Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:33:00 (3383)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja það að forseti á alla mína samúð að þurfa að stjórna þingfundi með

svo óstýriláta ráðherra sem hér hafa verið í dag og hversu lítt þeir skeyta um að virða þingsköp. Ég nefni sem dæmi hinn óundirbúna fyrirspurnatíma. Gildi hans felst í því að ráðherrar svari fyrirspurnum. Því miður varð nokkur misbrestur á því í dag, m.a. hjá hæstv. samgrh. og það hlýtur að rýra gildi þessa tíma ef ráðherrar ætla sér að víkja sér undan svörum eins og var svo áberandi í dag.
    Annað sem mér finnst ástæða til að nefna var að hæstv. heilbrrh. kvaddi sér hljóðs til að bera af sér sakir. Og hvaða sakir var maðurinn að bera af sér? Það kom ekki fram í hans svari. Það sem kom fram í hans máli var að hann var raunar að bera sakir á annan þingmann í því sem hann kallaði að bera af sér sakir. Mér finnst að ráðherrar verði að virða betur en verið hefur þingsköp og megi ekki gera sér svo mikið far um eins og verið hefur í dag að gera forseta fundarstjórn erfiða.
    Ég vil þó segja að mér finnst ekki óeðlilegt að þingflokkar semji um tiltekna meðferð mála eins og hér hefur verið í dag og verið áður. Menn hafa samið um utandagskrárumræðu með öðru formi en formlega er gert ráð fyrir í þingsköpum. Það finnst mér ekki óeðlilegt. Mér hefur stundum fundist það vera til bóta. En það sem mér finnst og það ætti að vera lærdómur okkar af þeim athugasemdum sem fram hafa komið er að menn ættu að fara yfir framkvæmdina þannig að tryggt sé að allir þingmenn séu sáttir við þetta form hverju sinni og á því hygg ég að forseti beri ekki höfuðábyrgð.