Lánasjóður íslenskra námsmanna

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 13:49:00 (3404)

     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Líklega verður stefnu ríkisstjórnarinnar best lýst með því að í atvinnumálum er hún ákveðin að hafa þar af engin afskipti jafnvel þótt nokkur samdráttur gangi nú yfir þjóðfélagið og hefur því hvað eftir annað verið lýst sem ,,kemur-mér-ekki-við``. Og þar verður að segjast eins og er að þar hefur stefnufesta hæstv. ríkisstjórnar verið mikil.
    Hins vegar virðist hún vera ákveðin í því að skera niður við trog eins og frekast er unnt það velferðarkerfi sem hefur verið grundvöllur að því þjóðlífi sem okkur Íslendingum hefur tekist að skapa hér á undanförnum áratugum. Morgunblaðið hefur lýst aðför hæstv. ríkisstjórnar að heilbrigðiskerfinu sem þar fari naut í flagi og því miður verð ég að taka undir það.
    Nú eru menntamálin til umræðu og þó að ég ætli ekki að nota lýsingar Morgunblaðsins, þá vil ég taka það fram að ég tel að það sem þar er verið að gera sé ekki síður alvarlegt heldur en aðförin að heilbrigðiskerfinu. Við höfum rætt hér í tengslum við fjárlögin um þann samdrátt sem boðaður er í skólunum og ég sé ekki að nokkur sjái fram úr. Skólastjórar halda fundi og leita leiða og lýsa því hvernig draga verður saman námið á síðustu mánuðum þessa árs og hæstv. menntmrh. heldur sína fundi og segir þar með sakleysisvip: Ja, þetta er bara Alþingi. Alþingi hefur ákveðið þetta og aumingja ég, má lesa úr orðum hans, mér er falið að framkvæma þessa ákvörðun Alþingis.
    Þetta er náttúrlega undarlegur málflutningur því það er nú svo að hæstv. menntmrh. er með bréf

frá forseta Íslands þar sem segir að hann sé einn ábyrgur fyrir þessum málaflokki. Ég hef verið það lengi í ríkisstjórn að ég veit hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Þeir ganga þannig fyrir sig að viðkomandi ráðherra verður að sjálfsögðu að samþykkja það sem fjmrh. leggur síðan fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fram í sérhverjum málaflokki og vitanlega eru þær tillögur sem í menntamálum hafa komið fram og meiri hluti Alþingis hefur samþykkt ekkert annað en tillögur hæstv. menntmrh. Hann ber á þeim alla ábyrgð samkvæmt því forsetabréfi sem ég nefndi áðan.
    Að vísu má segja að í þessu máli, um lánasjóðinn, geta menn að sjálfsögðu ekki skotið sér á bak við Alþingi. Alþingi hefur ekki samþykkt þetta og reyndar þegar maður les allan aðdraganda sér maður að gengið hefur verið markvisst til verks. Það var skipuð nefnd góðra flokksmanna, stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar til að skoða þessi mál sl. sumar. Hún gerði skoðun. Síðan var skipuð önnur nefnd og ef ég man rétt þá er það ekki fyrr en 8. nóv. að skipaðir eru í hana fulltrúar námsmanna. Það eru haldnir fimm fundir eða svo. Tillögur námsmanna eru ekkert skoðaðar heldur kemur sendiboði og fulltrúi menntmrh. með fullbúið frv. sem hann leggur fram á þriðja eða fjórða fundi og segir: Þetta er það sem hæstv. menntmrh. vill.
    Út af fyrir sig met ég þetta, þarna kemur greinilega fram að þetta er mál menntmrh., en mér fannst ástæða til að rekja þessa sögu því ég kann afar illa við það þegar ráðherrar eru að skjóta sér á bak við það sem Alþingi hefur að lokum samþykkt, sem er náttúrlega ekkert annað en tillögur þeirra. Mér finnst að þetta þurfi að liggja ljóst fyrir þegar þetta frv. er tekið til umræðu.
