Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 18:11:00 (3399)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna en námslán eru ein mikilvægasta forsenda þess að jafna aðstöðu til menntunar. Það er lykilatriði að tryggja öllum þjóðfélagsþegnum jöfn tækifæri til mennta, að aðgangur að menntakerfinu sé ekki bundinn fjárráðum eða félagslegum aðstæðum. Viðhorf okkar alþýðuflokksmanna er að námslán eigi að taka mið af aðstæðum námsmanna og tekjum en einnig af almennum kjörum í samfélaginu.
    Við höfum líka þá skoðun að námslán eigi að bera vexti, lága eða lægstu vexti og þeim þannig fyrir komið að það dragi sem minnst úr hvatningu til starfa námsmanna í atvinnulífinu í námshléum. Eins og fram kom í máli menntmrh. á ákveðin vinna eftir að fara fram við það frv. sem hér er til umræðu og kemur það til kasta menntmn. að fjalla um brtt. sem kunna að koma fram en hún fær frv. til umfjöllunar að umræðu lokinni. Það er áherslumunur á milli stjórnarflokkanna varðandi sum ákvæði frv. Við þingmenn Alþfl. áttum viðræður við fulltrúa námsmannahreyfinganna um það leyti sem frv. var tilbúið til framlagningar af hálfu ráðherra og þó talsvert bæri á milli sjónarmiða þeirra og forsendna frv. sýndist okkur að þarna mætti sætta sjónarmið betur. Við fórum fram á að gerðir væru útreikningar á áhrifum tillagna námsmanna á sjóðsstreymi LÍN og einnig útreikningar miðað við sömu forsendur en með 3% vöxtum.
    Þegar útreikningar lágu fyrir og þar með sú staðreynd að mikill munur yrði á stöðu sjóðsins við þessar forsendur samanborið við frv. var komin mikil tímapressa á framlagningu málsins í þinginu ef takast átti að mæla fyrir frv. fyrir jól eins og áformað var. Þess vegna var sú leið valin að prenta með frv. sem fskj. tillögur námsmannahreyfingana, þ.e. þeirra drög að frv. til laga. Jafnframt eru útreikningar miðað við mismunandi forsendur meðal fskj., bæði hvað varðar greiðslubyrði lántakenda og eins fyrrgreindir útreikningar varðandi sjóðsstreymi LÍN. Það er samkomulag um að skoða nánar þá þætti þar sem áherslumunur er.
    Stjórnarflokkarnir eru sammála um það sjónarmið að lánasjóðurinn fái risið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum svo að hann geti áfram tryggt jafnrétti til náms en hvers vegna skyldi þurfa að gera breytingar á lögum um lánasjóðinn? Getur hann ekki verið eins og hann er? Hafa málefni hans ekki verið í ágætu lagi hingað til þar sem svo góður vilji er í öllum flokkum til að stuðla að stuðningi við námsfólk? Svarið er því miður nei. Viljinn hefur greinilega verið meiri en getan á liðnum áratug og eins og alltaf þegar vanda er ýtt á undan sér kemur að lokum að skuldadögum.
    Í árslok 1989 var hlutfall erlendra lána um 40% af heildarlánum sjóðsins. Nú fara um 30% af árlegri fjárþörf sjóðsins til afborgana af lánum. Frá og með árinu 1990 hafa allar lántökur sjóðsins verið gerðar á innlendum markaði. Ríkisframlög eru hærri en lántökur sjóðsins á árunum 1986--1989 en síðan snýst dæmið við og á árinu 1991 nema lántökur sjóðsins 3 milljörðum á móti 1.730 millj. ríkisframlagi til sjóðsins. Hæst hlutfall ríkisframlaga er á árunum 1986 og 1988. Á árinu 1986 er ríkisframlag 68% og á árinu 1988 er það 63%. Vegna þeirra orða sem svo oft hafa fallið hér úr þessum stól varðandi skoðanir formanns Alþfl. ber að geta þess að einmitt á árinu 1988, þegar framlag er 63%, var formaður Alþfl. fjmrh. Árið 1989 er framlag orðið 54%, árið 1990 er það 43%, árið 1991 32% og þarfir sjóðsins meiri og meiri.
