Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:41:00 (3386)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég held að við séum kannski ekki endilega að deila um röng vinnubrögð hæstv. forseta og auðvitað erum við ekkert á móti því að samið sé um ákveðinn ræðutíma ef þingmenn eru látnir vita um það. En við hv. þm. eigum auðvitað allir sama rétt. Og ég vil benda á þá einföldu staðreynd að hér stendur til, kl. 15 mínútum fyrir 5, að mæla fyrir einhverju afdrifaríkasta frv. sem hér verður afgreitt á þessu þingi sem er bein árás á Lánasjóð ísl. námsmanna. Í sjónvarpi í gær birtist þingflokksformaður Alþfl. og fyrrv. formaður stúdentaráðs og telur að þetta mál verði afar erfitt í Alþfl. Hér inni, frú forseti, er ekki einn einasti alþýðuflokksmaður. (Gripið fram í.) Ég ætla að ræða við þá menn héðan úr þessum stóli og ég mótmæli því að þessi umræða fari fram án þeirra viðveru. Ef hæstv. heilbrrh. og fyrrv. formaður fjárveitinganefndar, eins og hún hét þá, sem hafði nú ekki lítið með fjárveitingar til Lánasjóðs ísl. námsmanna að gera telur mikilsverðara að ræða við fólk úti á Hótel Borg á venjulegum þingtíma, þá verður það að vera hans mál. En ég vil biðja hæstv. forseta að taka tillit til þessara athugasemda. Það er auðvitað fráleitt að krefjast þess að við förum að ræða þetta mjög svo ógeðfellda frv. að kvöldi dags. Ég mótmæli því, við höfum nógan tíma til að ræða um þetta mál, við munum gera það fram eftir vetri og vonandi hindra að það nái fram að ganga og munum beita öllum tiltækum ráðum til þess, en ég frábið mér, frú forseti, að það sé ætlast til að hér verði mælt fyrir þessu frv. og síðan til málamynda fái einhverjir að taka til máls einhvern tíma og síðan verði málinu frestað. Þetta mál þarf að taka allan þann tíma sem menn þurfa á að halda og ég vil biðja frú forseta að fresta umræðu um Lánasjóð ísl. námsmanna þar sem hæstv. ríkisstjórn má ekki vera að því að hlýða á það mál.