    Ég vil taka það fram að við framsóknarmenn leggjust ekki gegn því að reynt verði að draga úr kostnaði og spara í velferðarkerfinu, en við teljum að þetta velferðarkerfi hafi verið byggt upp í gegnum árin að fenginni mjög mikilli reynslu. Við höfum lært af þörfinni og vissulega af mistökunum. Velferðarkerfið hefur tekið á sig miklu fleiri skyldur heldur en áður var og því hefur kostnaðurinn að sjálfsögðu aukist. Okkur er það ljóst, ekki síst eftir mjög mikla vinnu á síðustu kjörtímabilum, að þetta er vandmeðfarið mál og verður að gerast af mikilli varúð.
    Ég lít satt að segja aðförina að menntakerfinu ekkert síður alvarlegum augum heldur en aðförina að heilbrigðiskerfinu og ég tel að það sé verið að vega að sjálfum grundvellinum sem íslenska þjóðin hlýtur að byggja á sína efnahagslegu velferð á næstu árum og áratugum. Afar athyglisvert er að lesa mjög ítarlegar athuganir sem farið hafa fram á framgangi ýmissa stórvelda í heiminum í efnahagsmálum, án þess að ég fari að rekja það ítarlega, og hvernig spáð er falli t.d. Bandaríkjanna og Evrópu. Þó vil ég láta það koma hér fram því það tengist þessu máli, að allar þessar athuganir komast að þeirri niðurstöðu að þar í eigi menntunin stærsta þáttinn. Til dæmis er hnignun í Bandríkjunum nú öll rakin til þess að þar hafi menntakerfið molnað, þar hafi hinir ríkisreknu skólar fallið, orðið lélegir. Ég hlustaði sjálfur á rektor eins mætasta og merkasta skóla í Bandaríkjunum lýsa því að þetta hefði orðið til þess að í dag væru 30% Bandaríkjamanna í raun ólæsir og óskrifandi. Ég hlustaði á annan slíkan rektor lýsa því að ekki væri unnt að finna Bandaríkjamenn til að fylla ameríska háskóla, þeir væru ekki til þess hæfir. Hins vegar hafa einkaskólarnir dafnað og þeir sem hafa efni á því senda börnin sín þangað og það eru nánast þeir einu sem nú eru taldir hæfir til að ganga áfram menntaveginn.
    Hér er talað um einkaskóla. Ég er alls ekki að segja og dettur ekki í hug að hæstv. menntmrh. hugsi sér þá þróun sem lýst er í Bandaríkjunum, og það er ekki mín lýsing heldur lýsing annarra. Ég efa ekki að hér vilja allir góða menntun en þá erum við líka á rangri braut. Ég held satt að segja, og tel mig tala þar af nokkurri reynslu, að það verði lítið sparað í menntakerfinu hér. Við verjum minna til menntunar á hvern nemanda heldur en t.d. nágrannaþjóðir okkar og við eigum gífurlega mikið verkefni óunnið, sérstaklega í verklegu námi, þannig að þó að okkur takist að draga saman einhvers staðar, kannski í háskólanámi --- ég er ekki að boða það, en sumir hafa talið að of miklu sé varið þar, ég held nú reyndar ekki, en jafnvel þó að svo væri þá þarf áreiðanlega að auka fjármagn á öðrum sviðum, t.d. í verklegu námi í framhaldsskólum. Við eigum eftir að leysa þann vanda að koma á einsetnum skóla og þannig mætti áfram telja. Ég tel því að þessi sparnaður inn í ríkissjóð sé mikil mistök almennt í menntakerfinu og þar eigi heldur að beita sér að einhverjum tilfærslum innan menntakerfisins til þeirra þátta sem ekki hefur tekist að sinna eins og skyldi.
