Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:58:00 (3394)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að vekja athygli forseta á því að ræða hv. seinasta ræðumanns var ekki um þingsköp heldur allt aðra hluti og kom þessu máli ekkert við. Af einhverjum ástæðum er verið að óska eftir því að ekki fari fram hér og nú sú umræða um Lánasjóð ísl. námsmanna sem á dagskrá er. Er borin fram fyrir því hver ástæðan á fætur annarri og hlaupið úr einu víginu í annað sem kemur þingsköpum ekkert við. Það fáheyrðasta af því öllu var að hv. þm., sem hér talaði seinast, er orðinn svo fælinn að hann finnur ekki betur út en það að formaður fjárveitinganefndar á liðnu kjörtímabili hafi verið ábyrgðarmaður Lánasjóðs ísl. námsmanna en ekki t.d. hæstv. fyrrv. menntmrh. eða hæstv. fyrrv. fjmrh. Svona umræður eru ekki sæmandi. Er ekki kominn tími til þess að fara að byrja umræðuna?