Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 18:20:00 (3400)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Eins og ég gat um fyrr á þessum fundi þá fara umræður um þetta stóra mál hér fram við heldur óheppilegar aðstæður, bæði síðla á degi og þannig að það þarf að slíta þær sundur. Hér hefur einnig verið gert einhvers konar samkomulag um að reyna að koma fyrsta þætti umræðunnar fram fyrir kvöldmatarhlé svo okkur sem tökum þátt í þessari umræðu er nokkur vandi á höndum því að ekki vil ég skilja þannig við þetta að einstakir þingflokkar verði þarna út undan að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við þennan fyrsta þátt. Það sem ég kem því til með að segja verða nokkur almenn atriði sem snerta þetta mál og undirbúning þess og þann anda sem svífur yfir vötnunum við meðferð málsins á vettvangi ríkisstjórnar. Ég hef ekki tækifæri til þess að fjalla í einstökum atriðum um málið eins og þó væri vert og mun þá nota minn rétt síðar við þessa umræðu eftir því sem ástæður bjóða. Ég á hins vegar sæti í menntmn. þingsins og mun á þeim vettvangi fylgjast með málinu eftir föngum og berjast fyrir þeim breytingum sem þingflokkur Alþb. telur nauðsynlegt að gerðar verði á því. En það eru í rauninni grundvallarbreytingar.
    Eins og komið hefur fram í almennri umræðu um málið fram að þessu þá er Alþb. algerlega andvígt þessu frv. eins og það liggur fyrir og þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hyggst ná með þessu frv. og ég segi ríkisstjórnin því þetta er lagt hér fram sem stjfrv.
    Það verður ekki hjá því komist að líta á þetta mál í almennu samhengi þeirrar stefnu sem fram kemur hjá hæstv. núv. menntmrh. á mörgum sviðum. Þetta er aðeins einn þáttur af mörgum varðandi skóla- og menntamál í landinu sem eru að koma fram af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar og þar ber flest að sama brunni. Þar svífur andi misréttis yfir vötnunum. Þar er vaxandi misrétti leiðarstjarnan sem fylgt er, takmarkanir sem gera kost þeirra sem betur eru stæðir í þjóðfélaginu betri til náms og skólagöngu en rýrir að sama skapi möguleika hinna efnaminni í landinu og þeirra sem afskiptir eru til náms. Þetta gildir um þær breytingar sem hér hafa verið mjög ræddar undanfarið í þinginu varðandi aðgerðir í ríkisfjármálum, þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra var að knýja fram ásamt starfsbræðrum sínum og systrum til að breyta skólakerfinu til skamms tíma litið og til lengri tíma litið í sambandi við grunnskóla. Þetta varðar upptöku skólagjalda á hinum ýmsu skólastigum í landinu og þetta varðar sannarlega þann flata niðurskurð sem mest fer fyrir í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og hittir allt skólakerfið í landinu með mjög óþyrmilegum hætti. Þetta hittir auðvitað ekki aðeins fólk misjafnlega fyrir eftir efnahag heldur einnig eftir búsetu og það er alveg dagljóst að þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra stendur fyrir auka enn á misrétti og misvægi varðandi aðstöðu fólks í landinu til náms eins og raunar á svo mörgum öðrum sviðum sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir með tillögum sínum og ákvörðunum. Og nú er komið að Lánasjóði ísl. námsmanna, að breyta honum í það horf sem hér eru gerðar tillögur um eftir þeirri hugmyndafræði sem hæstv ríkisstjórn beitir og hefur að leiðarljósi. Og það er þessi hugmyndafræði um vaxandi misrétti, aukinn aðstöðumun, aukinn rétt hinna betur stæðu í þjóðfélaginu sem ég mæli gegn og við sem erum að andæfa gegn þessu frv. Og það gildir um fjölmörg önnur svið varðandi skólastefnu.