    Það væri svo sem gaman að vita þó það komi ekki beinlínis þessu við hvað hæstv. menntmrh. ætlar sér að gera ef svo fer í haust að Háskóli Íslands treystir sér ekki til að innrita neinn nýjan nemanda. Ég hef rætt þetta við háskólamenn og ég held að þeir tali þarna af fullkominni alvöru. Þeir sjá ekki hvernig þeir eiga að ná þeim 10% samdrætti sem þar á að verða og þá ,,nota bene`` tekið tillit til skólagjalda sem á að greiða. Þannig gæti ég margt fleira rakið.
    Lánasjóðurinn hefur lengi verið litinn af nokkurri tortryggni af sumum mönnum og nokkurri öfund, vil ég segja, af ýmsum. Ég held að það sé á miklum misskilningi byggt. Ég held að sú fjárfesting sem við Íslendingar höfum í gegnum lánasjóðinn lagt í menntun okkar æsku sé ein sú besta fjárfesting sem við höfum tekið okkur á herðar. Sú athugun sem ég nefndi áðan um viðgang ríkja bendir mjög eindregið til þess. Þar er meginniðurstaðan sú að mikill vöxtur ríkjanna í Austur-Asíu núna, landa eins og Japan, Kóreu, Singapore, Tævan og fleiri, megi alla rekja til mjög vel skipulagðrar og góðrar menntunar, góðrar þekkingar. Ég vil taka það fram að þá er ég alls ekki að tala um menntun eingöngu á háskólastigi, ég er að tala um þekkingu allt frá grunnskóla og upp úr. Það er enginn vafi á því að hér þarf t.d. stórkostlega að auka

og bæta aðstöðu til menntunar í iðnskólum landsins. Það er því í raun og veru allt sviðið sem þar er lagt undir.
    Svo er nú hér á landi að námsmenn okkar sem ljúka framhaldsnámi þurfa margir að leita erlendis til náms og þeir sem ljúka háskólanámi til framhaldsnáms erlendis. Þess vegna hefur lánasjóðurinn gegnt hér að sumu leyti jafnvel meira hlutverki en annars staðar. Ódýrara er að sækja námið heima og þess vegna höfum við orðið að verja meira fjármagni í þessu skyni.
    Engu að síður vil ég taka fram að við framsóknarmenn erum tilbúnir að skoða ýmsar leiðir til þess að draga úr útgjöldum vegna lánasjóðsins ef þær leiðir verða ekki til þess að skerða réttindi námsmanna til framhaldsnáms eða möguleika til framhaldsnáms. Við getum tekið undir að það horfir til mikilla útgjalda fyrir lánasjóðinn þegar til lengri tíma er litið en ég ætla að koma að því aðeins síðar. Við höfum hins vegar mjög ríkar athugasemdir og ákveðnar að gera við þær leiðir sem eru valdar í þessu skyni. Við teljum þær af handahófi valdar og eiginlega eigi lýsing Morgunblaðsins um heilbrigðisþjónustuna einnig við í þessu sambandi. Ég ætla að reyna að fara yfir það og vísa þá til bls. 8 í greinargerðinni.
    Í fyrsta lagi er námslánum ætlað að bera 3% vexti frá námslokum, en eru vaxtalaus á námstíma. 3% vextir ofan á verðtryggt lán eru háir vextir. Í flestum siðuðum þjóðfélögum eru það háir vextir. Vextir í Bandaríkjunum núna eru 5--6% eða svo. Ég þekki það að þar er hægt að fá námslán sem eru með þeim vöxtum. Þar er verðbólga núna nokkuð há, líklega í kringum 4%, svo þetta eru mjög háir vextir borið saman við Bandaríkin í dag. Þetta eru líka háir vextir borið saman við ýmis Evrópulönd, það eru helst Norðurlöndin sem eru eitthvað á þessu róli. Að vísu er verðbólgan nú lág og vonandi helst hún lág en það er engin trygging fyrir því. Við gætum skoðað einhverja örlitla vexti þarna á en við teljum 3% vexti allt of mikið og muni íþyngja námsmönnum óeðlilega mikið á greiðslutímanum.
