Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:59:00 (3395)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég ætla að tala um gæslu þingskapa. Hvað hefur verið farið fram á við okkur hv. þm. hér? Jú, það hefur verið farið fram á að ráðherra mæli fyrir nýju frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Síðan tali einn frá hverjum flokki og t.d. hefur hv. 4. þm. Austurl. þegar kvatt sér hljóðs. Þetta er gert til að greiða fyrir umræðu vegna þess að ráðherra verður eitthvað upptekinn næstu daga. Það er verið að segja mér, frú forseti, sem ætla að halda hér langa ræðu í þessu máli að ráðherra megi ekki vera að því að hlýða á þá ræðu. Þess vegna ætlar hann náðarsamlegast að vera viðstaddur þegar einn frá hverjum flokki talar. Síðan getum við haldið umræðunni áfram næstu daga að ráðherra fjarstöddum.
    Ég tel, frú forseti, að þetta sé ekki boðlegt. Ég krefst þess að umræðan fari ekki fram, enginn hluti hennar, að ráðherra fjarstöddum. Ég tel að hér sé um slíkt stórmál að ræða að sú umræða fari ekki fram nema ráðherra hlýði á mál hvers einasta hv. þingmanns sem óskar að ræða það.