar hálftíma umræðu eða ótakmarkaðri umræðu. Það er ekki gert ráð fyrir fleiri möguleikum. Það er í sjálfu sér mjög óeðlilegt að einhver heimasmíði sé á þessum þingsköpum frá degi til dags þannig að það geti alveg eins verið tveggja tíma umræða sem sé samþykkt einn daginn, þriggja tíma hinn og klukkutíma þann næsta. Ég verð að segja það eins og er að þegar ráðherrar taka upp á því í slíkum umræðum að taka fyrir að vísu sitt vinsælasta umræðuefni, þ.e. stjórnskipun kommúnistaríkja, þá eru þeir náttúrlega ekki að ræða það dagskrármál sem hér er til umræðu og ætti að draga það frá ef mönnum væri alvara og menn væru með hálftíma umræðu. Hitt eru aftur á móti vinnubrögð sem ég get ekki sætt mig við, að taka hér ítrekað upp samningsbundnar umræður sem forseti semur um, ekki við þingheim og ber ekki undir þingheim.