    Við teljum einnig að óeðlilegt sé að endurgreiðslur hefjist ári eftir námslok. Á þeim tíma eru námsmenn að hasla sér völl, þeir eru e.t.v. ekki allir búnir að finna sér atvinnu, þeir eru að fá sér húsnæði, þeir eru að koma sér fyrir, getum við sagt, eftir námið. Það getur vel verið að það megi stytta þennan tíma eitthvað úr þremur árum, en við teljum eitt ár of stuttan tíma.
    Mér finnst einnig að lánstími sem er fjórfaldur námstími orki tvímælis og reyndar vaknar sú spurning þegar maður skoðar þetta með fjórfaldan námstíma hvers vegna í raun er nauðsynlegt þegar 8% af brúttótekjum er krafist og reyndar vekur það mikla athygli þegar maður skoðar hér töflur eins og á bls. 62 með hjúkrunarfræðinginn og einnig með framhaldsskólakennarann. Eftir 67 ára aldur skuldar þessi hjúkrunarfræðingur 4 millj. kr. af upphaflegu láni sem var 2,6 tæplega, og framhaldsskólakennarinn skuldar 2,7 af 2,6 millj. Hér er um það að ræða að lánin hafa orðið nokkuð hærri vegna þess að hér er, ef ég man rétt, um einstæð foreldri með tvö börn að ræða. Engu að síður er þetta dæmi um ríkisstarfsmenn, þeir eru með þessi laun, nokkurn veginn, eitthvað á þessu róli og þeir ná ekki að greiða lánið að fullu. Mig langar til að spyrja hver er ætlunin, ég sá ekki að það kæmi fram, eftir 67 ára aldurinn? Falla þá lánin niður? Vekur það þá spurningar hvort þessi stífa krafa um endurgreiðslu --- hér er nú gert ráð fyrir að við hana sé staðið öll ár og greitt 8%, hins vegar eru þetta að stórum hluta vaxtagreiðslur --- hvað verður þá? Fellur lánið þá niður þegar 67 ára aldri er náð?
    Við teljum að það megi hækka þessa endurgreiðslukröfu eitthvað, úr 3,75% t.d. í 4% og halda henni. Kæmi síðan til greina að athuga að það breyttist eftir ákveðinn árafjölda, t.d. eftir 20--25 ár og þá yrði greiðslubyrðin eitthvað þyngd til þess að tryggja meiri endurgreiðslu.
    Ég held að nauðsynlega þurfi að skoða þetta tvennt saman. Einnig má vekja athygli á því að fjórfaldur námstími, við skulum segja nemanda sem er í fimm eða sex ára námi og af persónulegum fjárhagsástæðum þarf ekki að taka lán nema, við skulum segja í eitt ár, þetta eru dýr lán og menn spara sér það, þá fær hann 20 ár til að greiða það lán sem hann fengi á einu ári. Hann gæti kannski greitt þetta upp á miklu skemmri tíma. (Gripið fram í.) Gæti hann það ekki? Jú, vitanlega gæti hann það. Sérstaklega ef hann væri með sæmilegar tekjur, þá gæti hann það vitanlega mjög auðveldlega.
    Hér stendur að hætt verði að lána til sérnáms sem ekki er á háskólastigi nema lánþegi verði 20 ára á því almanaksári. Þetta er mjög alvarlegt ákvæði. Þetta þýðir það að þeir sem eru í iðnnámi eiga þá flestir hverjir ekki rétt á láni. Ég sé ekki betur en þetta hljóti að verða til þess að draga mjög úr lánveitingum t.d. til þeirra sem eru í iðnnámi og hljóti þá að verða til þess að mismuna mjög aðstöðu manna hér á landi til að sækja slíkt nám. Iðnskólar eru ekki á hverju strái og t.d. þeir sem búa á landsbyggðinni og geta ekki annað en flust búferlum til að sækja slíkt nám eru augljóslega langtum verr settir heldur en hinir sem geta e.t.v. búið heima hjá sér og hafa stutt að sækja. Er mikil spurning hvort það er virkilega ætlun hæstv. menntmrh. að leggja með þessu alla áherslu á háskólastigið en draga úr hinu. Er það eitthvað sem hann telur ekki þörf á í þessu þjóðfélagi, það stig sem er fyrir neðan háskólastig í raun?