    Það er hins vegar mjög mikilvægt þegar að takast á við vandann að reyna að gera það eins mildilega og unnt er þannig að ekki skapist stórfellt misræmi á kjörum þeirra hópa sem eru að leita sér menntunar fyrir og eftir breytingu. Í þeim efnum þarf að skoða grundvallaratriði eins og vexti, endurgreiðslutímabil, þ.e. lánstíma, árlegt endurgreiðsluhámark, félagslegar aðstæður, réttinn til að hefja lántöku og hvenær eigi að hefja endurgreiðslu lána. Samband ungra jafnaðarmanna hefur sett sína skoðun á þessum þáttum fram í tillögum sem flokksstjórn Alþfl. vísaði til þingflokks og framkvæmdastjórnar. Þeir lýsa áhyggjum yfir því að þung greiðslubyrði af námslánum geti gert háskólamenntuðu fólki ókleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið að námi loknu og því að ekki sé tekið tillit til félagslegra aðstæðna á námstíma. Þeir vilja að endurgreiðslur miðist við 4% og 6% af útsvarsstofni í stað 4% og 8% og að endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok í stað eins. Og þeir benda á að ákvæði 18. gr. geti þýtt að greiðsla verði allt að 11,75% af útsvarsstofni. Sú staða kæmi víst því aðeins upp í þeim tilfellum að viðkomandi námsmaður tæki lán bæði úr gamla og nýja kerfinu og lenti í hámarki í þeim báðum en vissulega þarf að skoða það nánar.
    Í þessu frv. er hámark á endurgreiðsluhlutfalli fyrst 4% og síðar 8% af útsvarsstofni eins og fram hefur komið. Þessi viðmiðun er fyrst og fremst hugsuð sem öryggisnet og það gildir sama viðhorf gagnvart því þótt þessar tölur yrðu aðrar. Hins vegar er það svo að slíkt öryggisnet á fyrst og fremst við gagnvart þeim tekjulægri á meðan sú staða gæti komið upp að þeir tekjuhærri nái ekki þeirri sömu prósentuviðmiðun á endurgreiðslutímanum. Þannig mundu t.d. ákveðnir hópar mjög líklega lenda í hámarksprósentu allan endurgreiðslutímann meðan þeir sem stunda lengra nám, t.d. verkfræði eða læknisfræði, fá lengri endurgreiðslutíma og búa að líkindum við mun hærri tekjur að námi loknu og þar með gætu endurgreiðslur þeirra orðið undir 4% eða 8% af þeirra útsvarsstofni. Það má því velta því fyrir sér hvort það sé réttlátt að þeir tekjulægri lendi í því að greiða alltaf samkvæmt hámarksprósentuviðmiðun en tekjuhærri stéttir næðu e.t.v. ekki nema helmingnum af viðmiðun. Ef það er ekki réttlátt vaknar sú spurning hvort e.t.v. eigi að setja prósentuviðmiðun framar árafjöldanum þegar svo ber undir. Með því væri hægt að líta á prósentuviðmiðunina sem öryggisnet og þá yrðu þetta einu lánin sem væru endurgreidd miðað við tekjur. Það

þarf að benda á þessa hluti og það þarf að ræða þá en ég er ekki þar með að segja að þeim eigi að breyta.
    Þegar við erum að breyta fyrirkomulagi á námslánum hljótum við að leiða hugann að því hvort námslán séu betri eða verri en annars staðar og erum við þá komin að hinum óendanlega samanburði milli landa sem reyndar verður oft afstæður. Miðað við töflu sem er á bls. 26 í frv. þá eru lánin nokkuð mismunandi eftir löndum. Aðalmunur á framlögum er að annars staðar á Norðurlöndum eru veittir styrkir að hluta en aðalmunur á fjárhæðum fyrirgreiðslu virðist hins vegar vera hjá fjölskyldufólki íslenskum námsmönnum í hag. Því er haldið fram að námslánafyrirgreiðsla okkar hvetji ekki til sparnaðar og að það fyrirkomulag sé ekki heppilegt að námsmaður verður að taka allt lánið eða ekkert.
    Varðandi breytingar á lánsfyrirkomulagi eru það fyrst og fremst tvö sjónarmið sem eru yfirgnæfandi. Það er annars vegar fjárþörf sjóðs sem að óbreyttu keyrir í strand og hins vegar að endurgreiðslur bugi ekki háskólafólk eða þá aðra sem lokið hafa lánshæfu námi. Þessi sjónarmið þarf að sætta og þessi sjónarmið trúi ég að hægt sé að sætta.