    Nú er það svo að hæstv. ráðherra er ekki búinn að sýna nema hluta af spilunum, hluta af því sem hann hyggst bera fram í sambandi við skólamálin og nú alveg nýlega, hvort það var í gærmorgun eða í morgun, þá bárust fregnir af því að hæstv. ráðherra viðraði á fundi, sem hann stóð fyrir, að ég hygg róttækar hugmyndir um breytingar á grunnskólahaldi og fleiri þáttum sem sæta nú allnokkrum tíðindum ef að gerðar yrðu að veruleika, m.a. sú hugmynd að stytta starfstíma grunnskólans um heilt ár. Hér er um að ræða svo miklar breytingar frá þeirri stefnu sem fylgt hefur verið að þær hljóta að kalla á mjög hörð átök hér á Alþingi og í samfélaginu almennt. Þessi átök eru greinilega aðeins að hefjast og ef núv. ríkisstjórn heldur velli og situr áfram við völd út kjörtímabilið þá er það alveg ljóst að hér á eftir að geysa í landinu styrjöld, ekki með vopnum en með átökum, mjög miklum átökum vegna þeirrar stefnu sem hér er verið að knýja fram. Það getur verið að menn eigi ekki að vera að kvarta yfir því að ný ríkisstjórn birtist mönnum með allt aðra stefnu heldur en áður ríkti í landinu, þjóðin þurfi á því að halda að það séu einhver skil á milli stjórnmálaflokka, á milli hægri og vinstri. Það má segja að það sé nokkuð til í því. En það getur reynst dýrkeypt og það getur orðið tímafrekt og erfitt að bæta fyrir þau verk sem núv. ríkisstjórn er að knýja fram. Og það mun bitna á mörgum sem verða þolendur þeirra aðgerða í bráð og til nokkurrar lengdar sem hér er verið að fjalla um og reyna að fá lögfestingu á á Alþingi.
    Undirbúningur þessa máls er líka mjög dæmigerður fyrir vinnubrögð núv. ríkisstjórnar. Það er ekki gengið að undirbúningi þessa máls með því hugarfari að reyna að laða saman fylkingar í þjóðfélaginu, laða saman stjórnmálaflokkana í landinu, að draga námsmenn til samstarfs um þær breytingar sem hugmyndin er að gera. Út af fyrir sig greinir menn ekki á um að þörf var á því að taka málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna, lögin um námslán og námsstyrki, til meðferðar á Alþingi og ná þar fram breytingum til að treysta í sessi það kerfi sem góð sátt hefur ríkt um frá því að lög voru sett um þetta en gera um leið á því þannig breytingar að það standist til frambúðar. En ríkisstjórnin og hæstv. menntmrh. völdu þann kost að setja á fót nefnd skipaða stjórnarliðum einvörðungu til þess að vinna að þessu máli sl. sumar, harðlæsa sig inni með undirbúning að þessu máli. Því var t.d. neitað og hafnað í menntmn. síðasta þings á síðasta sumri að verða við óskum frá þingflokki Alþb. um að orðið yrði við beiðni frá Stúdentaráði Háskóla Íslands um að geta komið á vettvang nefndarinnar til þess að kynna sínar hugmyndir. Það mátti ekki. Við því var ekki orðið og það er ekki fyrr en nefnd ráðherrans hafði lokið störfum í októberbyrjun að bætt er inn fulltrúum frá námsmönnum, eða þeim gefinn kostur á því og þá með þeim hætti að þeir fá aðeins tíu daga til að standa frammi fyrir fullmótuðum tillögum um lagafrv. sem knúið er fram í þeirri nefnd 21. nóv. sl.