    Hér heyrði ég áðan að fram kom spurning um Vísindasjóð. Það er mjög athyglisvert og nauðsynlegt að fá að vita til að unnt sé að taka afstöðu til þessa frv., hvað er ætlunin að Vísindasjóður geri? Hvað á hann að styrkja mikið? Hvernig verður hann efldur? Hversu mikið fjármagn rennur til Vísindasjóðs? Það er varla hægt að ætlast til þess að menn geti samþykkt þetta frv. nema vita hvað þar felst í. Það er afar stór þáttur í þessu máli öllu, ég held að allir hljóti að geta samþykkt það.
    Við sjötta liðinn hef ég ekki athugasemdir.
    Við sjöunda liðinn er það að segja að lántökugjald er að sjálfsögðu ekkert annað en hækkun vaxta.

Og þó að hér sé sagt að þetta sé tiltölulega rýmilegt lántökugjald þá er það hækkun vaxta frá því sem nú er og ekkert annað.
    Tveir ábyrgðarmenn. Ég tel rétt sem segir í greinargerð samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna að eins og lánin eru nú uppsett, þá getur vitanlega reynst mörgum erfitt að ná í tvo ábyrgðarmenn og gæti orðið til þess að hindra það að þeir fái námslán. Ég veit nú ekki af hverju er ekki nóg að hafa einn traustan ábyrgðarmann, e.t.v. væri þá eitthvað betur gengið eftir því að hann sé traustsins verður.
    Við sameiningu skuldabréfa geri ég ekki athugasemdir.
    En við tíunda liðinn, að námsaðstoð verði aldrei greidd út fyrr en sýnt hafi verið fram á námsárangur, hef ég athugasemdir. Nú er það þannig að menn í fyrsta árs námi fá ekki námslán fyrr en þeir geta sýnt fram á að þeir hafi staðist öll próf eftir fyrstu önn og þá fá þeir útgreitt námslán fyrir fyrstu önn og geta þá greitt upp skuldirnar. Með þessu móti er námsmaðurinn settur í þá stöðu að þurfa stöðugt að vera að taka lán. Hann fær útgreitt eftir fyrstu önn og hann greiðir upp sínar skuldir, síðan verður hann að taka annað lán til að geta haldið áfram með næstu önn. Það vita allir að slík lán fást ekki nema með 10% vöxtum eins og nú er, verðtryggð lán, fyrir utan ýmsan kostnað. Mér finnst undarlegt að geta ekki tekið góðan námsárangur eftir fyrstu önn góðan og gildan. Að sjálfsögðu ef ekki kemur svo tilskilinn námsárangur eftir aðra önn þá er lánið fellt niður og hann fær ekki lán. Ef ég veit rétt þá eru núna sektir við því að taka of mikið út, meira en viðkomandi á rétt á. Ég sé ekki að þarna sé mikil áhætta tekin þó að námsárangur eftir fyrstu önn væri látinn gilda eins og nú er.
    Ég get tekið undir það sem ég hef heyrt, að það er spurning með verkefni sjóðsins, að veita almenn skuldabréfalán, og það væri gaman að heyra meira um það hvernig ráðherra hugsar sér það framkvæmt. Með hvaða kjörum verða slík skuldabréfalán, hvaða vöxtum, til hve langs tíma o.s.frv.?
