Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:36:00 (3384)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir þá athugasemd sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson setti fram að hæstv. heilbrrh. vék ekki einu orði að því að bera af sér sakir heldur kom eingöngu upp í ræðustólinn til að fara lítilsvirðingarorðum um hv. þm. Svavar Gestsson. Forsetinn hafði hikað við að veita hæstv. heilbrrh. orðið til að bera af sér sakir og það var eðlilegt, en ég saknaði þess að forsetinn skyldi ekki ávíta hæstv. heilbrrh. fyrir að misnota þá heimild sem forsetinn gaf honum með þeim hætti sem hann gerði. Og það er auðvitað dálítið óþægilegt ef hæstv. forseti leggur ekki í það að sýna það jafnrétti hér í þinginu að það sama gangi yfir ráðherra og aðra þingmenn. En það var nú ekki tilefni þess að ég bað um orðið heldur að koma því á framfæri við virðulegan forseta að íhuga alvarlega reynsluna af því að menn semji um það að takmarka ræðutíma í utandagskrárumræðum. Ég tek undir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði. Það getur oft verið skynsamlegt að gera það og gera samkomulag af því tagi sem hér hefur verið gert þó að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að í strangasta skilningi mætti segja að það gengi nokkuð á skjön við þingsköpin.
    En vandinn er sá, hæstv. forseti, að ráðherrarnir í framgöngu sinni í umræðunum taka ekki tillit til þeirrar sanngirni sem þingflokkarnir hafa sýnt með því að gera slíkt samkomulag. Í dag var það t.d. augljóst að hæstv. fjmrh. átti mikið erindi í umræðuna, það var ljóst. Hæstv. fjmrh. geymdi sér hins vegar að biðja um orðið þar til þingflokkarnir flestir í stjórnarandstöðunni áttu aðeins eftir eina til tvær mínútur af sínum tíma þannig að það var útilokað fyrir stjórnarandstöðuna að svara með nokkrum hætti eða fjalla um ræðu hæstv. fjmrh. Það er ekki hægt að ætlast til þess framvegis að þegar við í stjórnarandstöðuflokkunum sýnum þá sanngirni að takmarka umræðuna m.a. til að hæstv. menntmrh. geti mælt fyrir sínum frv. að ráðherrarnir misnoti þennan samkomulagsvilja og þessa góðvild með þessum hætti.
    Ég hafði ýmislegt við það að athuga sem hæstv. fjmrh. sagði hér. Ég hafði enga möguleika til að koma því á framfæri. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir hafði líka ýmislegt fram að færa í umræðunni en hún hafði engan möguleika til þess á þeim tveimur mínútum sem eftir voru og átti þá fjmrh. eftir að tala. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, beina því til forsetans að annaðhvort verði horfið að því að vera bara með þau tvö form sem eru í þingsköpunum þó að menn reyni að taka svona dálítið tillit hver til annars eða þá að ráðherrarnir gerbreyti um háttalag í umræðum hér í þinginu. Ef þeir halda áfram þessu háttalagi að hagnýta sér þennan samkomulagsvilja og tala ekki fyrr en þingflokkarnir eru nánast búnir með sinn ræðutíma þá gengur þetta ekki upp.