    Svo koma hér fulltrúar Alþfl., annars stjórnarflokksins, og eru að reyna að þvo hendur sínar af þessu verki. Hér stóð hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og lýsti því yfir að hún væri andvíg og ósamþykk þessu máli í mörgum atriðum og það tækist vonandi að ná hér fram breytingum. ( Gripið fram í: Áherslumunur.) Áherslumunur, já. Það væri gott ef það væri ekki nema áherslumunur sem þarna ríkir á milli stjórnarflokkanna frá þeirra bæjardyrum séð. En ef einhver innstæða væri fyrir orðum hennar og formanns þingflokks Alþfl. í þessu máli, þá værum við ekki að fjalla um þetta mál hér eins og það liggur fyrir. Þá hefði þetta mál aldrei komið fram á þingi sem stjfrv. og það er það sem er kannski meginatriðið við þetta mál eins og það liggur hér fyrir að annar stjórnarflokkurinn segir í öðru orðinu: Þetta er nú eiginlega ekki stjfrv. Við stöndum eiginlega ekki að þessu máli eins og það liggur hér fyrir. Þó hafa þeir átt hlut að undirbúningi, átt fulltrúa í nefndinni sem fjallaði um frv. á sl. sumri. Ég man ekki betur en einn prófessorinn, sem stóð að undirbúningi málsins, hafi setið á þingi sem varamaður Alþfl., Jón Bragi Bjarnason prófessor. Væntanlega var tiltölulega handhægt fyrir Alþfl. að koma sínum sjónarmiðum þar á framfæri á réttum tíma, undirbúningstíma þessa máls.
    Okkur er nokkur vandi á því að ræða þetta mál, virðulegi forseti, sem stjfrv. eins og þetta liggur hér fyrir. Og ég spyr: Hvernig ætlar Alþfl. að standa að meðferð þessa máls? Hvernig ætlar hann að gera það? Mál sem ráðherrar flokksins hafa fallist á að sé flutt inn í þingið sem stjfrv. Ætlar formaður þingflokks Alþfl. og fulltrúi Alþfl. í menntmn. að setjast á rökstóla með okkur stjórnarandstæðingum um það hvaða breytingar sé hægt að sameinast um að knýja fram gegn hæstv. menntmrh. og gegn Sjálfstfl. í þessu máli? Hvers konar vinnubrögð eru það sem Alþfl. hyggst stunda í þessu máli? Það gildir um þetta eins og annað að ekki verður bæði sleppt og haldið. Alþfl. getur ekki ætlað að koma sér undan þeirri ábyrgð að brjóta niður gildandi lög um námslán og námsstyrki og kenna síðan bara einhverjum öðrum um. Það eru ekki þolanleg vinnubrögð. Þannig geta menn ekki staðið að málum í stjórnmálum en það er auðvitað þannig að hv. formaður þingflokks Alþfl. er að átta sig á því smám saman hvaða gröf Alþfl. er að grafa sér í pólitíkinni, ekki aðeins með málafylgju í þessu tilviki að því er þetta frv. varðar og skólamálin heldur á flestum sviðum íslenskra þjóðmála þar sem verið er að snúa til hinnar hörðu peningahyggju í stað félagslegrar samhjálpar og jafnræðis. Svo er verið að kynna hér frómar hugmyndir Sambands ungra jafnaðarmanna um breytingar rétt til þess að hugga þá á meðan verið er að smeygja í gegn lagafrumvörpunum sem Alþfl. ber fulla ábyrgð á að liggja hér fyrir sem stjfrv.
    Hægt er að fara yfir þetta mál lið fyrir lið og segja má að öll þau atriði sem hér eru gerðar breytingar á lúti að því markmiði að draga úr framlögum úr sameiginlegum sjóði, auka álögur á lántaka, þó þannig að gætt er misræmis en ekki jafnræðis, t.d. með tilliti til tekna. Það er verið að þrengja kosti þeirra sem standa höllum fæti bæði hvað varðar aðstandendur og tekjur í þjóðfélaginu meðan á námi stendur og einnig að námi loknu. Og það er verið að vega að einstökum þjóðfélagshópum, lágtekjuhópunum í landinu, börnum þeirra og þeim fjölmenna hópi sem mun skipa og fylla lágtekjuhópana í þessu landi ef sú stjórnarstefna, sem hér er birt, nær fram að ganga og festir sig í sessi. Þetta mun auðvitað ekki síst bitna á konum í landinu, einstæðum mæðrum í landinu, þeim fjölmenna hópi kvenna sem fyllir láglaunahópana í þessu landi öðrum fremur. Þannig æpir mismununin hvarvetna á mann þegar litið er á þá málafylgju sem hér er borin fram. Ég öfunda ekki formann menntmn., hv. þm. Sigríði Þórðardóttur, af því að þurfa að ganga í það hlutverk að bera þetta frv. fram í gegnum nefndina og knýja þar fram afgreiðslu á því eins og siglingaljósin eru stillt í þessu máli.