    En það er líka eitt í þessu sem vekur dálitla umhugsun. Í þessu máli eru mjög miklar heimildir fyrir sjóðstjórnina. Miklu minna er bundið í lög en nú er. Það er með öðrum orðum langtum meiri óvissa fyrir námsmanninn og vekur mann til umhugsunar um það hvernig farið hefur verið með lækna í sérfræðinámi, t.d. í Bandaríkjunum, og um birtist mjög athyglisverð grein í Morgunblaðinu fyrir nokkru, það var nokkru fyrir áramótin. Ég hef ekki tekið niður dagsetninguna á þeirri grein en hún heitir ,,Aðför að læknum í sérfræðinámi`` og er rituð af Steingerði Sigurbjörnsdóttur sem er við nám úti í Bandaríkjunum. Ég vildi gjarnan mega spyrja hæstv. ráðherra nokkuð um þau mál. Staðreyndin er sú að nám lækna í Bandaríkjunum hefur ýmist verið talið lánshæft eða ekki. Það vildi svo til að ég hafði tækifæri til að hitta nokkra þeirra sem eru þar við nám þegar ég var á vegum þingsins hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég ræddi t.d. við mann sem fór þangað og fékk lán. Nú er búið að fella það niður. Þessi maður er með stóra fjölskyldu og hann veit ekkert hvað hann á að gera. Svona óvissu verður vitanlega að forðast. Hvers vegna er þetta gert? Jú, ég hef lesið svör formanns sjóðstjórnar en mér sýnast þau afar haldlítil. Hvers vegna má ekki draga frá eða taka tillit til lánshæfni námsmannsins þá styrki sem hann fær? Þeir eru vitanlega dregnir frá. Og ef styrkirnir eru það háir að þeir eru taldir fullnægja framfærslukostnaði mannsins, þá fær hann engin lán. Af hverju er ekki farið með þetta eins og hverja aðra? Af hverju er ekki farið með þetta eins og t.d. þá sem sækja doktorsnám í Bandaríkjunum? Þeir fá styrki, allir svo að segja, ég hygg hver einasti maður. En þeir fá líka námslán. Þar eru fengnar upplýsingar um styrkina og þeir eru dregnir frá þegar framfærslukostnaður er reiknaður. Og vitanlega á þetta að vera það sama með lækna í sérnámi. Staðreyndin er sú að læknar hér eftir 6 ára nám verða að leita sér menntunar áfram til að komast í sérfræði. Er það ætlun hæstv. ráðherra að útiloka lækna frá því að leita t.d. framhaldsnáms í Bandaríkjunum? Þar er áreiðanlega einhverja bestu menntun að fá í læknisfræðinni og við höfum svo sannarlega notið þess í frábærum læknum sem hingað hafa komið. Og við höfum notið þess að læknar hafa getað leitað til margra landa. Hér er einkennandi dæmi um þá óvissu sem svona hringlandaháttur veldur námsmönnum sem farið hafa út í góðri trú og veldur þeim miklum erfiðleikum. Mér finnst það í raun og veru jaðra við mannréttindabrot þegar svona er komið fram. Það væri þó öllu skárra að segja strax: Þetta er ekki lánshæft. Það kemur að vísu, sýnist mér, ekki fram í þessu frv. Það er á valdi stjórnar sjóðsins. Ég vil hins vegar harðlega mótmæla svona aðför að námsmönnum í Bandaríkjunum, þeim sem eru í læknanámi þar og vil spyrja hæstv. menntmrh.: Hvers vegna er þeim ekki heimilt að sækja um lán og til frádráttar kemur sá styrkur sem þeir fá? Þeir fengu lán á síðasta ári. Þá var þetta gert svona. Það var dregið frá og vitanlega fengu þeir þá minna lán. Þessir námsmenn eru flestir með sínar fjölskyldur, þeir eru komnir á þann aldur og þurfa að sjá þeim farborða og það er bara í örfáum tilfellum sem maki fær vinnu, það er hrein undantekning í Bandaríkjunum núna. Þetta finnst mér satt að segja afar illa gert og ekki lánasjóðnum til sóma. Ég hefði gaman af að vita hvort hæstv. menntmrh., sem ég þekki ekki nema af manngæskunni, hefur verið kunnugt um svona hringlandahátt í sjóðnum og hvort hann vill ekki kippa þessu í lag.