    Það er auðvitað alveg nauðsynlegt og verður gert af hálfu okkar stjórnarandstæðinga að knýja á um grundvallarbreytingar í þessu máli. Ég get sagt það við fulltrúa Alþfl. hér að ef þeir eru reiðubúnir til að stöðva þessa siglingu --- því að það er það sem þarf að gera fyrst af öllu, ef menn ætla að ná áttum í þessu máli --- þá þýðir ekkert að krukka í einstaka liði, einhver smáatriði, gera einhverjar fegrunaraðgerðir á þessu frv. og segja: Ja, við í Alþfl. sáum nú til þess að það var breytt um þetta og það var breytt um hitt og safnast þegar saman kemur. Það þýðir ekki. Menn verða auðvitað að taka á málinu formlega og það fyrr en seinna. Ætlar Alþfl. að sjá til þess að þetta mál fái nýja meðferð frá grunni? Það er sú spurning sem við munum setja fram og er nauðsynlegt að fáist skýrð við 1. umr. málsins, áður en málið fer til nefndar.
    Námsmannahreyfingin eða fulltrúar hennar sem þurftu að taka á þessu máli á sannarlega hól skilið fyrir þá viðleitni sem hún sýndi til þess að koma fram með hugmyndir við þær örðugu aðstæður sem hún starfaði við um að breyta aðstæðum lánasjóðsins að nokkru til móts við sjónarmið sem á var herjað. Þarna var rétt fram hönd, framrétt hönd, sem stjórnvöld áttu
auðvitað að taka í. En hvað var gert? Það var slegið á hana. Og í rauninni var ekkert gert annað en að gera gys að námsmönnum, hæstv. ráðherra, með því að fara að kalla til fulltrúa þeirra snemma í október og ætla þeim tíu daga starfstíma í nefnd til þess að glíma þar við frv. sem embættismennirnir báru fram í nefnd ráðherrans. Þetta eru ósiðleg vinnubrögð og ekki vinnubrögð sem eru líkleg til þess að leiða til lausnar.

    Við stöndum frammi fyrir því á Alþingi að þurfa að glíma við tillögur stjórnvalda sem eru þannig að ekki er í rauninni hægt að fjalla um þær eina og eina heldur verðum við að horfa á samhengi þessara hluta. Við hljótum að skoða frv. og hugmyndirnar sem þar liggja að baki með hliðsjón af því sem verið er að knýja fram á öðrum sviðum í menntamálum landsins, svo að ég fari nú ekki út á víðari völl þótt þar mætti sannarlega víðar leita fanga. Þetta er auðvitað spurning um kjör fólks og aðstæður í bráð og í lengd. Þetta er spurningin um kjör foreldranna, láglaunafólksins sem er að reyna að aðstoða fólk sitt til mennta. Það er hvarvetna verið að reisa girðingar gegn því að þetta geti gengið fram með eðlilegum hætti. Lítið dæmi eru ábyrgðarmennirnir sem verið er að krefjast hér, hertar ábyrgðir. Hvað um hina einstæðu móður sem er ætlað að skrifa upp á þær hertu skuldbindingar sem hér eru gerðar um endurgreiðslur? Hvað með annað lágtekjufólk eins og þar er um að ræða í flestum tilvikum?
    Virðulegur forseti. Þannig gæti ég haldið áfram nokkuð lengi að ræða þetta mál en ég taldi rétt að draga hér fram nokkur almenn sjónarmið á þeim örstutta tíma sem gefinn er til umræðu samkvæmt hugmyndum sem liggja fyrir um þennan fyrsta þátt umræðunnar. Ég vil greiða fyrir því að allir þingflokkar geti komist að og tjáð sín sjónarmið án þess að þar sé mjög hallað á. Það væri betur að slík viðhorf væru ráðandi í sambandi við það mál sem hér er fram borið.