    Margt fleira mætti ræða í þessu sambandi. Ég vil spyrja um það af því að ég hef heyrt því fleygt að þar sem skólagjöld eru há, t.d. í Bretlandi og reyndar í Bandaríkjunum, þar megi segja að námsmenn verði útilokaðir frá að sækja nám. Nú fann ég það ekki í þessu frv. við yfirlestur að það væri beinlínis sagt að skólagjöld yrðu ekki greidd. Er það líka á valdi sjóðstjórnar? Og eru einhverjar hugmyndir eða reglur sem hæstv. menntmrh. veit um sem mundu t.d. útiloka námsmenn frá að sækja framhaldsnám eða háskólanám almennt á slíkum stöðum þar sem skólagjöld eru nokkuð há? Ég tel það vera mjög slæmt að gera það. Ég tel það mikinn kost að íslenskir námsmenn sæki sem víðast sitt nám. Vitanlega má segja sem svo að

ef þeim verður ekki búin aðstaða í framtíðinni til að fá góða vinnu og geta greitt þessi námslán þá er til lítils að vera að sækja slíkt nám. En það á vitanlega við framhaldsnám hvar sem það er sótt. Við þessu vildi ég líka gjarnan fá svar.
    Ég sagði hér í upphafi að við framsóknarmenn vildum gjarnan skoða hugmyndir sem gætu orðið til þess að draga úr kostnaði ríkissjóðs við námslánakerfið. Við erum ekki tilbúnir að taka þátt í að skera það svo niður við trog sem hér er lagt til. Ég geri ráð fyrir því að okkar fulltrúar í menntmn. muni þar leggja fram slíkar hugmyndir og reyna að fá þær þar ræddar og ég vona eindregið að hæstv. menntmrh. stuðli að því að þar geti farið fram góð umræða og það verði vilji til þess að skoða hugmyndir sem koma fram og eru til sparnaðar þó að þær séu eitthvað til að ganga á móts við námsmenn.
    Ég hef kynnt mér nokkuð starf námsmanna að þessu leyti og mér sýnist að þar hafi verið tekið afar málefnalega á og satt að segja lagðar fram mjög umhugsunarverðar tillögur og ég harma að sú nefnd sem samkvæmt grg. var skipuð í október skuli ekki hafa séð sér fært að taka þær til alvarlegrar athugunar og ganga eitthvað til móts við námsmenn. Svo var gert 1982 og þá náðist sæmileg sátt. Námsmenn eru ánægðir með það kerfi, ríkissjóður ekki og menntmrh. þá sérstaklega fyrir hans hönd. En námsmenn hafa sagt að þeir væru tilbúnir að skoða ýmsar breytingar á því kerfi sem gæti orðið til að draga úr kostnaði ríkissjóðs.
    Ég vil segja það sem mína persónulegu skoðun að mér finnst t.d. ofrausn af íslenska ríkinu að kosta menn með námslánum til starfa erlendis, til að setjast að erlendis. Það væri gaman að vita ef hæstv. menntmrh. hefur þær upplýsingar: Hvað eru þeir margir íslenskir námsmenn sem hafa sest að erlendis? Þeim fjölgar eflaust gífurlega á næstunni miðað við þá stefnu sem hér er í atvinnumálum. Ef þeim sem setjast að erlendis væri t.d. gert að greiða vexti og greiða lánið með jöfnum afborgunum á einhverjum ákveðnum og skemmri tíma --- ég segi fyrir mitt leyti að svona hugmyndir gæti ég skoðað og ég er sannfærður um að það mundi spara ríkissjóði stórar upphæðir og þá væri jafnframt hægt að gera betur við þá námsmenn sem ætla sér að nýta sína menntun fyrir íslenska þjóð og það er vitanlega það sem við leggjum höfuðáherslu á.